Uppboðshús Kaupandi skoðar skinn fyrir uppboð í Glostrup.
Uppboðshús Kaupandi skoðar skinn fyrir uppboð í Glostrup. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Grundvöllur Kopenhagen Fur uppboðshússins í Danmörku er brostinn og eigendur þess, danskir minkabændur, hafa ákveðið að slíta félaginu og leggja niður starfsemina á næstu tveimur til þremur árum.

Grundvöllur Kopenhagen Fur uppboðshússins í Danmörku er brostinn og eigendur þess, danskir minkabændur, hafa ákveðið að slíta félaginu og leggja niður starfsemina á næstu tveimur til þremur árum. Þó verða flokkuð skinn í vetur og seld á fjórum uppboðum á komandi sölutímabili.

Umdeild ákvörðun og tilmæli dönsku ríkisstjórnarinnar um niðurskurð allra minka í Danmörku vegna þess sem þau töldu hættulegt stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hefur mikil áhrif á greinina enda Danir stórir í minkarækt og sölu minkaskinna. Kopenhagen Fur er stærsta uppboðshús heims í skinnavörum. Þar eru um 300 starfsmenn. Íslenskir minkabændur hafa selt framleiðslu sína þar í mörg ár og fengið góða þjónustu.

Eigendur og stjórnendur fyrirtækisins telja að grundvöllur fyrirtækisins sé brostinn með ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Fjármunirnir sem safnast hafa þar upp renna til eigendanna, danskra minkabænda, sem eru í erfiðri stöðu.

Í frétt á vef fyrirtækisins kemur fram að næsta söluár verði með hefðbundnum hætti. Reiknað er með að 5-6 milljónir danskra skinna berist, frá búum utan sýktu svæðanna. Þau bætast við sex milljónir skinna sem til eru í birgðum frá síðasta sölutímabili. Þá er reiknað með skinnum frá öðrum Evrópuríkjum.

Uppboðshúsið reiknar með að halda uppboð 2022 og hugsanlega eitt eða tvö árið 2023.

helgi@mbl.is