Bretland Dominic Cummings og Cleo Watson, sem bæði eru ráðgjafar breskra stjórnvalda, koma til fundar í gær.
Bretland Dominic Cummings og Cleo Watson, sem bæði eru ráðgjafar breskra stjórnvalda, koma til fundar í gær. — AFP
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Dominic Cummings, hinn umdeildi stjórnandi baráttunnar 2016 fyrir því að Bretar færu úr Evrópusambandinu (ESB), ætlar að hætta sem aðalráðgjafi Boris Johnsons um næstkomandi áramót, eða þegar Brexit gengur endanlega í gegn, að sögn breskra fjölmiðla.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Dominic Cummings, hinn umdeildi stjórnandi baráttunnar 2016 fyrir því að Bretar færu úr Evrópusambandinu (ESB), ætlar að hætta sem aðalráðgjafi Boris Johnsons um næstkomandi áramót, eða þegar Brexit gengur endanlega í gegn, að sögn breskra fjölmiðla.

Cummings, sem hefur þótt meiri sundrari en sameiningarmaður, hafði risið til mikilla áhrifa og valda innan bresku ríkisstjórnarinnar. Hann sagði breska útvarpinu BBC frá því seint í fyrradag að nýlegar vangaveltur um hvort hann væri á förum væru „tilbúningur“.

Meint valdabarátta á ríkisstjórnarheimilinu hefur komið fram í dagsljósið en Cummings vísaði til bloggs frá í janúar sl. þar sem hann sagðist verða „meira og minna atvinnulaus“ innan eins árs.

„Staða mín hefur ekki breyst frá blogginu mínu í janúar,“ sagði Cummings en háttsettur maður innan stjórnarinnar sagði BBC að hann myndi yfirgefa stjórnarheimilið, Downingstræti 10, fyrir jól. Brottför hans fellur saman við lok aðlögunartíma Brexit-samningsins 31. desember, en þá losna Bretar endanlega undan reglum og reglugerðum ESB og hefja sjálfstætt líf utan sambandsins. „Hans verður saknað, en hvað með það, við hefjum nýjan lífsfasa. Ríkisstjórnir hafa alltaf þörf fyrir fólk sem hristir upp í starfseminni með nýjum hugmyndum. Hann er slíkur náungi,“ sagði samgönguráðherrann Grant Shapps við fréttasjónvarpið Sky News í gær.

Pólitískt tjón

Cummings, torræður maður með óhefðbundinn fatastíl, sem tekst á við stjórnmálin eins og í bardaga, var útnefndur aðalráðgjafi Johnsons er hann tók við völdum í Bretlandi í júlí í fyrra, 2019. Honum er eignað stórt hlutverk í kosningasigri Íhaldsflokksins í desember sl., en ráðríki og tíðir árekstrar við samstarfsmenn eru sagðir hafa skapað viðvarandi spennu á stjórnarheimilinu.

Hann kallaði yfir sig álitshnekki fyrr á árinu með ferðalagi um Bretland í miðju stríði við kórónuveiruna. Virtist ferðalagið brjóta gegn ströngum útivistarreglum sem hann tók sjálfur þátt í að semja.

Cummings sýndi merki kórónuveirusmits á þessum tíma en konan hans hafði sýkst. Hann réttlætti ferðalagið með því að hann hefði þurft valkosti vegna pössunar ungs sonar þeirra hjóna. Málið blossaði upp en almenningur og stjórnmálamenn brugðust ókvæða við. Vísaði hann á bug kröfum um afsögn og Johnson stóð með sínum manni þrátt fyrir að það hefði pólitískt tjón í för með sér.

Cummings hefur síðan verið í fylkingarbrjósti í stríði stjórnarinnar gegn kórónuveirufaraldrinum. Er hann sagður höfundur „tunglskotsáætlunar“ hennar sem kveður á um milljónir veiruprófa á dag svo ósýktur almenningur geti farið frjáls ferða sinna. Á Downingstræti 10 hefur dunið viðvarandi gagnrýni á miðstýringu baráttunnar gegn faraldrinum. Hefur hann kostað rúmlega 50.000 manns lífið í Bretlandi – mesta dauðsfall í Evrópu – og önnur sýkingarbylgja rís nú hvað hæst og sýnir lítil merki um að í henni fari að sljákka.

Tækifæri til að breyta kúrs

Johnson hefur brugðist við auknum sýkingum með fjögurra vikna útgöngubanni í Englandi, við litlar vinsældir margra þingmanna Íhaldsflokksins. Gamalreyndur þingmaður Íhaldsflokksins, Bernard Jenkin, sagði að með burtför Cummings gæfist tækifæri til að endurreisa „virðingu, heilindi og traust“ milli þingmanna flokksins og stjórnarheimilisins sem „á hefði skort síðustu mánuðina“.

Fréttin af brottför Cummings kemur aðeins sólarhring eftir uppsögn Lee Cain, fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherrans. Hann hefur verið náinn samverkamaður Cummings og var í framlínunni í baráttunni fyrir úrsögninni úr ESB 2016. Minna fór fyrir Cain sem boðin var staða starfsmannastjóra Johnsons. Sú tillaga fékk lítinn hljómgrunn hjá mörgum þingmönnum og innsta hring samstarfsmanna forsætisráðherrans. Varð það til þess að Cain sagði starfinu upp.

Brottför þessara tveggja og daglegir sjónvarpaðir blaðamannafundir þykja boða breyttar áherslur og taktík hjá ríkisstjórn Johnsons. David Lammy, þingaður Verkamannaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu, líkti brottförinni við „rottur sem væru að strjúka af sökkvandi skútu“. Hann sér ekki eftir Cummings því hann sagði „arfleifð hans einkennast af kúgunum, blekkingum, hræsni og ofdrambi“.

Með hvarfi Cummings fellur tjaldið á róstusamt tímabil breskra stjórnmála fyrir manninn sem átti stóran þátt í að móta pólitíska framtíð Bretlands. David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði hann vera „geðvilling að ævistarfi“ og hann hefur verið óvinsæll hjá mörgum þingmönnum Íhaldsflokksins. Johnson fól honum að stýra stórtækum áætlunum um nútímavæðingu efnahagslífsins og opinberrar stjórnsýslu. Þau áform hafa fallið í skugga kórónuveirufaraldursins.

Hinn 48 ára gamli Cummings sparaði ekki lýsingarorðin er hann lýsti eftir samverkamönnum til að koma stóru áformunum á koppinn. Ögraði hann embættismannakerfinu er hann lýsti eftir „sérvitringum og utangarðsmönnum“ í deild sína sem „vísindanördar og „listamenn“ myndu knýja fram.