Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Daufur hann í dálkinn er. Dugar vel til styrktar þér. Felling er á segli sá. Síðan mishæð landi á. Guðrún B. leysir gátuna þannig: Grillaði Ýr gráðost hrygg. Hún gat stutt hrygg við bekk.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Daufur hann í dálkinn er.

Dugar vel til styrktar þér.

Felling er á segli sá.

Síðan mishæð landi á.

Guðrún B. leysir gátuna þannig:

Grillaði Ýr gráðost hrygg.

Hún gat stutt hrygg við bekk.

Frá hrygg á segli sagði, trygg,

en svo upp hrygginn gekk.

Eysteinn Pétursson svarar:

Hryggur daufur í dálkinn er.

Dável hryggurinn nýtist mér.

Hrygg má ætíð á segli sjá.

Svo er hann mishæð landi á.

Helgi Þorláksson á þessa lausn:

Hryggir ekki teljast teitir,

tilstyrk mikinn hryggur veitir,

felling í segli hryggur heitir,

um hryggi fara menn í leitir.

Helgi R. Einarsson svarar:

Veiran hryggir víst hann.

Hryggur styrkir hvern mann.

Hrygg má á seglinu sjá,

sem og landinu á.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Hryggur þessi halur er.

Hryggurinn þig uppi ber.

Hrygg á segli síðan finn.

Svo er hryggur fjallsásinn.

Þá er limra:

Veru bað Vermundur sveri,

en Vera þá upp á sig sneri

og hryggbraut þann

heiðursmann,

og hryggurinn illa greri.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Rokið úti rýkur hátt,

rignir nú um hverja gátt.

Inni sérhver una má,

eflaust margir gátu þrá:

Í stiga honum stend ég á.

Stykki á rokk nú finna má.

Bera dót í búð ég sá.

Baðstofuloftið nefni þá.

Helgi R. Einarsson lét þessa limru fylgja sinni lausn:

Það gerðist er gamli Jótinn

gaf henni undir fótinn.

Það gerði' ann svo fast

að grindin hún brast

og gáfu sig liðamótin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@siment.is