Aðalbjörn Tryggvason, Addi í Sólstöfum, hefur gjörbreytt um lífstíl á síðustu sjö árum. Hætti að drekka 2013 og er búinn að vera reyklaus í meira en ár. „Mér finnst gott að reykja sígarettur en það er bara orðið svo mikið vesen, sérstaklega þegar maður ferðast mikið í flugi,“ segir hann.
Aðalbjörn Tryggvason, Addi í Sólstöfum, hefur gjörbreytt um lífstíl á síðustu sjö árum. Hætti að drekka 2013 og er búinn að vera reyklaus í meira en ár. „Mér finnst gott að reykja sígarettur en það er bara orðið svo mikið vesen, sérstaklega þegar maður ferðast mikið í flugi,“ segir hann. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margt hefur gengið á hjá Aðalbirni Tryggvasyni, Adda í Sólstöfum, síðustu árin; uppgjör við alkóhólisma, sambandsslit og vinslit sem hér um bil riðu hljómsveitinni að fullu.

Margt hefur gengið á hjá Aðalbirni Tryggvasyni, Adda í Sólstöfum, síðustu árin; uppgjör við alkóhólisma, sambandsslit og vinslit sem hér um bil riðu hljómsveitinni að fullu. En einnig gleðilegri hlutir, eins og velgengni Sólstafa erlendis og fæðing hans fyrsta barns. Á nýju plötunni, Endless Twilight of Codependent Love, er ein af meinsemdum mannlífsins, meðvirknin, í forgrunni. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Langt er liðið á kvöldið þegar ég tek hús á Adda í Sólstöfum í miðbæ Reykjavíkur. Sannarlega óvanalegur tími fyrir viðtal af þessu tagi en heilmikið rokk í því, þegar maður hugsar út í það. Það er þó ekki rokk sem tafði Adda, heldur lenti hann í Ófærð. Nei, ó-ið er ekki ofvaxið, við erum nefnilega að tala um þriðju seríu sjónvarpsþáttanna vinsælu úr smiðju Baltasars Kormáks og félaga. Addi vinnur um þessar mundir sem hljóðmaður á settinu á löngum vöktum, myrkranna á milli og rúmlega það, og fyrir vikið gat hann ekki tekið á móti mér fyrr en klukkan 22.

Okkar maður er á heimavelli í hljóðinu en hann nam þau fræði í Skotlandi fyrir meira en áratug og hefur gripið annað veifið í hljóðmennskuna með tónlistinni undanfarin ár. Bæði í tengslum við upptökur á tónlist en um skeið starfaði hann líka hjá Myndformi við talsetningu á teiknimyndum.

„Það er mjög gaman að taka þátt í svona risastóru verkefni eins og Ófærð,“ segir Addi, þegar við höfum komið okkur fyrir í borðstofunni á heimili hans, sem er eins konar bræðingur af rokksafni og íbúð. Á veggnum vakir Hr. Rokk sjálfur yfir okkur, Rúni Júl. Einbeittur á svip en svalur sem endranær.

„Þetta eru auðvitað mjög skrýtnir tímar og sérstakt að vera hitamældur á hverjum morgni í vinnunni, mega ekki umgangast nema örfáa á settinu og þurfa að fara að stífum reglum bara til að fá sér kaffi,“ heldur Addi áfram en sóttvarnir eru að vonum í hávegum hafðar á tökustað sem hefur skilað sér; ekkert smit hefur komið upp til þessa. 7-9-13. „Þetta er rándýrt verkefni, Netflix-sería, og fyrir vikið má engan tíma missa. Maður er líka þakklátur fyrir að hafa vinnu á þessum tímum, því miður á það ekki við um alla,“ segir Addi sem í sumar vann sem smiður við byggingu hótels í miðbænum. Greinilega margt til lista lagt.

Nægur tími í Bischofswerda

Í venjulegu árferði væri Addi væntanlega á leið í tónleikaferð um heiminn til að kynna nýju plötu Sólstafa, Endless Twilight of Codependent Love, sem kom út á dögunum. En heimsfaraldurinn heldur áhöfnum allra hljómsveita í landi eins og hver önnur bræla.

Sveitin býr að traustu fylgi ytra og hefur drepið niður kúrekastígvéli í flestum heimsálfum á liðnum árum.

Hann rifjar upp túr sem Sólstafir fóru í ásamt Kælunni miklu til Bandaríkjanna og Kanada í fyrra á vegum Íslandsstofu og átaksins Taste of Iceland. „Íslandsstofa hefur það hlutverk að kynna skyr, íslenskt brennivín, rithöfunda og tónlist. Ég skil af hverju Kælan mikla var þarna, það eru ungar stelpur á uppleið, en átta mig ekki alveg eins vel á því hvað við vorum að gera þarna, gömlu karlarnir,“ segir hann hlæjandi. „En þetta var mjög skemmtilegt og ánægjulegt að hafa aldrei þessu vant smá frítíma í New York. Það er ekki venjan á þessum túrum. Ég hef til dæmis komið tvisvar til San Francisco en ekkert séð, ekki einu sinni borgina í dagsbirtu. Af einhverjum ástæðum er hins vegar alltaf nægur frítími í smábænum Bischofswerda í Saxlandi.“

– Og mælirðu með einhverju sérstöku þar?

„Nei!“

Þeir eru fleiri bæirnir með skemmtileg nöfn, svo sem Elko, Nevada. Þar tróðu Sólstafir upp á The Silver Dollar og var boðið upp á krakk í miðju giggi; bandi þar sem allir liðsmenn eru edrú.

Lífið á túr er ekki alltaf dans á rósum en yfir sumarið þræða Sólstafir tónlistarhátíðir. Þá er gjarnan lítið sofið. „Við höfum náð allt að tuttugu festivölum á sumri og einu sinni tókum við þrjú festivöl á þremur dögum í þremur löndum, Belgíu, Hollandi og Póllandi. Þá sá maður ekki rúm í þrjá sólarhringa og náði ekki kríu fyrr en við hlið 21B á Kastrup. Á því ferðalagi var ég feginn að vera ekki lengur fullur eða að nota spítt.“

Hér um bil handteknir í Hollandi

Um tíma var Addi í basli með röddina á túrum, prófaði að skipta um sígarettutegund en allt kom fyrir ekki. „Það hvarflaði ekki að mér að þetta tengdist því að ég drakk lítra af viskíi og slatta af bjór á hverjum degi. Núna syng ég í tvo tíma án minnstu vandamála, dag eftir dag. Þetta blasir við. Það var heldur ekki bara röddin; núna er maður til staðar á þessum túrum og sér heiminn í allt öðru ljósi. Um leið og giggið var búið hér áður var spurt: Hvar er partíið? Í dag þráir maður bara að komast í hreint hótelrúm og hvíla sig fyrir næsta gigg.“

Hótel eru líka ný lífsreynsla, þannig lagað séð. „Þegar maður var að drekka þá var maður bara tékkaður inn á hótel en kom aldrei þangað sjálfur. Djammaði alla nóttina og fór beint í flug að morgni. Ef partíið barst inn á hótelherbergi gat það endað með ósköpum, sjónvörp voru mölvuð og allur sá pakki. Einu sinni brutum við eldvarnakerfi frammi á gangi á hóteli í Hollandi og áður en við vissum af voru mættir slökkviliðsmenn í reykbúningum og með axir og gamalt fólk komið út á stétt. Allir vissu að við bárum ábyrgðina og til stóð að handtaka okkur. Okkur tókst hins vegar að sleppa undan því með því að bjóðast til að borga fyrir viðgerðina á eldvarnakerfinu og morgunmat fyrir alla gesti hótelsins morguninn eftir. Eina vandamálið var að við áttum engan pening, þannig að hljóðmaðurinn varð að hringja heim í konuna sína og tilkynna henni að hann þyrfti að nota spariféð þeirra til að beila þessa fávita út.“

Annar skellur kom á Hellfest í Frakklandi. Þar gengu Sólstafir svo hressilega fram af Ben Barbaud, eiganda hátíðarinnar, að hann hringdi í plötufyrirtækið þeirra, Season of Mist, og bað þá um að koma með hraði og sækja sína menn; einn þeirra væri dauður undir bekk um miðjan dag. „Það nennir enginn að standa í svona rugli,“ segir Addi og dæsir. Eins og í Hollandi slapp það þó fyrir horn en hann viðurkennir að þetta hafi verið farið að skemma fyrir bandinu, orðsporið var í uppnámi.

Reglan var að menn fóru ekki fullir á svið en máttu vera orðnir hellaðir í lok tónleika en þá lá ósjaldan heil viskíflaska í valnum. Þá tók við tómt rugl, að taka saman græjurnar og annað slíkt, blindfullir. Ófá neyðarvegabréfin voru gefin út fyrir Sólstafi á þessum árum og einu sinni flaug bandið heim frá Noregi án þess að einn þeirra gæti framvísað pappírum af nokkru tagi. „Það var auðvitað kolólöglegt en Norðmennirnir tóku bara kalt mat á stöðuna: „Komum þessu mönnum úr landi!““

Það versta var það besta

Síðla árs 2013 lenti Addi á vegg og keyrði tappann í flöskuna. Það tengdist þó ekki tónleikahaldi ytra. „Ég var orðinn óheiðarlegur við konuna mína. Það komst upp um mig og hún henti mér út. Ég þoldi ekki vinkonu mína sem kjaftaði frá en faðma hana innilega að mér í dag þegar ég hitti hana. Það versta sem gat komið fyrir mig var í raun og veru það besta. Hefði ekki komist upp um framhjáhald mitt þá hefði ég mögulega haldið áfram að drekka. Ég brotnaði niður og var tilbúinn að gera allt sem í mínu valdi stóð til að bæta fyrir misgjörðir mínar en sambandinu lauk samt. Það var mjög sárt að fá höfnunina en ég skil hana vel; hún varð að skila mér. Við erum perluvinir í dag.“

Addi hafði lengi sannfært sjálfan sig um það að hann gæti ekki hætt að drekka. Hann væri í rokkbandi. „Ég hafði heyrt af mönnum sem höfðu hætt að drekka og fannst þeir skrýtnir. Aumingja kallinn, lífið er búið hjá honum! Eflaust líta einhverjir þannig á mig í dag. Ég fann til með mönnum sem ég lít upp til eins og James Hetfield, Trent Reznor og Nick Cave en staðreyndin er sú að þeir hafa aldrei verið betri en eftir að þeir hættu að drekka; eru ekkert endilega að búa til betri músík en hafa mun meiri orku til að flytja hana og miklu meiri reisn.“

Sjálfur nýtur hann þess margfalt betur að spila á tónleikum edrú. „Það er frábær tilfinning að vera uppi á sviði fyrir framan kannski fimmtán þúsund manns í tjaldi á einhverri hátíðinni og spila lögin sem við sömdum saman og áhorfendur syngja með okkur Fjöru og hlaða jafnvel í „ole, ole“.

Addi fór ekki í áfengismeðferð, heldur þáði hjálp hjá góðu fólki. Kveðst eiga meðferðina inni en vonar að ekki reyni á það úrræði. „Vogur er afeitrunarstöð og sjúkrahús og engin trygging fyrir því að tíu daga meðferð dugi mönnum til að halda sér á beinu brautinni, eins og dæmin sanna. Maður verður ekki í raun og veru edrú fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjá mánuði. Ég hætti að drekka 1. desember 2013 og flutti beint inn í stúdíó til að taka upp Óttu. Lifði þar á kaffi og sígó í tvo mánuði og var kominn niður í 66 kíló. Mæli ekki endilega með því. Ég er 191 á hæð. Áður en ég vissi hafði ég verið edrú í sex mánuði, síðan eitt ár og núna um mánaðamótin verða komin sjö ár.“

Sólstafir voru lengi bara fjórir á ferðum sínum erlendis, ekki svaraði kostnaði að borga undir hljóðmann. Nú ferðast þeir alltaf með hljóðmanni og á síðasta túr, vegna plötunnar Berdreyminn sem kom út 2017, var Ragnar Ólafsson úr Árstíðum með þeim á hljómborð, auk fjölþjóðlegs klassískt þjálfaðs strengjakvartetts. Í honum eru tvær finnskar konur, ein bandarísk og ein grísk/mongólsk. „Það er ótrúlegt að heyra svona færa listamenn spila dótið okkar; manni líður nefnilega alltaf eins og maður sé sextán ára málmhaus í Breiðholtinu,“ segir Addi brosandi.

Vinslit og málaferli

Sólstafir hafa starfað í aldarfjórðung og þótt á ýmsu hafi gengið hefur ekkert reynt eins ofboðslega á bandið og brottrekstur Guðmundar Óla Pálmasonar trommuleikara í ársbyrjun 2015. „Við Gummi erum æskuvinir. Ég þekki alla hans fjölskyldu og það er yndislegt fólk. Allt gekk vel framan af en fólk breytist og fyrir um tíu árum voru komnir brestir í samstarfið og vináttuna. Andinn í bandinu var orðinn brenglaður og skrýtinn og það var búið að stefna í þetta um tíma, að við létum hann fara. Lengi vel hugsaði maður: Við erum lið og látum þetta ganga! Þetta varð hins vegar alltaf ljótara og ljótara; ekki bara milli okkar Gumma, hinir tveir drógust inn í málið líka.“

Hann segir andrúmsloftið á Evróputúrnum haustið 2014, þegar þeir túruðu plötuna Óttu, hafa verið eitrað en þá voru menn fastir saman í rútu í mánuð. Enginn var að tala saman, enginn að skemmta sér. Frá Evrópu var flogið til austurstrandar Bandaríkjanna, þar sem við tók annar túr í mánuð. „Þar vorum við með sendibíl og þú getur rétt ímyndað þér hvernig stemningin var. Hefðum við komið heim með fullt af peningum hefði það verið annað mál en það var öðru nær; það er ekkert upp úr þessu að hafa peningalega. Þegar við komum heim rétt fyrir áramótin blasti við nýr túr eftir mánuð. Það hefði aldrei gengið.“

Addi átti ekki í neinum erjum við hina tvo, Svavar Austmann bassaleikara og Sæþór Maríus Sæþórsson gítarleikara, og þeir stóðu því frammi fyrir skýru vali: „Viljum við leggja bandið niður eða losa okkur við Gumma og halda áfram?“ Enginn vildi hætta, þannig að seinni kosturinn varð fyrir valinu.

Guðmundur tók tíðindunum ekki vel og höfðaði mál á hendur Adda. „Honum fannst hann eiga tilkall til nafnsins Sólstafir og eiga rétt á fébótum og kaus að fara í mál við mig í nafni fyrirtækis sem við áttum saman. Í reynd var ég því að fara í mál við sjálfan mig. Héraðsdómur vísaði málinu frá. Við reyndum að ná samkomulagi við Gumma en enginn vilji var til þess af hans hálfu.“

Allsberir í World Class

– Hafið þið talað saman síðan?

„Nei, en við hittumst einu sinni fyrir tilviljun, allsberir í búningsklefanum í World Class. Ég var að koma úr sturtu. Það eru fjögur hundruð skápar þarna, ég hef talið þá, en aðeins tveir menn, við æskuvinirnir, hlið við hlið. Ég klæddi mig í þögn en áður en ég fór gat ég ekki stillt mig um að spyrja. „Finnst þér þetta ekki fyndið?“ Þetta var súrrealískt augnablik, eins og atriði úr einhverri kvikmynd.“

Mikið hefur verið um málið fjallað á samfélagsmiðlum og sitt sýnist hverjum. Addi hefur þó ekki blandað sér í þá umræðu sjálfur enda ekki til neins að rífast við fólk á netinu. „Auðvitað kom þetta við okkur. Allt hafði gengið vel, verið skemmtilegt og jákvætt. Við vorum heitt band upp úr 2010, partíljón frá Íslandi, með öðruvísi tónlist, hljóm og stíl, Fjara varð óvænt megahittari og Ótta gekk vel. Við vorum á frábærri bylgju og fólki fannst gaman að sjá okkur og djamma með okkur. Allt í einu vorum við hins vegar lentir í einhverjum aurstormi. Fólk tók afstöðu með eða á móti og allt skíðlogaði. Meðan sumir nenna ekki neikvæðni þá þrífast aðrir á henni. Mín afstaða er sú að aldrei sé hægt að gera öllum til geðs. Þess vegna höfum við bara haldið áfram að gera okkar tónlist og látið skoðanir annarra sem vind um eyru þjóta. Ég veit hvern mann ég hef að geyma og treysti mér til að haga mér og taka ákvarðanir. Það er erfitt að taka mark á fólki sem ekki hefur verið í hljómsveit, rétt eins og erfitt er fyrir fólk sem aldrei hefur verið gift að hafa skoðun á hjónabandi. Það að vera í rokkbandi er ekkert frábrugðið því að vera í hjónabandi; leggja þarf rækt við hvort tveggja til að það dafni. Það skilur heldur enginn við maka sinn eftir eitt rifrildi eða eina slæma helgi. Það þarf meira til.“

– Spilaði óregla inn í þetta?

„Í og með. Menn höfðu misjafnar hugmyndir um skemmtun. Það var líka ofbeldi í gangi. Þegar það er orðið normið að glerbrotum rigni yfir fólk, hver Smirnoff-flaskan af annarri sé mölvuð, þá er eitthvað að. Það segir sig sjálft.“

– Hvernig hugsarðu til æskuvinar þíns í dag?

„Það er svo merkilegt að þegar eitthvað bjátar á hjá bandinu þá eru mín fyrstu viðbrögð að hringja í Gumma. Lengi vel vorum við gott teymi og leystum öll mál. Við gerðum margt gott saman og deildum á margan hátt sömu sýn. Ég er núna að vinna að hliðarverkefni með Birgi Jónssyni trommuleikara og við fengum meðal annars söngvarann úr þýsku dauðarokkshljómsveitinni Morgoth til að syngja með okkur. Meðan ég var að hlusta á þessar upptökur á hlaupabrettinu fór ég að hugsa: Vá, hvað ég væri til í að leyfa Gumma að heyra þetta efni! Við elskuðum báðir þetta þýska band í gamla daga.“

Loksins kominn Bastarður

Ég gerist forvitinn um þetta hliðarverkefni og Addi upplýsir að plötu sé að vænta á næsta ári. Nafn sveitarinnar hefur ekki verið meitlað í stein en líklega verður það Bastarður. „Motörhead átti upphaflega að heita Bastard og það hefur aldrei neinn Bastarður verið til.“

Fyrr en nú.

Ég spyr um annað hliðarverkefni, Melrakka, sem komu saman fyrir nokkrum árum og heiðruðu Metallica á Gauknum með því að flytja fyrstu plötu málmgoðanna, Kill 'Em All, í heild sinni. „Við höfum oft talað um að taka upp þráðinn en það er aldrei tími. Bjössi [Björn Stefánsson í Mínus] er orðinn vinsæll leikari og Bibbi [Snæbjörn Ragnarsson í Skálmöld] situr aldrei auðum höndum. Við komum að vísu fram í fertugsafmælinu hans Bjössa í sumar og það var þrælgaman. Við eigum örugglega eftir að telja í aftur og flytja Ride the Lightning [næstu plötu] í heild. Við æfðum fjögur lög af henni fyrir seinasta gigg og eigum því bara önnur fjögur eftir.“

Nóttin nálgast og við erum enn ekki byrjaðir að ræða nýju plötu Sólstafa, Endless Twilight of Codependent Love. Platan er samin á síðasta ári og fjórmenningarnir fóru í hljóðver í Sundlauginni í Mosfellsbæ í febrúar síðastliðnum. Ekki náðist þó að ljúka upptökum vegna kórónuveirunnar fyrr en í maí.

„Það er alltaf svolítið skrýtið að tala um nýja plötu,“ útskýrir Addi. „Maður er búinn að vera svo lengi inni í henni sjálfur og er byrjaður að taka skrefið í burtu þegar aðrir byrja að kynnast henni. Ég er þó í ágætri æfingu að tala um þessa plötu, tók einhver sjötíu viðtöl við erlenda miðla á netinu í ágúst. Það var full vinna. Við náðum líka að gera tvö myndbönd í sumar og vonumst til að geta túrað plötuna í fyllingu tímans, stefnum alla vega að því þegar aðstæður leyfa.“

Samvinna liðsheildarinnar

Ekki er laust við að Endless Twilight og Codependent Love sé þyngri en síðustu plötur, Sólstafir nudda sér jafnvel utan í svartmálminn sem þeir eru sprottnir úr. Þarna kemur þó saman þyngra og mýkra efni og kennihljómurinn góði er á sínum stað. „Við þurftum að hætta að spila þungt til að fíla það aftur. Núna erum við búnir að spila Fjöru í tíu ár, sem er mjög gaman líka, þannig að tími var kominn til að prófa eitthvað annað. Annars finnst mér ekki vera neitt nýtt á þessari plötu, þannig lagað. Að því sögðu þá kemur aldrei alveg það sama frá okkur, við erum hvorki Iron Maiden né AC/DC. Það besta sem við höfum gert gegnum tíðina er þegar við höfum allir fjórir verið saman í herberginu og hent hugmyndum á milli okkar. Þá verður þetta samvinna liðsheildarinnar.“

Hann segir nýja manninn, Hallgrím Jón Hallgrímsson trymbil, síður en svo liggja á liði sínu en hann á bæði lög á plötunni og talsvert í textunum. „Við Hallgrímur kynntumst í hljóðnáminu úti í Glasgow og höfum verið góðir vinir síðan. Þegar hljómsveitir hafa starfað svona lengi er ekki sjálfgefið að finna nýjan mann sem passar inn, bæði tónlistar- og félagslega. Það er ekkert pláss fyrir farangur og Hallgrímur er ekki týpan sem er með vesen. Hefur smellpassað inn í hópinn.“

Sólstafir syngja mest á íslensku og titill nýju plötunnar sætir því tíðindum en síðustu plötur hétu Köld, Svartir sandar, Ótta og Berdreyminn. Ein af eldri plötum sveitarinnar ber hins vegar erlendan titil, Masterpiece of Bitterness frá 2005. Að sögn Adda er titillinn Endless Twilight of Codependent Love hálfgert slys; menn hafi kastað ýmsum íslenskum nöfnum á milli sín en ekkert fest við plötuna. „Okkur fannst þetta til að byrja með bæði skrýtinn og langur titill en síðan vann hann á. Og við létum slag standa.“

Meðvirkni frekar nýtt orð

– Þetta er mikill titill, Eilíft sólarlag meðvirkrar ástar, í lauslegri þýðingu. Hvað eruð þið að segja?

„Já, hann er það. Til útskýringar nota ég stundum annan enskan titil, Eternal Darkness of Toxic Relationships, og hann skilst strax betur. Meðvirkni er frekar nýtt orð í íslensku, alla vega yngra en „bátur“. Meðvirk ást getur til dæmis átt við þegar þú elst, tíu ára gamall, upp við það að pabbi þinn er alkóhólisti og þegar þú kemur heim er mamma þín aftur og aftur grátandi með glóðarauga. Hvað gerir þú þá? Ferð beint inn í herbergi og gerir þig ósýnilegan. Veist að það er þér fyrir bestu.“

Við horfumst í augu og Addi veit hvað ég er að fara að spyrja um áður en ég kem orðum að því.

„Nei, þessi saga byggir ekki á mínu lífi heldur lífi fólks í kringum mig. Flest þekkjum við þennan tíu ára krakka, ef við erum hann ekki sjálf. Meðvirknin verður meiri og meiri – þú þorir ekki að rugga bátnum og reita fólk til reiði. Þóknast þess í stað öðrum. Síðan verður þú þrítugur og fertugur og skilur ekki hvað amar að þér. Þú ert svo vanur að fela allt. Það er ákveðið tabú að tala um þessa hluti og núna þegar við erum sjálfir á ýmsan hátt búnir að taka til í okkar lífi þá langar okkur að vekja athygli á þessu. Í grunninn erum við ekki pólitískt band en skilaboðin eru þau að það sé engin skömm fólgin í því að vera í myrkrinu. Sjálfir höfum við glímt við alkóhólisma, kvíða og þunglyndi og farið með lyftunni niður í svartasta myrkrið. Ekki bara óvart. Við höfum þurft að hafa fyrir því að anda. Neyslan var minn djöfull, ég deyfði mig með áfengi og lyfjum, og maður hugsar sig ekki einn og óstuddur út úr slíkum aðstæðum. Þess vegna er svo mikilvægt að leita sér hjálpar og huga að sínu geðheilbrigði.“

Í sjöunda himni

Í dag líður Adda vel í eigin skinni. „Ég er hundrað prósent sáttur við viðsnúninginn í mínu lífi. Ég var á vissan hátt heppinn að enginn dró mig út úr partíinu. Ég fór sjálfur. Ég þekki menn sem eru djúpt sokknir, pissublautir og langar að kála sér. Ég finn til með þeim og vona að þeir sjái ljósið áður en það verður um seinan. Línan hjá manni verður ekkert flöt þótt maður hætti að drekka. Maður þarf bara að endurstilla sig. Lífið hefur upp á svo margt að bjóða.“

Sólstafurinn í lífi Adda í dag er dóttir hans, Eva Rut Aðalbjarnardóttir, sem fæddist 17. apríl sl. Hans fyrsta barn. Þau barnsmóðir hans voru aðeins saman til skamms tíma og sambandinu var lokið áður en Eva Rut fæddist. Hún býr hjá móður sinni en Addi hefur fengið að verja drjúgum tíma með henni.

„Það er svo merkilegt að ég fæddist 7.7 '77 og þegar ég er búinn að vera edrú í sjö ár þá eignast ég barn. Tilviljun?“ spyr hann með bros á vör. „Annars hélt ég að ég myndi aldrei eignast barn; fannst ég vera búinn að missa af því tækifæri, kominn yfir fertugt, og var satt best að segja búinn að sætta mig við það. Síðan var ég allt í einu viðstaddur heimafæðingu og kominn með krílið á brjóstkassann. Það er ekkert sem býr mann undir þá tilfinningu. Þvílíkt kraftaverk að upplifa. Ég hafði aldrei skipt á barni en tók þetta nýja hlutverk strax föstum tökum; í dag skiptir ekkert meira máli í lífinu en að veita dóttur minni ást og umhyggju og bera á henni ábyrgð.“

Hann er afar þakklátur fyrir að vera edrú þegar hann tekst þetta verðuga verkefni á hendur. „Ég þekki marga alkóhólista og hef heyrt mjög sorglegar lýsingar á því hvernig börnin voru fyrir meðan þeir voru að drekka. Hugsaðu þér af hverju þetta fólk missti! Sjálfum finnst mér ekkert jafnast á við að leika við dóttur mína hérna á stofugólfinu. Það eru ómetanlegar stundir. Ég hlakka mjög til að gera alls konar hluti með henni í framtíðinni. Það er eins gott að henni líki Gibson-gítarar,“ segir hann en gott safn er að finna í húsinu. „Nú endar plötusafnið mitt heldur ekki í Góða hirðinum; það er kominn erfingi.“

Það kom Adda í opna skjöldu að hann varð alveg ofboðslega „óléttur“ sjálfur meðan á meðgöngunni stóð. „Ég grét af minnsta tilefni, það var eins og ýtt hefði verið á einhvern takka sem vonlaust var að slökkva á,“ rifjar hann upp hlæjandi. „Þetta voru bara tár, tilfinningar og fleiri tár. Alveg stórkostlega skrýtið.“

Addi er ekki eini hljómsveitarliðsmaðurinn í þessum sporum en Hallgrímur trymbill eignaðist son í sumar með eiginkonu sinni. „Kötu pönk frá Neskaupstað. Þú verður að skrifa það. Hún verður brjáluð,“ segir Addi sposkur en við erum að tala um hina ástsælu söngkonu Katrínu Halldóru Sigurðardóttur.

Ólst upp í Gamla bakaríinu

Þegar ein saga hefst þá lýkur annarri, eins og gengur í þessu lífi. Þannig var tilkynnt á dögunum að Gamla bakaríinu á Ísafirði hefði verið lokað en það hefur lengi verið í eigu fjölskyldu Adda. „Öll mín æska var í gamla bakaríinu. Tryggvi Jóakimsson, langafi minn, keypti Gamla bakaríið og gerði það upp eftir bruna snemma á síðustu öld. Þegar afi minn og alnafni dó árið 1970 þá tók Árni föðurbróðir minn við og amma Ruth [Tryggvason] vann þarna fram á síðasta dag. Hún var búin að gera lista yfir allt sem hún ætlaði að gera þegar hún yrði gömul en hafði aldrei tíma í það; vann tíu tíma á dag þangað til hún dó, 89 ára fyrir tæpum tíu árum. Fyrst þegar ég vann í Gamla bakaríinu, sumarið 1995, man ég að ég labbaði þangað klukkan fjögur að nóttu frá Maju frænku með fyrstu Sólstafademóin í vasadiskóinu mínu. Síðast vann ég þarna í sumar, tók nokkrar vaktir við að þrífa af borðum. En nú er búið að loka Gamla bakaríinu og það er til sölu. Við lifum á öld stórmarkaðanna og það verður sífellt erfiðara að reka bakarí.“

Í blálokin spyr ég Adda hvort hann sjái ekki fyrir sér að starfrækja Sólstafi áfram. „Jú, ég geri það,“ svarar hann ákveðinn. „Við höfum verið til í 25 ár og aldrei stoppað í mánuð, hvað þá meira. Ég spyr strákana stundum hvort þeir vilji halda áfram og svarið er alltaf já. Hvers vegna ættum við svo sem að hætta? Þetta er orðið aðeins meira en hobbí. Persónulega er þetta það sem mig dreymdi alltaf um að gera, ekkert annað, og ég er að gera það. Lifa drauminn. Við höfum ferðast um allan heim og að heyra hundruð manna syngja lögin okkar á íslensku á fjarlægum stöðum eins og Bógóta er ólýsanleg tilfinning. Á því augnabliki leið okkur eins og Queen á Live Aid! 1985.“

Nýr dagur er runninn upp þegar ég kveð Adda og hverf út í blauta og dimma nóttina. Er það ekki á einhvern ljóðrænan hátt einstaklega fallegt og viðeigandi í ljósi þess sem okkur fór á milli? Nýr dagur.