Landakot Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar voru kynntar á fundi í gær. Formaður Landssambands eldri borgara segir húsið barn síns tíma.
Landakot Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar voru kynntar á fundi í gær. Formaður Landssambands eldri borgara segir húsið barn síns tíma. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson Ragnhildur Þrastardóttir Pétur Magnússon Ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti er talið ófullnægjandi með tilliti til sýkingarvarnasjónarmiða, og er líklega meginorsök dreifingar kórónuveirusmita þegar hópsýking kom þar...

Guðni Einarsson

Ragnhildur Þrastardóttir

Pétur Magnússon

Ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti er talið ófullnægjandi með tilliti til sýkingarvarnasjónarmiða, og er líklega meginorsök dreifingar kórónuveirusmita þegar hópsýking kom þar upp í síðasta mánuði.

Bent er á þetta í frumniðurstöðum faraldsfræðilegrar rannsóknar, sem kynntar voru á fundi í gær.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir í samtali við Morgunblaðið ljóst að Landakot og fjöldi annarra hjúkrunarheimila standist ekki nútímakröfur. Hún segist vona að heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur Landspítala finni leið til að halda einstaklingum á Landakoti öruggum á meðan núverandi ástand varir.

Ekki haldið almennilega við

Þórunn segir að á Landakoti sé í boði gríðarlega mikilvæg þjónusta, en að húsnæðið sjálft sé barn síns tíma. „Það var enginn að reyna að ímynda sér þetta sem hjúkrunarheimili. Þetta er bráðabirgðastaður eins og mörg önnur hjúkrunarheimili, og það hefur ekki fengið almennilegt viðhald vegna þess að það átti að byggja spítala fyrr,“ segir hún.

Ástand hjúkrunarheimila sýni þá glögglega að framkvæmdasjóður aldraðra sé ekki notaður í að byggja hjúkrunarheimili, heldur sé hann ítrekað notaður í rekstur. Þó segir hún að ólíklegt sé að hægt verði að byggja ný hjúkrunarheimili eða finna aðrar sambærilegar lausnir áður en nýr spítali við Hingbraut verður tekinn í gagnið, sérstaklega ef markmiðið er að vernda aldraða gegn kórónuveirunni.

„Ég sé enga lausn aðra en að farið verði fram á það við heilbrigðisráðherra og Landspítalastjórnina að fundin verði leið til að gera bráðabirgðalausnir til að tryggja öryggi einstaklinga á hjúkrunarheimilum.“

Embættið hafi ekki mannafla

Embætti landlæknis mun gera aðra rannsókn á hópsýkingunni, til viðbótar við þá rannsókn sem Landspítali hefur þegar gert. Frá þessu greindi Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is í gær.

Hún sagði jafnframt að embætti landlæknis hefði ekki mannafla í það að kanna hvort ófullnægjandi aðstæður með tilliti til sýkingarvarna væru víðar í heilbrigðiskerfinu.

„Ég held að það sé miklu mikilvægara að stofnanirnar sjálfar skoði hjá sér hvað þær geta gert til að minnka líkurnar á smitum.“

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segir að alltaf geti komið upp hópsmit kórónuveiru en spurningin sé hvort mögulegt sé að koma í veg fyrir að veiran breiðist út.