Þórir Steingrímsson
Þórir Steingrímsson
Eftir Þóri Steingrímsson: "Heilablóðfall er þriðja stærsta dánarorsökin í heiminum í dag og hér á landi eru nær tveir á dag sem eiga rétt á sérhæfðri meðferð á sérstakri slagdeild."

Hér á landi hafa orðið miklar framfarir í snemmtækri íhlutun heilbrigðiskerfisins er varðar blóðtappa í heila og á starfslið Landspítalans mikið hrós skilið fyrir sitt starf. Þakka má það ungu og dugmiklu starfsliði sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga, er hefur verið rómað á ársfundum hans – sem og erlendis. En hvað tekur svo við, þegar sjúklingurinn er kominn af bráðastigi? Hér vantar á það sem við á að taka! Slagdeild!

Heilaheill er sjúklingafélag er vinnur að velferðar- og hagsmunamálum þeirra er fengið hafa slag (heilablóðfall). Allir geta gerst félagar er hafa áhuga á málefninu. Félagið er aðili að ÖBÍ og erlendum samtökum, eins og t.d. SAFE (Stroke Alliance for Europe), sem eru samtök evrópskra sjúklingasamtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og stuðla að betri heilbrigðisþjónustu hvers ríkis fyrir sig með því að vekja athygli almennings á áfallinu og hvernig eigi að bregðast við því. Þá er félagið aðili að NAR, Nordisk Afasiråd, sem eru norræn samtök um endurhæfingu málstolssjúklinga eftir slag og gegnir nú formennsku í stjórn þess.

Með aðildinni hefur félagið fylgist með framförum í heiminum og borið íslenskt heilbrigðiskerfi saman við það sem gerist á Evrópusvæðinu. Nokkuð metnaðarfullt og nýhafið átaksverkefni stendur nú yfir, SAPE (Stroke Action Plan for Europe 2018-2030), sem er samstarfsverkefni SAFE og ESO (European Stroke Organization), sem eru samtök fagaðila er veita bæði leikum og lærðum í Evrópu almenna læknisfræðslu um slagið. ESO og SAFE hófu þetta átak 2018 og hafa nú u.þ.b. 80 sérfræðingar frá 52 löndum tekið þátt og greint frá sínum vísindaárangri um slagið.

Meginmarkmið SAPE fyrir 2030:

1. að fækka heilablóðföllum í Evrópu um 10%;

2. að meðhöndla 90% eða meira af sjúklingum með heilablóðfall í Evrópu á sérstökum slagdeildum (stroke unit) sem fyrsta stigi umönnunar;

3. að hafa landsáætlun um heilablóðfall sem nær yfir allar heilbrigðisstofnanir frá sjálfbærni til lífs eftir heilablóðfall;

4. að innleiða að fullu innlendar áætlanir fyrir fjölþættar lýðheilsuaðgerðir til að stuðla að og auðvelda heilbrigðan lífsstíl og að draga úr óheilbrigðum umhverfisþáttum (þ.m.t. loftmengun o.s.frv.), félagslegum og efnahagslegum þáttum sem auka hættu á heilablóðfalli.

Markmiðið félagsins er að vekja athygli landsmanna á átaki SAPE að hér sé til staðar sérstök slagdeild fyrir þá sjúklinga sem fá heilablóðfall með sérhæfðu starfsliði. Sé horft til jafnræðisreglunnar í stjórnsýslunni þá er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála – en meðferð og umönnun á heilablóðfallssjúklingum er að mörgu leyti síðri hér á landi en það sem gerist á Evrópusvæðinu, en þarf ekki að vera það. Heilablóðfall er þriðja stærsta dánarorsökin í heiminum í dag og er alls ófullnægjandi að umönnun slagsjúklinga sé sett inn og saman við umönnun annarra sjúklinga er þurfa sína meðferð. Hér á landi má ætla að umönnun krabbameinssjúklinga og hjartasjúklinga sé með ágætum er hafa þó sínar deildir – en hér vantar slagdeild!

Höfundur er formaður Heilaheilla. heilaheill@heilahrill.is

Höf.: Þóri Steingrímsson