Rafvirkjameistarinn Helgi Ólafsson á kunnuglegum stað í vikunni.
Rafvirkjameistarinn Helgi Ólafsson á kunnuglegum stað í vikunni.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Eitt sinn rafvirki, alltaf til þjónustu reiðubúinn, hljómar fyrir eyrum þegar rætt er við Helga Ólafsson á Raufarhöfn. „Ég er eini rafvirkinn á staðnum og stekk til þegar kallið kemur,“ segir meistarinn, sem verður 92 ára á næsta ári og hefur unnið við iðnina síðan hann útskrifaðist frá Iðnskóla Siglufjarðar 1950, í 70 ár.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Eitt sinn rafvirki, alltaf til þjónustu reiðubúinn, hljómar fyrir eyrum þegar rætt er við Helga Ólafsson á Raufarhöfn. „Ég er eini rafvirkinn á staðnum og stekk til þegar kallið kemur,“ segir meistarinn, sem verður 92 ára á næsta ári og hefur unnið við iðnina síðan hann útskrifaðist frá Iðnskóla Siglufjarðar 1950, í 70 ár.

Tæplega 200 manns búa á Raufarhöfn. Helgi segir að mestu breytingarnar hafi orðið á staðnum þegar síldarverksmiðjunni var lokað. „Ég byrjaði að vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins sem saltlempari á þrónum 1944 og vann á lóðum verksmiðjunnar til 2005. Svo er verið að verðlauna menn fyrir að hafa verið á sama vinnustað í 25 ár!“ Hann bætir við að hann hafi ekki farið á launaskrá hjá fyrirtækinu fyrr en verksmiðjan hafi verið rifin 2002. „Ég vann sjálfstætt sem verktaki og þegar átti að fara að loka verksmiðjunni sagði verksmiðjustjórinn: „Þú þarft ekki að mæta á morgun.“ Aðrir voru verðlaunaðir með starfslokasamningum upp á jafnvel tugi milljóna.“

Öllum líður vel á Raufarhöfn

Helgi fæddist á Raufarhöfn og hefur alla tíð búið þar fyrir utan tímann sem hann var í námi á Siglufirði. „Þar náði ég í bestu konu í heimi, Stellu Borgþóru Þorláksdóttur, að öllum öðrum konum ólöstuðum,“ segir hann. „Eftir að ég útskrifaðist sem rafvirkjameistari fékk ég símtal frá SÍS í Reykjavík, Sambandi íslenskra samvinnufélaga, og mér boðið starf á rafmagnsverkstæðinu. Ég þurfti ekki nema tvær mínútur til að svara því, andaði djúpt og afþakkaði boðið.“ Eftir andartaksþögn heldur hann áfram: „Enda væri ég ekki að tala við þig ef ég hefði flutt til Reykjavíkur, því þá væri ég dauður fyrir löngu. Allir Raufarhafnarbúar, sem hafa flutt héðan til Reykjavíkur, hafa dáið. En satt best að segja hefur fæðubótarefnið Benecta bjargað mér undanfarin ár og ég hef ekki orðið deginum eldri eftir að ég byrjaði að taka það.“

Helgi er með reyndari rjúpnaveiðimönnum landsins, hefur farið á hverju hausti frá 12 ára aldri, síðast um helgina. „Það er spennandi að finna hana og vita hvort maður nær henni en útivistin er aðalatriðið,“ segir hann og sýtir ekki að hafa ekkert veitt á þessu tímabili. „Júlíus, sonur minn, fékk fjórar en ég fer aðallega til þess að fara, komast í heiðina.“

Helgi var formaður Félags eldri borgara á Raufarhöfn frá stofnun 2014 en sagði starfinu lausu fyrir skömmu. „Við erum 27 í félaginu og um 12 til 18 manns mæta alltaf í félagsstarfið einu sinni í viku nema í samkomubanninu,“ segir hann og leggur áherslu á að enginn á Raufarhöfn hafi smitast af veirunni. „Hér líður öllum vel.“

Fyrir um fimm árum afhjúpaði Helgi listaverk sitt, Drekann, á hafnargarðinum og er nú að betrumbæta verkið. „Mér fannst eldurinn of lítill, er búinn að finna út betri eld og set Drekann aftur út í vor.“

Rafvirkjameistarinn var fréttaritari Morgunblaðsins í um þrjá áratugi. Hann nýtur þess að hafa eitthvað fyrir stafni og föndrar meðal annars við að saga út Ísland og setja lýsingu á bak við, en framleiðsluna hefur hann gefið ættingjum og vinum. „Þegar ég er beðinn um að sinna einhverju verki er ég farinn að spyrja hvað ég þurfi að borga fyrir vinnuna. Hún heldur manni gangandi og fólk tekur vel í viðbrögðin.“