Erlingur Hansson
Erlingur Hansson
Eftir Erling Hansson: "Stalín lét drepa alla þá sem höfðu forystu um byltingu í Rússlandi í nóvember 1917"

Hinn 9. nóvember 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ólaf Þ. Jónsson sem hann nefnir Staðreyndirnar hans Erlings. Hann fjallar enn um réttarhöld sem fram fóru í Moskvu fyrir meira en átta áratugum. Hann vitnar í menn sem viðstaddir voru réttarhöldin og létu blekkjast. Hann bendir réttilega á að Halldór Laxness var viðstaddur réttarhöld í Moskvu árið 1938. Halldór lýsir í bókinni Gerska ævintýrið því sem hann sá og heyrði. Hann var sannfærður árið 1938 um að réttarhöldin hefðu skilað réttlátri niðurstöðu. Halldór átti þó eftir að skipta um skoðun á Stalín og verkum hans. Í bókinni Skáldatími sem kom út árið 1963 segir Halldór á bls. 289: „Annars hlýtur það að vera mikil huggun fyrir kommúnistahatara alstaðar í heiminum um leið og málsbót fyrir Stalín að hann hafi aldrei í starfsferli sínum látið gera útaf við aðra menn en kommúnista á eigið frumkvæði, enda hefur hann sennilega látið koma fyrir kattarnef fleiri kommúnistum, að minnsta kosti kommúnistaforingjum, en nokkur annar maður. Hann sá fyrir öllu því forystuliði sem nokkurs var nýtt innan kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, að því er Krústsjoff lýsti fyrir mönnum 1956, og lét strádrepa blómann af herforíngjum Rauða hersins ýmist að undangeinginni réttarseremóníu eða án dóms og laga. Frægt er þegar hann bauð kommúnistaforingjum Póllands til stórhátíðar í Moskvu skömmu eftir stríðið og lét handtaka þá alla orðalaust við komuna og skjóta þá fljótt.“

Ég veit að þessi orð Halldórs Laxness frá árinu 1963 eru rétt lýsing á verkum gagnbyltingarforingjans Stalín. Halldór eins og margir aðrir vissi betur árið 1963 en árið 1938. Það sem Halldór ritaði í Skáldatíma árið 1963 kemur líka heim og saman við aðrar rannsóknir.

Það er rangt að trotskíistar hafi verið öflugir víða um heim eins og Ólafur fullyrðir. Þeir voru hvergi öflugir árið 1940 eða síðar. Trotskí hljóp ekki úr herbúðum mensévíka þremur mánuðum fyrir nóvemberbyltinguna. Trotskí og Lenín áttu samstarf á ráðstefnu í Zimmerwald í september 1915. Þessi ráðstefna var fundur sósíalista frá nokkrum löndum sem andvígir voru stríðsrekstri stórveldanna. Trotskí samdi ávarp ráðstefnunnar og Lenín greiddi atkvæði með því að ávarp sem Trotskí samdi yrði ávarp þeirra sósíalista sem beittu sér gegn stríðsrekstri stórveldanna. Þeir áttu svo farsælt samstarf eftir að Trotskí kom til Pétursborgar 17. maí 1917. Lenín kom til Pétursborgar 17. apríl 1917. Hann breytti afstöðu bolsévíka sem höfðu ekki beitt sér gegn bráðabirgðastjórninni í landinu en sú stjórn hélt áfram stríðsrekstrinum. Trotskí fór sjóleiðina frá New York eftir að hann frétti af febrúarbyltingunni. Hann var settur í varðhald af enskum yfirvöldum og sat í varðhaldi í Kanada frá 3. til 29. apríl 1917. Þetta fréttist til Pétursborgar. Lenín og ýmsir aðrir töluðu um það í ræðum í Pétursborg að leysa ætti Trotskí úr haldi enska herveldisins. Trotskí var vel þekktur meðal almennings í Pétursborg. Hann hafði verið forseti ráðsins í Pétursborg árið 1905. Bæði stjórnvöld í London og stjórnvöld í Pétursborg vissu að þar fór byltingarforingi. Fylgi bolsévíka óx sumarið 1917. Stjórnvöld í Pétursborg beittu sér af öllum sínum mætti gegn bolsévíkum eftir 16. júlí 1917. Lenín fór huldu höfði en stjórn Kerenskis lét setja Trotskí í fangelsi 7. ágúst 1917. Trotskí sat í fangelsi í Pétursborg í 40 daga frá 7. ágúst 1917. Hann sat í fangelsi þegar 6. þing bolsévíka samþykkti inngöngu Trotskís í flokkinn í ágúst 1917. Má af þessu ljóst vera að Trotskí hljóp ekki neitt þó Ólafur segi svo. Hann sat í fangelsi og bolsévíkar tóku hann inn í flokkinn. Á þessu flokksþingi var Trotskí kosinn í miðstjórn flokksins.

Stalín hafði vissulega mjög mikil völd og notaði þau óspart. Hann var leiðtogi gagnbyltingar innan Sovétríkjanna á árunum frá 1924. Eins og Halldór lýsti í Skáldatíma árið 1963 lét hann drepa marga en f.o.f. fremst voru það kommúnistar sem urðu fórnarlömb gagnbyltingar Stalíns.

Höfundur þýddi bókina Byltingin svikin sem kom út á Íslandi nýlega. erlingurhansson@gmail.com