Ævar Þór Benediktsson býður lesendum sem fyrr að fara með sögurnar í ýmsar áttir.
Ævar Þór Benediktsson býður lesendum sem fyrr að fara með sögurnar í ýmsar áttir. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bræðurnir Ævar Þór og Guðni Líndal Benediktssynir stinga sér á bólakaf í jólabókaflóðið, Ævar er með fjórar bækur á þessu ári og Guðni tvær. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ævar Þór Benediktsson er heima með lasið barn þegar ég slæ á þráðinn til hans. Sá stutti er tveggja ára og kallar að vonum á athygli, eins og hann á rétt á, en föðurnum tekst eigi að síður af lipurð að sinna okkur báðum í einu. Ýmsu vanur.

Ævar Þór situr ekki auðum höndum fremur en endranær og á dögunum kom út fjórða bókin eftir hann á þessu ári, Þín eigin undirdjúp, stór í sniðum eins og venjan er fyrir jólin. Í vor komu Hryllilega stuttar hrollvekjur og í haust Þín eigin saga: Risaeðlur og Þín eigin saga: Knúsípons. Tvær þær síðarnefndu heyra til flokki „lítilla afleggjara“, eins og höfundurinn kallar þá og eru ætlaðar þeim börnum sem ekki ráða enn við stórar og þykkar bækur eins og í Þín eigin-bókaflokknum og börnum af erlendum uppruna sem enn eru að ná tökum á íslenskunni en langar að vera með í umræðunni um þá undraheima.

Þetta hefur verið óvenjulegt ár hjá Ævari Þór vegna heimsfaraldursins en hann er alla jafna duglegur að fara í skólana og lesa fyrir börnin. Allt öðruvísi er að hafa þau samskipti gegnum netið. „Þetta verður líka skrýtið jólabókaflóð, allir að reyna að finna sinn takt.“

– Áttu von á meiri eða minni bóksölu en venjulega?

„Ég hef satt best að segja ekki hugmynd en vona að sjálfsögðu að flestir lesi sem mest.“

Bækur Ævars Þórs hafa notið mikilla vinsælda á umliðnum árum, ekki síst Þín eigin-bækurnar, og meðal annars náð til barna sem alla jafna lesa ekki mikið. Það má án efa að hluta þakka forminu, að Ævar Þór geri lesendur að meðhöfundum sem ráða miklu um framvindu mála. „Ólíkur endir gerir það að verkum að þú getur lesið bókina aftur og aftur, auk þess sem það skapar umtal meðal krakkanna sem eru að lesa. „Hvað gerðist þegar þú valdir þetta eða hitt?“ spyrja þau vinina. Þau eru bókstaflega að bera saman bækur sínar. „Hvernig komstu á þennan stað og hinn?“ spyrja þau, eins og í tölvuleik.“

Í Þínum eigin tölvuleik, sem kom út í fyrra, flækti Ævar Þór framvinduna vísvitandi enda kunnugt um færni lesenda sinna og mátti til með að ögra þeim aðeins. „Það höfðu til dæmis margir samband við mig út af alræmdu fótboltaborði í bókinni og reyndu að draga upp úr mér svindlleiðina,“ segir hann hlæjandi. „Að því leyti virka þessar bækur alveg eins og tölvuleikur.“

Ævar Þór hefur áður skrifað um risaeðlur og lofar að Þín eigin saga: Risaeðlur verði ekki seinasta bók hans um þær tignarlegu skepnur. „Risaeðlur eru alltaf spennandi.“

Knúsípons er afleggjari úr Þínum eigin tölvuleik og sú fígúra ekki síst drifin áfram af teiknaranum sem kallar sig Evana Kisa. „Myndin af Knúsípons varð til á undan nafninu.“

Um stóru bókina, Þín eigin undirdjúp, segir höfundurinn: „Ég hef alltaf verið logandi hræddur við sjóinn en finnst hann um leið mjög spennandi. Þessi bók er því skrifuð af óttablandinni virðingu fyrir sjónum og öllu sem þar leynist niðri.“

Lesendum býðst að fylgja þremur skipstjórum sem hver ætlar í sína áttina, einn að finna sæskrímsli, annar fjársjóð og sá þriðji Bermúda-þríhyrninginn. „Það er 51 endir í bókinni, sumir góðir en fleiri hræðilegir. Þitt er valið og fyrir vikið er það þér að kenna hvernig fer en ekki mér,“ segir Ævar Þór hlæjandi.

Hann er að vonum þakklátur fyrir viðtökurnar sem bækur hans hafa fengið en segir það þó fyrst og fremst reka sig áfram hvað þetta sé skemmtilegt, bæði að fá hugmyndirnar og fylgja þeim eftir með skrifunum. „Ég er alltaf að skrifa fyrir tólf ára Ævar en líka 36 ára Ævar og í sameiningu finna þeir milliveg.“

Hann finnur ekki annað en að íslensk börn séu upp til hópa dugleg að lesa enda þótt alltaf megi gera betur. „Mér finnst alltaf betra að hvetja en letja og ef krökkum er endalaust sagt að þau séu ekki nógu dugleg að lesa þá dregur það úr þeim viljann. Mín tilfinning er sú að íslensk börn lesi mikið og njóti þess.“

Glæpur og tímaflakk

Ég sæki vel að Guðna Líndal Benediktssyni í Edinborg; hann er nýbúinn að lesa upp fyrir börn í einum skóla á Íslandi og hefur hálftíma aflögu áður en hann „heimsækir“ þann næsta gegnum netið. „Þetta gengur merkilega vel, íslenskir skólar eru orðnir svo tæknivæddir. Það er nóg að gera og ég er bókaður fram í desember,“ segir hann.

Guðni er með tvær bækur í farteskinu fyrir þessi jólin; þær eru Hundurinn með hattinn 2 og Bráðum Áðan. Við byrjum á þeirri fyrrnefndu en hún er hluti af bókaklúbbnum Ljósaseríunni en á þeim vettvangi koma út fjórar barnabækur á ári eftir íslenska höfunda.

„Þetta er í raun heljarinnar glæpasaga. Besti spæjarinn í bænum, hundurinn með hattinn, Spori, og aðstoðarmaður hans, kettlingurinn Tási, þurfa að leysa dularfullt hundshvarf á voldugu sveitasetri. Úr vöndu er að ráða og allir liggja undir grun,“ segir Guðni.

– Þetta hljómar svolítið eins og Agatha Christie?

„Já, þetta er ráðgátusaga í anda Hercule Poirot og Sherlock Holmes; skrifuð eins og fullorðinsglæpasaga en hönnuð fyrir lesendur sem ekki eru tilbúnir í stórar hlussubækur. Eigum við að segja sjö ára og upp úr? Í og með er ég að búa krakkana undir áhuga á sakamálasögum og ráðgátum. Og að sjálfsögðu er ekkert gefið upp fyrr en í blálokin.“

Bráðum Áðan – sem er mergjaður titill – er ævintýrabók fyrir ungmenni tíu ára og eldri enda þótt Guðna sé kunnugt um níu ára lesanda sem át bókina upp til agna.

„Bráðum Áðan er skrifuð til að fylla upp í gat. Það er ekki mikið að koma út af ungmennabókum eftir íslenska höfunda. Sú deild er oft út undan. Sagt er að mörg börn hætti að lesa um þrettán ára aldurinn og þess vegna hafa menn ekki fyrir því að skrifa fyrir þann hóp. Ég held hins vegar að þetta sé kjúklingurinn og eggið – ef ekkert er skrifað fyrir þennan hóp þá les hann ekki.“

Bráðum Áðan er fantasía um tímaflakk sem gerist á Íslandi. Eins og svo oft þegar hann sest við skriftir spurði Guðni sig fyrst: Hvað hefði ég sjálfur viljað lesa á þessum aldri?

„Þessi tímaflakkssaga hefur þá sérstöðu að aðalpersónurnar ferðast fram í tímann til að komast aftur til nútíðar. Hitt stóra elementið í sögunni er alkemía eða gullgerðarlistin og inn í þetta þvælast skrímsli og yfirnáttúrulegir hlutir og risastórar persónur frá ýmsum tímum,“ segir Guðni og bætir við að sagan sé innblásin af ærslateiknimyndum á borð við Rick & Morty og japönsku Anime og Back to the Future-kvikmyndunum. „Það sem skiptir mestu máli er að lesandinn týni sér í sögunni.“

Sjaldan eða aldrei hefur verið mikilvægara að skrifa bækur fyrir ungmenni enda samkeppnin um athygli þeirra gríðarleg á tækniöld. „Það er miklu auðveldara að ýta bara á „play“ og liggja eins og skata. Ekkert við því að segja í sjálfu sér en það þýðir hins vegar að við rithöfundarnir þurfum að skrifa skemmtilegri bækur og vera duglegir að halda þeim að krökkunum sem valkosti. Bráðum Áðan er til dæmis sérhönnuð fyrir krakka sem alla jafna nenna ekki að lesa.“

– Þið bræður skrifið fyrir sama hópinn. Er mikil samkeppni á milli ykkar?

„Það er engin leið að keppa við Ævar,“ svarar Guðni hlæjandi. „Við erum báðir að þvælast í ævintýrum og fantasíum en í mínum huga erum við ekki að berjast um lesendur; miklu frekar að berjast í sameiningu við að fá fleiri krakka til að lesa, eins og aðrir höfundar sem skrifa barna- og ungmennabækur. Öll höfum við þörf fyrir að skrifa fyrir börn til að halda lestraráhuga gangandi.“

Guðni segir þá bræður alltaf hafa lesið mikið; til að mynda byrjað „allt of ungir“ að lesa Stephen King og slíka höfunda. „Við ólumst upp í sveit og vorum með annan fótinn á bókasafninu í Borgarnesi, þannig að skrifin voru alltaf eðlileg fyrir okkur. Lífið snýst um sagnagerð. Sjálfur hef ég stigið út og inn úr þessu og finna að ég þarf að skapa og skrifa og mun halda því áfram. Mínu verki er hvergi nærri lokið.“