[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigríði Hafstað. Sæmundur, 2020. Innb., 256 bls.

Bókin um Sigríði á Tjörn á Svarfaðardal er dýrmæt heimild um líf í sveitum landsins í sveit á miklum breytingartímum í þjóðlífinu. Sögur úr sveitunum hafa vissulega oftsinnis verið sagðar, þá oftast af körlum eða með því móti að störf þeirra eru í aðalhlutverki. Verka og viðhorfa kvenna í þessu sambandi hefur sjaldnar verið getið, sem nú er bætt úr. Engum sem les þessa bók dylst heldur að Sigríður hefur átt gott og gæfuríkt líf; varðað mörgu sem markað hefur skil.

Skagafjarðarstúlkan Sigríður fór á sínum yngri árum víða um og aflaði sér góðrar menntunar, á mælikvarða síns tíma. Flutti svo norður í Eyjafjörð, hvar þau Hjörtur Eldjárn eiginmaður hennar tóku við á óðali hans í dalnum góða. Búskapur, félagsmál, blaðaútgáfa, kórsöngur, leiklist hafa á langri leið verið meðal viðfangsefna Sigríðar, allt með því megininntaki að sinna nærumhverfi og rækta garðinn í sinni. En fyrst og fremst í lífi Sigríðar er fjölskyldan; barnalán í meira lagi og mikið ríkidæmi felst í því að eignast sjö börn og heil ósköp af öðrum afkomendum.

Fólk úr stórfjölskyldunni frá Tjörn setti bókina um ættmóðurina saman. Ritið er ofið úr mörgum þráðum; svo sem viðtölum, blaðagreinum, minnispunktum og fleiru slíku. Einnig ýmsu nýju efni og sendibréfum frá og til fjölskyldu og barna. Vel skrifuð bréf, en sum af þeim og sitthvað fleira í bókinni hefði alveg mátt stytta og slípa efni til, án þess að gildi hefði glatað. Fleira í bókinni hefði sömuleiðis mátt setja skarpar fram með formálum eða kynningu á efni. Myndirnar í bókinni eru fínar, og sýna daglegt líf og fólk sem unir glatt við sitt.

Heilt í gegn er bókin Sigríður á Tjörn – Minningar og myndbrot frá langri ævi alveg ljómandi góð; saga konu sem markað hefur spor og munað hefur um í samfélagi sínu. Við þurfum fleiri eins og Sigríði; fólk sem lætur til sín taka með velviljann að leiðarljósi og getur sagt sína sögu svo til eftirbreytni verði.

Sigurður Bogi Sævarsson

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson