Borgartún 6 Rúgbrauðsgerðin er reisulegt hús og setur mikinn svip á umhverfið með sínum turnum. Áform eru um að innrétta íbúðir á efri hæðum.
Borgartún 6 Rúgbrauðsgerðin er reisulegt hús og setur mikinn svip á umhverfið með sínum turnum. Áform eru um að innrétta íbúðir á efri hæðum. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík gerir ekki athugasemd við það að efstu hæðum hins sögufræga húss Rúgbrauðsgerðarinnar í Borgartúni 6 verði breytt úr skrifstofum í íbúðir.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík gerir ekki athugasemd við það að efstu hæðum hins sögufræga húss Rúgbrauðsgerðarinnar í Borgartúni 6 verði breytt úr skrifstofum í íbúðir.

Það var Richard Ólafur Briem hjá VA arkitektum sem lagði fram fyrirspurnina fyrir hönd eiganda. Einnig voru í fyrirspurninni lagðar fram tillögur að annars vegar fjórum íbúðum á efstu hæð og hins vegar sex íbúðum.

Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og var svo lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa. Var sú umsögn samþykkt.

Í henni kemur fram að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé Borgartún 6 á miðborgarsvæði M1b. Samkvæmt skipulaginu eru íbúðir heimilar, einkum á efri hæðum húsnæðis. Skipulagsfulltrúinn bendir enn fremur á að til að íbúðir verði samþykktar á hæðinni þurfi þó að uppfylla allar kröfur til íbúðarhúsnæðis. Telur hann upp nokkur atriði og áskilur sér rétt til frekari athugasemda ef umsókn berst.

Í bók Páls Líndal um Reykjavík kemur fram að árið 1944 hafi verið stofnað hlutafélagið Rúgbrauðsgerðin og stóð það fyrir byggingu húss á lóðinni Borgartún 6 árið 1947. Framleiðsla brauða hófst 1948. Reksturinn gekk illa og var honum hætt upp úr 1970 en húsið skemmdist mikið af eldi í apríl það sama ár.

Veislusalir ríkisins

Ríkissjóður eignaðist húsið og á efri hæðum voru innréttuð húsakynni til fundahalda og gestamóttöku. Starfsemin hófst 1979 og tók við hlutverki Ráðherrabústaðarins að nokkru leyti sem móttökuhús fyrir ríkisstjórnina

Lyfjaverslun ríkisins starfaði lengi í húsinu. Sömuleiðis ríkissáttasemjari og voru margar vinnudeilur leystar þar við samningaborðið. Þá hafa ýmis félagasamtök haft aðsetur í húsinu.

Einkarekin veisluþjónusta var rekin þarna hin seinni ár.