Hús á horni Skólavörðustígs og Týsgötu var útbíað í veggjakroti um skuldir. Mögulega er þar um að ræða nýjar aðferðir handrukkara, en þar mun Stjórnarskrárfélagið þó ekki hafa verið að verki enda prýðilega fjáð.
Hús á horni Skólavörðustígs og Týsgötu var útbíað í veggjakroti um skuldir. Mögulega er þar um að ræða nýjar aðferðir handrukkara, en þar mun Stjórnarskrárfélagið þó ekki hafa verið að verki enda prýðilega fjáð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmiðlanefnd fann að því í skýrslu um Ríkisútvarpið (Rúv.), að það hefði fólk innan vébanda stofnunarinnar í gerviverktöku, flokkaði greiðslurnar sem kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum og hefði í þokkabót lagst í blekkingaleik með það.

Fjölmiðlanefnd fann að því í skýrslu um Ríkisútvarpið (Rúv.), að það hefði fólk innan vébanda stofnunarinnar í gerviverktöku, flokkaði greiðslurnar sem kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum og hefði í þokkabót lagst í blekkingaleik með það. Þar á meðal voru burðarþættir í dagskránni á borð við Vikuna, Silfrið, Menninguna, Landann og Gettu betur. Rúv. er skylt samkvæmt þjónustusamningi við ríkið að verja 10% heildartekna sinna til innkaupa á dagskrárefni utan múra.

Bylgja kórónuveirusmita hélt áfram að hjaðna, þó það gerðist hægar og skrykkjóttar en flestir kysu. Tíu hafa látist af hennar völdum í þessari bylgju, jafnmargir og féllu í valinn í vor.

Kórónuveiran hefur víða áhrif, en þannig kom á daginn að um 500 manns eru á biðlista eftir að komast í bílpróf og löng bið framundan.

Heiða Björg Hilmisdóttir var endurkjörin varaformaður Samfylkingarinnar með nokkrum mun atkvæða á rafrænum landsfundi flokksins, en Logi Einarsson formaður var endurkjörinn mótframboðslaust.

·

Nýtt bóluefni , sem bandaríski lyfjarisinn Pfizer hefur þróað og prófað í samvinnu við þýska líftæknifyrirtækið BioNTech, mun koma á markað fyrir árslok í ár. Það verður þó ekki fyrr en á nýju ári sem framleiðsla, dreifing og bólusetning kemst á almennilegan skrið. Dreifing þess er vandasöm, þar sem halda þarf efninu kældu, en eins þarf að sprauta fólk tvisvar með því.

Heimsþing kvenleiðtoga í stjórnmálum var haldið í Hörpu frá mánudegi til miðvikudags, en það var haldið með fjarfundabúnaði. Samhliða var haldinn ársfundur heimsráðs kvenleiðtoga, en honum stýrði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem er formaður heimsráðsins.

Fulltrúar stærstu hótelkeðja landsins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa óskað eftir því við sveitarfélög, að greiðslu fasteignagjalda gistihúsa verði frestað með útgáfu tiltölulega langra skuldabréfa, en Lánasjóður sveitarfélaga lánaði sveitarfélögunum fjárhæð sem svaraði hinum ógreiddu fasteignagjöldum, svo tekjur þeirra raskist ekki.

Ríkisútvarpið sendi umsögn um fjárlagafrumvarpið, þar sem kvartað var undan tekjufalli og kostnaðarauka vegna kórónuveirunnar. Er þess þar farið á leit að ríkissjóður bæti það að fullu með 600 milljónum króna.

Matvælastofnun undirbýr skimun fyrir kórónuveirunni á minkabúum , en stökkbreytt afbrigði veirunnar hefur breiðst út í minkabúum í Danmörku. Ekki er grunur um að hún hafi slegið sér niður hér á landi en allur sé varinn góður. Níu minkabú eru í landinu.

Hvanneyrarprestakall verður sameinað Reykholtsprestakalli, en síra Geir Waage lætur af störfum í árslok eftir að hafa setið staðinn í 42 ár.

Til stendur að leyfa fólki að draga gjafafé til góðgerðarmála frá tekjuskatti, allt að 350 þúsund krónur á ári.

·

Námsráðgjafar segja að framhaldsskólanemar hafi sýnt mikið þolgæði í erfiðum aðstæðum faraldursins, en þó sé farið að gæta þreytu gagnvart fjarfundum og námið sé erfiðara en í venjulegu skólahaldi. Ekki hafa þó komið fram vísbendingar um aukið brotthvarf úr námi.

Þrátt fyrir faraldurinn eða mögulega vegna hans – neysluhættir eru með mjög öðrum hætti en endranær – þá hugar fólk vel að sínu heima. Fasteignamarkaður er líflegri en ráð mátti gera fyrir og t.d. seldist ný blokk í Hafnarfirði upp á fimm dögum og mikil ásókn er í þakíbúðir við Hlíðarenda. Sömuleiðis rokseljast húsgögn og heimilistæki.

Sagt var frá ömurlegum aðstæðum og vanrækslu vistmanna á vistheimilinu Arnarholti á Kjalarnesi fyrir hálfri öld.

Vonir um bóluefni juku bjartsýni í ferðaþjónustunni um að senn vori í þeirra veröld. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að ef næsta sumar yrði þokkalegt ætti ferðaþjónustan að geta rétt úr kútnum tiltölulega skjótt.

Engin sauðfjárvarnargirðing í landinu er fjárheld alla leið, svo ráðgert er að bæta þar úr. Riða hefur komið upp á bæjum í Skagafirði, sem gerir það brýnna en ella.

·

Malasíski viðskiptajöfurinn Vincent Tan vill reisa munaðarhótel á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn og segist þegar vera með tugi milljarða króna til reiðu til þess. Borgaryfirvöld eru hins vegar tregari til eða meirihlutinn í borgarstjórn alltjent, því málið hefur ekki verið borið undir stjórn Faxaflóahafna.

Nýtt fjölmiðlafrumvarp er í bígerð hjá ríkisstjórnarflokkunum, en sem kunnugt er hefur frumvarp um beina fjárstyrki til einkarekinna fjölmiðla ekki komist í gegnum þingið. Í stað þess að nota styrki stendur til að beita skattkerfinu til þess að skjóta styrkari stoðum undir rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Neysluveislan hélt áfram á degi einhleypra , en þá varð mikill uppkippur í sölu á alls kyns varningi sem einhleypir gefa sjálfum sér.

Lömbin eru þögnuð, en í lok sláturtíðar er ljóst að lömb hafa aldrei verið þyngri en í haust. Slátrunin heldur hins vegar áfram að dragast saman, enda hefur lömbum fækkað um 75 þúsund á þremur árum.

Komin er fram tillaga að deiliskipulagi Laugavegar milli Klapparstígs og Frakkastígs. Breytingarnar felast helst í því að gera göngugötuna þar og niður Vatnsstíg varanlega, auk ýmissa endurbóta til þess að gera umhverfið vistlegra.

Páll Bergþórsson gaf út óvenjulega langtímaspá í vikunni, en hann telur að hnattræn hlýnun kunni að seinka næstu ísöld. Fasteignaverð hækkaði.

·

Íslendingar töpuðu fyrir Ungverjum í fótbolta karla í Búdapest 2:1, svo draumurinn um Evrópumeistaramót varð að engu.

Þrátt fyrir mun minni framleiðslu á lambaketi stefnir samt í að upp hlaðist ketfjall , enda varð mikill samdráttur á sölu innanlands í sumar og margir hefðbundnir útflutningsmarkaðir lokaðir vegna heimsfaraldursins. Lagt hefur verið til að stöðva ketinnflutning tímabundið meðan grynnkað er á birgðunum hér.

Fjölmiðlafyrirtækið Sýn sendi fjárlaganefnd andsvar við umsögn Ríkisútvarpsins við fjárlagafrumvarpið og gagnrýndi harðlega málatilbúnað þess. Það virtist telja sig, einn fjölmiðla, hafa orðið fyrir búsifjum af völdum kórónuveirunnar, og vildi skekkja samkeppnisstöðu sína enn frekar á kostnað annarra fjölmiðla og skattgreiðenda.

Umboðsmaður Alþingis telur sig ekki geta sinnt frumkvæðisathugunum vegna mannaskorts og peningaleysis.

Á daginn kom að stöðugildum ríkisins hefði fjölgað um rúm 10% frá árinu 2013. 71% allra ríkisstarfa eru unnin á höfuðborgarsvæðinu.

Skýrsla um fjöldasmit kórónuveirunnar á Landakotsspítala , sem dregið hafa tíu sjúklinga þar til dauða, var gerð opinber, en þrátt fyrir margvísleg svör vakti hún einnig spurningar. Þar var helst tínt til að um mætti kenna ástandi húsnæðis, loftræstingu og öðrum aðbúnaði, sem væri ófullnægjandi með tilliti til sóttvarna.

Nýjar sóttvarnareglur , sem gilda frá næsta þriðjudegi, voru kynntar á föstudag. Þar voru þrjár breytingar helstar, að rakarar og nuddarar mættu opna á ný, að allar íþróttir barna væru heimilar og fjöldatakmörk í framhaldsskólum voru rýmkuð.

Fjölskylduhjálpin hóf að afhenda matargjafir frá Kaupfélagi Skagfirðinga til þeirra sem örðugt eiga á dögum faraldursins. Það er höfðinglegasta góðgerð hér á landi og mun standa fram að jólum.