[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Marcus Rashford , ein af stjörnum enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur þurft að draga sig úr hópnum vegna meiðsla en enska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í gær. Hann mætir þá ekki Íslendingum í Þjóðadeildinni á miðvikudaginn.
*Marcus Rashford , ein af stjörnum enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur þurft að draga sig úr hópnum vegna meiðsla en enska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í gær. Hann mætir þá ekki Íslendingum í Þjóðadeildinni á miðvikudaginn. Sóknarmaðurinn kom ekkert við sögu í 3:0-sigri á Írlandi í vináttulandsleik og hefur nú verið sendur heim. Á morgun mætir Ísland Danmörku í Kaupmannahöfn í Þjóðadeildinni áður en haldið verður til Englands.

* Elías Már Ómarsson skoraði mark Excelsior í 2:1 tapi liðsins gegn Helmond Sport í hollensku B-deildinni í gær. Elías hefur nú skorað 14 mörk í 12 leikjum í deildinni og er langmarkahæstur.

*Líf var á vinnumarkaðnum í gær en þá fengu þrír íslenskir knattspyrnuþjálfarar starf. Þorvaldur Örlygsson hefur verið ráðinn í þjálfarateymi Stjörnunnar. Hann verður því Rúnari Páli Sigmundssyni , aðalþjálfara liðsins, til aðstoðar á næstu leiktíð. Ólafur Jóhannesson þjálfaði með Rúnari á síðasta tímabili en sagði starfi sínu lausu á dögunum. Þorvaldur hætti nýlega sem þjálfari U19-ára landsliðs karla.

Orri Freyr Hjaltalín var ráðinn þjálfari meistaraflokks Þórs í knattspyrnu karla. Hann skrifaði í gær undir þriggja ára samning og tekur við af Páli Viðari Gíslasyni sem lét af störfum á dögunum. Netmiðillinn Akureyri.net greindi frá þessu í gær. Þá var Guðlaugur Baldursson ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar og samdi við félagið til fjögurra ára en bæði Þór og Þróttur eru í næstefstu deild. Guðlaugur var síðast í þjálfarateymi FH.