Arnarnesvegur Hefur verið í mótun í 15 ár.
Arnarnesvegur Hefur verið í mótun í 15 ár. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andresmbl.

Andrés Magnússon

andresmbl.is

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi samgönguráðherra, telur að ráðagerðir um ljósastýrð gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar séu ekki í neinu samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Hann telur að hin nýja stjórn Betri samgangna, hlutafélags sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um uppbyggingu samgönguinnviða þar næstu 15 árin, þurfi að taka það samkomulag upp, allar framkvæmdir samkvæmt sáttmálanum þurfi að vera í samræmi við heildarhagsmuni.

„Það eru fjögur markmið sem liggja til grundvallar samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðins: greið umferð með jafnri uppbyggingu allra samgöngumáta, í samræmi við loftslagsmarkmið, umferðaröryggi og loks samvinna og skilvirkar framkvæmdir,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið: „Ég fæ ekki séð að sú leið sem Reykjavíkurborg valdi og fékk Kópavogsbæ til að fallast á uppfylli nokkurt af þessum meginmarkmiðum. Það er verið að hafna bestu lausninni.“

Þar vísar hann til þess að ljósastýrð gatnamót hafi orðið fyrir valinu, þrátt fyrir að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir mislægum gatnamótum og umhverfismat miðist við þau. „Það skiptir auðvitað miklu máli að mislægu gatnamótin eru mun afkastameiri og tryggja greiðari umferð, en hitt finnst mér ríða baggamuninn að umferðaröryggi yrði miklu, miklu meira.“ Hann bætir við að gatnaljósin auki eldsneytisbruna bíla, svo það falli ekki að loftslagsmarkmiðum, en loks sé þetta byggt á samkomulagi tveggja sveitarfélaga, þegar samgöngusáttmálinn eigi einmitt að taka til allra þátta og sameiginlegra hagsmuna allra samningsaðila.

„Nú er komið félag sem á að sjá um þessa uppbyggingu, með öfluga stjórn undir formennsku Árna M. Mathiesen. Hún hlýtur að taka þetta til umfjöllunar. Samræmd uppbygging samgangna höfuðborgarsvæðisins má ekki fara eftir hentisemi eða gæluverkefnum einstakra sveitarfélaga.“

Eigum að velja bestu lausnina

Jón minnir á að þetta sé ekki fyrsta verkefnið innan samgöngusáttmálans, þar sem Reykjavíkurborg fer sínar eigin leiðir og lætur samgöngusáttmálann liggja milli hluta. „En þá er sáttmálanum sjálfhætt, hann verður að vera í samræmi við sameiginlega hagsmuni og öll þau markmið sem samið var um. Menn geta ekki bara valið þá konfektmola sem þá langar mest í. Þá eiga menn ekki að velja ásættanlega lausn, heldur þá bestu.“

Jón fellst á að sú lausn sem Reykjavíkurborg valdi kunni að vera ásættanleg eins og staðan er. „En hún er ekki sú besta miðað við umferðaröryggi og hún er aðeins viðunandi miðað við umferðarþungann í dag. Með samgöngusáttmálanum er markmiðið hins vegar að byggja til framtíðar.“ Þar hafi fyrsta val Vegagerðarinnar verið mislæg gatnamót. „Þarna var alltaf reiknað með mislægum gatnamótum.“