Stífla Hér er veitt úr Skorradalsvatni til Andakílsárvirkjunar, en ekki er sátt um hvort rétt sé staðið að málum.
Stífla Hér er veitt úr Skorradalsvatni til Andakílsárvirkjunar, en ekki er sátt um hvort rétt sé staðið að málum. — Ljósmynd/Aðsend
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Sveiflan á hæð Skorradalsvatns er slík að landspjöll hljótast af. Frá hausti til vors getur þetta munað einum og hálfum metra. Á veturna þegar íshrannir rekur á land hér við norðurbakka vatnsins eru þær beittar eins og rakvélarblöð og brjóta landið,“ segir Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal. Bændur þar í sveit fara þess nú á leit við Orku náttúrunnar að fyrirtækið gæti hófs við miðlun til Andakílsárvirkjunar úr Skorradalsvatni. Fundir eru haldnir og lausna er leitað.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Sveiflan á hæð Skorradalsvatns er slík að landspjöll hljótast af. Frá hausti til vors getur þetta munað einum og hálfum metra. Á veturna þegar íshrannir rekur á land hér við norðurbakka vatnsins eru þær beittar eins og rakvélarblöð og brjóta landið,“ segir Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal. Bændur þar í sveit fara þess nú á leit við Orku náttúrunnar að fyrirtækið gæti hófs við miðlun til Andakílsárvirkjunar úr Skorradalsvatni. Fundir eru haldnir og lausna er leitað.

Heimild til hækkunar einhliða ákvörðun

Mál þetta á sér langa sögu, eða allt aftur til þess tíma að Andakílsárvirkjun var reist á árunum 1946-47. Þá var útbúin stífla við ós vatnsins, allt að 80 sentimetra há, án samráðs við landeigendur og gerður afrennslisskurður með lokunarbúnaði. Árið 1955 kom svo beiðni til atvinnumálaráðuneytisins um að fá að hækka vatnsborð um 1,5-2 metra til viðbótar. Hreppsnefnd valdi árið eftir í nefnd til viðræðna við ráðuneytið. Aldrei var þó haft samband við nefndina frá ráðuneytinu sem ákvað einhliða að heimila stjórn Andakílsárvirkjunar að hækka vatnsborð um 50 cm frá 15. september að hausti og 15. maí að vori. Sá fyrirvari var gerður að ef í ljós kæmi að hækkunin ylli verulegum landspjöllum, að dómi ráðuneytisins, yrði heimildin felld niður.

Kvörðum var raskað

Í framhaldi af þessari ákvörðun ráðuneytisins var hafður til viðmiðunar punktur sem Sigurjón Rist vatnamælingamaður setti út, mælistika sem seinna var fjarlægð, sem raskað hefur kvörðum. Þannig var ný stífla við ósinn gerð árið 1994 og er hún 10-12 sm hærri en heimilt var, að sögn Skorradalsbænda.

„Eftir þessa framkvæmd fóru landskemmdir að aukast mjög, eftir að hafa staðið í stað í nokkuð langan tíma áður. Það segir sig líka sjálft að 10-12 sentimetra hækkun vatnsborðs til viðbótar við eins metra ölduhæð, eins og oft verður í suðaustanátt, brýtur land og veldur verulegum skaða,“ segir Pétur. „Fyrir utan landspjöllin þá raskar vatnsmiðlunin sömuleiðis lífríki vatnsins. Hrygningarstöðvar bleikju eru á grynningum sem eðlilega skaðast við mikla sveiflu á vatnsmagni. Mikið var á sínum tíma af murtu, smáu afbrigði bleikjunnar, í vatninu. Þegar Jón Kristjánsson fiskifræðingur rannsakaði Skorradalsvatn á sínum tíma var ráðlegging hans sú að best færi á því að grisja murtuna með urriða, sem dafnar þar ágætlega í dag. Þannig hefur náðst ákveðið jafnvægi í fiskgengd, enda þótt 80% af fæðuframleiðslu í vatninu hafi, að mati Jóns, verið eyðilögð með sveiflunni á vatnsborðinu.“

Sviðsmyndir í skoðun

Pétur á Grund segir bændur í Skorradal gjarnan óska þess í rigningatíð að opnað sé betur fyrir stíflulokur sem stýra rennsli til Andakílsárvirkjunar. Allur gangur sé á því að óskum þar um sé sinnt. Sé ekki hreyft við lokunum hækki oft um tugi sentimetra í vatninu á skömmum tíma og við þær aðstæður byrji landbrotið. Eftir að Orka náttúrunnar losaði leir og set úr lóni virkjunar með stórskaða í Andakílsá sumarið 2017 hafi þó verið samtal á milli heimamanna og ON.

„Fulltrúar heimamanna eru boðaðir á fundi nokkrum sinnum á ári og síðan haldnir fundir með öllum landeigendum. Núna er verið greina nokkrar sviðsmyndir um framtíð miðlunar sem hefur ekkert virkjunarleyfi. Vinna þessi hefur tafist vegna þeirra aðstæðna í samfélaginu sem nú ríkja,“ segir Pétur Davíðsson.