Annir Starfsfólk í Póstmiðstöðinni hefur haft í nægu að snúast síðustu vikur og mánuði. Enn eru fimm vikur til jóla.
Annir Starfsfólk í Póstmiðstöðinni hefur haft í nægu að snúast síðustu vikur og mánuði. Enn eru fimm vikur til jóla. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er gríðarlegt magn í kerfunum á þessum síðasta fjórðungi ársins og í þessu umhverfi fjöldatakmarkana reynir mikið á,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er gríðarlegt magn í kerfunum á þessum síðasta fjórðungi ársins og í þessu umhverfi fjöldatakmarkana reynir mikið á,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.

Innlend netverslun hefur aukist mjög að undanförnu með tilheyrandi fjölgun póstsendinga. Samkomutakmarkanir hafa ýtt mjög undir innkaup á netinu og miklar annir voru í kringum dag einhleypra í síðustu viku. Tafir á póstsendingum til og frá landinu hafa gert það að verkum að sífellt fleiri leita til íslenskra verslana og búast má við að margir hugsi sér gott til glóðarinnar á tveimur stórum netverslunardögum á næstunni; svörtum föstudegi og net-mánudegi.

„Eftir frekar rólegan fyrri hluta ársins hefur mikil aukning verið að undanförnu, sérstaklega í innlendum pakkasendingum,“ segir Hörður.

Í október fjölgaði innlendum pakkasendingum um 54% frá sama mánuði í fyrra. Á sama tíma fækkaði pakkasendingum að utan um 25%. Heildarpakkamagn jókst í kringum 20% milli ára í október.

Fjölgun hér, fækkun að utan

Enn meiri aukning er í kortunum fyrir nóvember. Aukning í innlendum pakkasendingum nemur rúmlega 80% milli ára en þeim erlendu fækkar á móti um 14%. „Við spáum heildaraukningu í pakkaflæði í nóvember í kringum 43%,“ segir Hörður.

Aðspurður kveðst hann telja að jafnara flæði verði í desember enda sé gríðarlegt magn af pökkum í kringum áðurnefnda netverslunardaga. „Fólk er fyrr á ferðinni að senda gjafir en áður en engu að síður spáum við 60% magnaukningu í innlendum pökkum í desember en 16% fækkun að utan. Heildaraukningin gæti því numið 32%.“

Þegar árið verður gert upp kveðst Hörður búast við því að heildarmagn sendinga verði svipað og í fyrra. Um 35% aukning verði á sendingum innanlands en um 35% minnkun í sendingum að utan. Á móti auknum póstsendingum hér á landi komi þó fækkun í bréfasendingum upp á 20%. „Það má reikna með að jólakortum fari enn fækkandi í ár. Þetta er þróunin, bréfasendingum fækkar en pakkamagn eykst.“

Hörður segir að það leyni sér ekki að landsmenn versli meira á netinu þegar þeir eigi erfiðara með að fara í búðir. „Stór hluti af því lendir hjá okkur. Þessi magnaukning í bland við fjöldatakmarkanir er nokkuð erfið blanda og það væri óskandi að eitthvað færi að rofa til í Covid-inu í desember.“

Mikil aukning milli ára

Samkvæmt upplýsingum frá TVG Xpress er met slegið í fjölda sendinga þar á bæ í hverri viku. „Við fórum yfir 100.000 sendingar nú í byrjun nóvember og þá eru stóru dagarnir eftir. Til samanburðar voru sendingarnar um 75.000 allt árið í fyrra,“ segir Hannes A. Hannesson, forstöðumaður fyrirtækisins.

Hannes segir líka áhugavert að skoða hlutfall sendinga frá íslenskum netverslunum. „Árið 2019 var hlutfall innlendrar netverslunar um 10% af heildinni hjá okkur en í ár er hlutfallið komið upp í 45%,“ segir hann og kveðst búast við að innlendar sendingar verði fleiri en þær erlendu þegar árið verður gert upp.