Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Eftir Óla Björn Kárason: "Ef hægt er að yfirfæra niðurstöður OECD á aðrar atvinnugreinar, er ljóst að tugum milljarða er sóað á hverju einasta ári."

Gefum okkur að sérfræðingar OECD hafi aðeins rétt fyrir sér að helmingshluta í ítarlegu samkeppnismati á því regluverki sem gildir hér á landi í byggingastarfsemi og ferðaþjónustu. Í stað þess að 676 mögulegar samkeppnishindranir séu í regluverki þessara tveggja starfsgreina séu þær „aðeins“ 338. Um leið getum við tekið ákvörðun um að hrinda í framkvæmd 219 af 438 tillögum OECD til úrbóta og sætt okkur við að auka landsframleiðsluna um 16 milljarða á ári en ekki 32 milljarða (um 200 milljónir evra).

Sem sagt: Með einföldun regluverks getum við bætt hag landsmanna um 16 milljarða á hverju einasta ári, ár eftir ár. Og þó væri ráðum OECD ekki fylgt nema að hluta. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi af hendi stjórnvalda, þingmanna og hagsmunaaðila að tryggja ekki að slíkur árangur náist.

Tugmilljarða árleg sóun

Stjórnvöld sömdu á síðasta ári við OECD um sjálfstætt samkeppnismat á regluverki sem byggingastarfsemi og ferðaþjónustu er gert að starfa eftir. Matið var unnið í samvinnu við Samkeppniseftirlitið. Tillögum til breytinga er ætlað að skapa sveigjanlegra umhverfi fyrir viðkomandi atvinnugrein, skapa fleiri störf og auka framleiðni og vöxt í hagkerfinu á næstu árum. OECD segir að úrbæturnar séu sérstaklega „mikilvægar í ljósi þess efnahagssamdráttar sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, sem hefur komið sérstaklega illa niður á ferðaþjónustu“.

Flestir hafa gert sér grein fyrir að ferðaþjónusta skiptir okkur Íslendinga miklu en kannski höfðum við ekki áttað okkur á hversu mikilvæg atvinnugreinin er í raun og veru um allt land fyrr en kórónuveirufaraldurinn skall á af fullum þunga. Byggingariðnaður hefur alltaf vegið þungt. En samtals eru þessar tvær atvinnugreinar þó aðeins hluti af efnahagskerfinu. Ef hægt er að yfirfæra niðurstöður OECD á aðrar atvinnugreinar, er ljóst að tugum milljarða er sóað á hverju einasta ári í formi lakari framleiðni og verri samkeppnisstöðu. Og eins og alltaf eru það almenningur og fyrirtæki sem bera byrðarnar í formi verri lífskjara og afkomu. Regluvæðing margra annarra atvinnugreina er síst minni en hjá ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

316 úrbætur í byggingariðnaði

OECD gerir 316 tillögur til úrbóta á regluverki í byggingariðnaði. Þar má nefna:

Skipulagsmál: Einfalda ákvarðanir í skipulagsmálum sveitarfélaga, lækka gatnagerðargjöld, og endurskoða reglur um úthlutun lóða.

Mannvirkjalög og byggingarreglugerð: Einfalda veitingu byggingarleyfa, flýtimeðferð fyrir smærri og einfaldari verkefni, endurskoða skilyrði um lágmarksgæði og aðgengi fyrir alla

Löggiltar starfsgreinar: Endurskoða í heild lög um löggiltar starfsgreinar, endurskoða kerfi meistararéttinda og gera það auðveldara fyrir iðnaðarmenn að afla sér meistararéttinda, draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingarstjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga, og afnema löggildingu bakara og ljósmyndara. (Ég er ekki viss um að ég hafi leyfi frá gamla bakarameistaranum á Sauðárkróki til að samþykkja afnám löggildingar).

121 lagfæring hjá ferðaþjónustu

Í skýrslu OECD voru skoðaðar 229 mögulegar samkeppnishindranir í regluverki ferðaþjónustunnar og lögð fram 121 tillaga til úrbóta. Þar má nefna:

Ferðatengd þjónusta: Afnema tvöfalda leyfisskyldu ferðaþjónustuleyfa og leyfa vegna sérútbúinna bifreiða, afnema úrelt og of nákvæm forskriftarákvæði í stöðlum um gististaði, afnema hömlur sveitarfélaga á breytingum á nýtingu íbúðarhúsnæðis í gistihúsnæði, setja rammalöggjöf um atvinnustarfsemi á náttúruverndarsvæðum og afnema kröfur um fasta starfsstöð og starfsábyrgðartryggingar bílaleiga.

Flugþjónusta: Auka hvata Isavia á Keflavíkurflugvelli til að draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni (flugvöllurinn er einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu), veita Samgöngustofu heimildir til að setja reglur um flugvallargjöld sem rekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli þurfa að greiða, endurskoða hvernig sérleyfissamningar eru veittir fyrir sölu veitinga og annars varnings í flugstöðinni og fyrir aðstöðu fyrir langferðabíla.

Leigubifreiðar: Afnema námskröfur til handhafa leigubílaleyfa sem ekki varða öryggi farþega, ökumanna eða almennings, heimila útgáfu leigubílaleyfa til fyrirtækja og gera þeim kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigubílaleyfi.

Verkefni komandi ára

Þrátt fyrir yfirlýst markmið um annað hefur regluvæðing atvinnulífsins í mörgum tilfellum dregið úr hagkvæmni, komið niður á virkri samkeppni og gengið gegn hagsmunum neytenda. Frumkvæði er ekki verðlaunað og framtaksmaðurinn látinn þramma á milli Pílatusar og Heródesar til að afla sér tilskilinna leyfa fyrir atvinnurekstri. Ég hef orðað þetta sem svo að það sé erfiðara, vandasamara og tímafrekara fyrir atvinnurekendur að uppfylla kröfur hins opinbera en að sinna þörfum og óskum viðskiptavina.

Forgangsverkefni stjórnvalda, það sem eftir lifir kjörtímabilsins og a.m.k. allt næsta kjörtímabil, er að stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins svo við náum aftur fyrri styrk og getum sótt fram. Verðmætasköpunin í frystihúsinu, í málmsmiðjunni, hjá rakaranum, á veitingahúsinu, hjá tölvuleikjaframleiðandanum, sauðfjárbóndanum, byggingaverktakanum, bifvélavirkjanum, stoðtækjaframleiðandanum, trillukarlinum, tónskáldinu, rithöfundinum og annars staðar í atvinnulífinu er undirstaða velferðarkerfisins. Án verðmæta verður lítið til skiptanna. Um þetta munu komandi kosningar snúast.

Sá stjórnmálaflokkur sem sýnir áhuga á atvinnulífinu, hefur innan sinna raða frambjóðendur sem hafa skilning á gangverki atvinnulífsins og skilur samhengið á milli verðmæta og velferðar mun standa sterkt að vígi að loknum kosningum í september næstkomandi.

Skýr sýn á það hvernig endurhanna á margflókið regluverk, hvernig hægt er að gera það einfaldara að stunda atvinnurekstur og plægja frjóan jarðveg fyrir ný fyrirtæki sem leggja grunn að bættum lífskjörum og störfum framtíðarinnar, skilar árangri á kjördegi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa þegar lagt hornsteina að framsókn atvinnulífsins með skattalegum hvötum til rannsókna og þróunar.

Úttekt OECD er góður leiðarvísir í þeim verkefnum sem eru fram undan, þótt sumt af því sem lagt er til kunni að orka tvímælis. En jafnvel þótt við ákveðum að innleiða aðeins helming þeirra tillagna sem stofnunin mælir með, skilar það allt að 16 milljörðum á hverju einasta ári. Og við verðum að horfa á og meta stöðuna í öðrum greinum efnahagslífsins. Pottur er víða brotinn. Byggingariðnaður og ferðaþjónusta eru innan við 20% landsframleiðslunnar. Hugleiðum tækifærin sem bíða okkar ef haldið er rétt á málum.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óla Björn Kárason