Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar á næstunni að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga. Tilgangurinn er að stytta afgreiðslutíma umsókna þeirra sem þegar hafa hlotið vernd í öðru ríki.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar á næstunni að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga. Tilgangurinn er að stytta afgreiðslutíma umsókna þeirra sem þegar hafa hlotið vernd í öðru ríki.

Áslaug segir í skriflegu svari að mikilvægt sé að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái réttláta og vandaða málsmeðferð. „Fjölgun umsókna síðustu misseri sýnir hversu mikilvægt er að bregðast við svo að þeir sem þurfa á alþjóðlegri vernd að halda vegna ofsókna fái skjóta meðferð mála sinna.“ Verndarkerfið þurfi að vera þannig að mál þeirra sem eiga rétt á vernd hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig.

Hún segir ljóst að stjórnsýslan ráði ekki við að afgreiða þann mikla fjölda umsókna um alþjóðlega vernd sem hingað berast innan ásættanlegs tíma. Kostnaður við framfærslu umsækjenda hafi aukist hratt. Hún segir það einkum valda áhyggjum hve stór hluti umsækjenda hér hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Mikilvægt sé að heildarmálsmeðferðartími allra mála sem koma í verndarkerfið tefjist ekki sakir álags vegna afgreiðslu mála þeirra sem þegar hafa hlotið vernd.

Frumvarpið mun mæla fyrir um að horfið verði frá því að umsóknir þessara einstaklinga verði teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga laga um sérstök tengsl og sérstakar ástæður. Til að það sé hægt verði að breyta lögum. „Almennt leiða þessi mál til neikvæðrar niðurstöðu hérlendis en taka lengri tíma en í löndunum í kringum okkur,“ segir Áslaug Arna.

Áfram verður þó hægt að taka mál til efnislegrar meðferðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem eru nú þegar í lögunum, þ.e. að ekki má endursenda fólk til svæðis þar sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. „Áréttað skal að eftir sem áður eru ástand og aðstæður í móttökuríki alltaf kannaðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd.“ gudni@mbl.is