Stuðningsmaður Trumps liggur á götunni eftir átök við stuðningsmenn Bidens. Finna má óféti og fanta í báðum fylkingum en það virðist sem vinstrið sé orðið alveg sérstaklega vægðarlaust, jafnt í grasrótinni sem í efstu lögum.
Stuðningsmaður Trumps liggur á götunni eftir átök við stuðningsmenn Bidens. Finna má óféti og fanta í báðum fylkingum en það virðist sem vinstrið sé orðið alveg sérstaklega vægðarlaust, jafnt í grasrótinni sem í efstu lögum. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Mexíkóborg ai@mbl.is Árangur Trumps í forsetakosningunum skýrist m.a. af þeim vaxandi öfgum sem einkenna bandaríska vinstrið. Vænta má átaka á vinstri væng bandarískra stjórnmála og vandséð hvernig Biden á að geta haft hemil á öfgafólkinu.

Það kom mörgum á óvart hversu mjótt var á mununum hjá Trump og Biden. Ég hafði spáð Trump sigri byggt á því sem ég varð var við í grasrótinni, en hér um bil allar spár vestanhafs voru á þá leið að Biden myndi sigra með miklum yfirburðum. Í mörgum lykilríkjum munaði innan við prósentustigi á fylgi Trumps og Bidens svo að á tímabili leit út fyrir að Trump myndi hafa betur. Munurinn var það lítill að ef atkvæðin sem rötuðu til Jo Jorgensen, fulltrúa frjálshyggjuflokksins, hefðu í staðinn runnið til repúblikana hefði Trump unnið öruggan sigur.

Fólk klórar sér í hausnum, furðu lostið yfir því að dólgurinn Trump skyldi fá meira en 73 milljónir atkvæða – rösklega tíu milljónum fleiri en hann fékk árið 2016. Raunar er árangur Trumps meiri háttar afrek ef haft er í huga hvernig bandarískir fjölmiðlar hafa nánast allir með tölu hamast á forsetanum og fylgjendum hans undanfarin fjögur ár, og netrisarnir sömuleiðis gengið erinda bandaríska vinstrisins. Er almennt talað um að umfjöllun fjölmiðla stýri því hvernig u.þ.b. 5-10% atkvæða er ráðstafað, og að niðurstöður leitarvélanna geti sveigt allt að 25% kjósenda í tiltekna átt.

Skýringuna á miklu fylgi Trumps má finna í vetrarbraut langt, langt í burtu:

Vægðarleysi vinstrisins

Gina Carano er sannkölluð kraftakona; hrífandi manneskja, góð fyrirmynd með mikla útgeislun, skörp í kollinum og með ágætishúmor. Hún lét fyrst að sér kveða í blönduðum bardagaíþróttum en gerðist síðan sjónvarps- og kvikmyndastjarna og landaði að lokum hlutverki í Stjörnustríðs þáttunum The Mandalorian , sem Disney framleiðir.

Eins og bandarískri dægurstjörnu sæmir er Carano með reikning á Twitter en þar þykir núna í tísku að lýsa yfir stuðningi við málstað transfólks með því að tilgreina í notendareikningnum hvaða persónufornöfn viðkomandi vill nota, þ.e. „he/him“, „she/her“, „xe/xir“, „they/their“ o.s.frv. eftir því hvar á litrófi tilverunnar fólk unir sér best. Aðdáendur Carano þrýstu á hana að taka þátt en henni fannst eitthvað bogið við framtakið. Ef til vill er hún ekki hrifin af svona innantómum dyggðaskreytingum eða máski finnst henni breytileiki kynvitundar og kyntjáningar svo sjálfsagður hlutur að þykja svona sýndarmennska kjánaleg. Kannski hugnaðist henni einfaldlega ekki að sitja undir stöðugum þrýstingi frá réttsýnishernum á Twitter í margar vikur og mánuði.

Í september sendi Carano frá sér tíst og gerði um leið minni háttar breytingu á Twitter-reikningnum sínum: „Eftir að hafa þurft að þola stanslaust áreiti í þrjá mánuði hef ég ákveðið að bæta þremur umdeildum orðum við notendareikninginn minn: beep/bop/boop ,“ skrifaði hún með vísan til hljóðanna sem Stjörnustríðs-róbotarnir gefa frá sér.

Sá skríllinn að sér og hafði gaman af húmornum? Sáu þau það sem blasir við öllum: að Carano er fordómalaus og góðhjörtuð manneskja þótt henni þyki dyggðaskreytingar á Twitter ekki viðeigandi? Onei. Aldeilis ekki. Heykvíslarnar fóru hátt á loft: Hvernig gat hún? Hvernig vogaði hún sér? Tillitsleysið!

Eins og hendi væri veifað fór Twitter á hliðina og riddarar réttsýninnar – sem bandaríska vinstrið á hvert bein í – efndu til herferðar þar sem þrýst skyldi á Disney að reka Carano. Skríllinn tvíefldist síðan í aðdraganda forsetakosninganna þegar Carano lét í það skína að hún væri stuðningsmaður Trump.

Svona er réttsýna vinstrið á árinu 2020. Ef þú ekki styður alla réttu málstaðina, með þeim hætti sem þér er sagt að gera, í því magni sem er krafist og í takt víð síbreytileg viðmið um hvað er hin eina rétta og dyggðuga skoðun líðandi stundar – þá skaltu sviptur lífsviðurværinu.

Hér er sumsé komin skýringin á því af hverju svona margir kusu Trump: Bandaríska vinstrið er farið langt út af sporinu og það blasir við stórum hluta landsmanna. Trump er þumbi og fauti, en hann og hans slekti eru ekki nærri því jafn mikil óbermi og þeir verstu í hinu liðinu.

Nú skal refsa

Vandinn er aldeilis ekki bundinn við skrílinn á netinu og sýndu margir framámenn innan demókrataflokksins sitt rétta eðli fljótlega eftir að það fór að verða ljóst að Trump ætti litla von á sigri. Vonarstjarnan Alexandria Ocasio-Cortez spurði á samfélagsmiðlum hvort það væri ekki örugglega einhver sem héldi lista yfir bandamenn Trumps svo því yrði haldið til haga hverjir hefðu gerst „samsekir“ forsetanum. Jake Tapper, fréttaritari hjá CNN, lét að því liggja að stuðningsmenn Trumps ættu að gæta þess hvað þeir segðu og gerðu í kjölfar kosninganna því framaplön þeirra væru í húfi.

Jennifer Rubin, pistlahöfundur hjá Washington Post gekk hvað lengst og kallaði eftir því að „brenna repúblíkanaflokkinn til grunna“ og hreinlega gera þá sem tilheyra bandaríska hægrinu brottræka úr samfélaginu. Allmargar greinar hafa birst í bandarískum fjölmiðlum að undanförnu þar sem hlakkar í höfundunum yfir því að Jared Kushner og Ivanka Trump eigi varla afturkvæmt til New York og verði ekki heldur vært í Washington-borg.

Þá var vefsíða sett í loftið, Trump Accountability Project, með það yfirlýsta markmið að halda úti lista yfir þá sem kusu eða aðstoðuðu Trump með nokkrum hætti svo mætti láta þetta fólk gjalda fyrir. Blessunarlega var vefsíðunni lokað í síðustu viku, með vísan til óska Bidens um að sætta og sameina bandarísku þjóðina. Fram að því höfðu þó margir lykilmenn úr herbúðum demókrata fagnað framtakinu og auglýst á samfélagsmiðlum.

Í aðdraganda kosninganna hömuðust verslunareigendur í bandarískum borgum við að negla krossviðarplötur fyrir búðarglugga sína ef ske kynni að óeirðir myndu brjótast út þegar niðurstöðurnar lægju fyrir. Engum dylst að búðareigendur óttuðust ekki að vonsviknir hægrimenn myndu halda út á götur með ofbeldi og ólátum. Þeir óttuðust bræði andstæðinga Trumps ef skipting atkvæða yrði þeim ekki að skapi.

Enginn er of góður fyrir ísöxi

Biden er vandi á höndum. Tæpur sigur í forsetakosningunum færði honum tiltölulega veikt umboð og meirihluti demókrata í neðri deild þingsins minnkaði í kosningunum. Repúblikanar hafa enn meirihluta í öldungadeildinni. Biden segist vera fulltrúi meðalhófs og hefðbundinna gilda demókrataflokksins en þarf að glíma við vaxandi vinstriöfgar innan eigin flokks. Demókratar breiddu út faðminn á móti dólgunum lengst til vinstri í þeirri von að geta sigað þeim á Trump en sitja núna uppi með vægðarlausa og ófyrirsjáanlega ólátabelgi sem nær ómögulegt er að tjónka við.

Það eykur á vanda Bidens og Demókrataflokksins að bandarískir fjölmiðlar hafa rakað inn smellum undanfarin fjögur ár með æsifréttum um Trump. Nú þegar flest bendir til að Trump sé á útleið þurfa fjölmiðlarnir að finna nýjar leiðir til að æsa lesendur upp og ekkert víst að ríkisstjórn Bidens fái að vera i friði fyrir falsfrétta- og smellubeitusmiðunum. Er hætt við að fréttaflutningurinn færist enn lengra til vinstri til að viðhalda æsingnum, sem mun gera Biden enn erfiðara fyrir að halda demókrataflokknum á línu meðalhófs og varfærni. Gæti hæglega farið svo að næstu fjögur ár muni einkennast af meiri háttar átökum á vinstri væng bandarískra stjórnmála sem munu á endanum kosta flokkinn fylgi í þingkosningum og færa repúblikönum forsetaembættið á silfurfati árið 2024.

Ætti sagan að hafa kennt vinstrimönnum hversu illa fer þegar vinstrið gengur of langt í öfgunum og skoðanaágreiningi er mætt af heift og vægarðleysi. Hér í Mexíkóborg, þar sem ég bý, lærði Leon Trotsky þessa lexíu þegar útsendarar Stalíns reyndu ítrekað að ráða hann af dögum og tókst á endanum að bana einum helsta kenningasmið kommúnista með ísöxi.

Trotsky var ömurlegur kommúnisti í húð og hár, en bara ekki rétta gerðin af ömurlegum kommúnista svo það varð að kála honum. Nema hvað svipuð örlög biðu þeirra sem voru fengnir til að myrða Trotsky. Pavel Sudoplatov, sem stýrði aðgerðinni, var handtekinn fljótlega eftir dauða Stalíns og fékk að dúsa í steininum í fimmtán ár. Aðstoðarmaður hans Nahum Eitington var sömuleiðis bendlaður við samsæri og fangelsaður. Hreinsanirnar taka aldrei enda.

Í keppni um hver er mesti, besti og dygðugasti vinstrimaðurinn getur enginn staðið uppi sem sigurvegari og þegar vinstrimenn byrja að halda lista yfir óvini sína geta þeir alltaf vænst þess að lenda á listanum sjálfir, einn góðan veðurdag. Allt sem þarf er blíbb-búbb og ballið er búið.