Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, boðar mikla uppbyggingu í Hamraborginni á næstu árum.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, boðar mikla uppbyggingu í Hamraborginni á næstu árum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir umbreytingu Hamraborgarsvæðisins munu styrkja hana sem verslunar- og þjónustukjarna. Uppbyggingin í fyrsta áfanga við Fannborgarreitinn muni kosta um 20 milljarða og skapa mikil tækifæri í verslun og þjónustu.

Áformað er að byggja allt að 270 íbúðir og atvinnuhúsnæði á reitnum og 280 íbúðir á aðliggjandi Traðarkotsreit vestri. Samhliða verða byggðar hundruð íbúða til austurs og norðurs. Gætu þar risið allt að þúsund íbúðir eins og rakið er í rammagrein hér á opnunni.

Á grafinu má jafnframt sjá útlínur svæðisins.

Þegar Hamraborgin var byggð voru óbyggð svæði milli Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar. Síðustu áratugi hafa sveitarfélögin hins vegar vaxið saman og setur það Hamraborgina í nýtt samhengi.

Þetta endurspeglast í hækkandi íbúðaverði og áhuga fjárfesta á enn frekari uppbyggingu.

Hátt þjónustustig er í Hamraborg sem er miðstöð menningar og stjórnsýslu í Kópavogi og þar eru verslanir, skrifstofur, bókasafn, Gerðarsafn, Salurinn og félagsmiðstöð eldri borgara svo eitthvað sé nefnt.

Ríflega 600 manns búa nú í Hamraborg en óvíða á höfuðborgarsvæðinu er svo mikið úrval þjónustu í göngufæri. Hún stendur uppi á hæð og þaðan er útsýni til allra átta. Gert er ráð fyrir að stæði fyrir reiðhjól verði 20% af stæðafjölda hverfisins. Það vitnar um áherslu á aðra samgöngumáta en fjölskyldubílinn í skipulaginu.

Tenging við Vatnsmýrina

Hamraborg er skilgreind sem bæjarkjarni í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Stefnt er að því að árið 2040 búi tveir af hverjum þremur íbúum höfuðborgarsvæðisins við slíka kjarna og á svonefndum samgöngumiðuðum svæðum.

Á þessum svæðum er áformað að þétta byggð og tengja hana við borgarlínuna.

„Við ætlumst til að borgarlínan verði farin að fara um Hamraborgina árið 2024 og að uppbygging [íbúða og atvinnuhúsnæðis] verði langt komin eftir 5-6 ár,“ segir Ármann.

„Þannig er ein af forsendunum fyrir því að hægt er að þétta byggð í Hamraborginni að tvær borgarlínur munu liggja í gegnum hana. Annars vegar tenging sem fer Hafnarfjarðarveg og Kringlumýrarbraut og áfram niður í miðbæ Reykjavíkur. Hins vegar tenging, sem mér þykir hvað mest spennandi í borgarlínunni, sem er frá Hamraborg og Borgarholtsbraut og áfram yfir brú yfir Fossvog í Vatnsmýri. Þannig tengist hún báðum háskólunum og sjúkrahúsinu sem eru stærstu vinnustaðir á Íslandi.“

Býður upp á litlar íbúðir

„Þessar tengingar bjóða upp á að við séum með tiltölulega litlar íbúðir. Hugmyndin er að fólk geti búið hér án þess að eiga bíl. Miðað er við eitt stæði á íbúð en hugmyndin er að allir geti keypt stæði í bílageymslu eða leigt stæði í langtímaleigu, ef þeir kaupa bíl síðar meir. Það kostar 5-6 milljónir að byggja bílastæði í kjallara og yrði íbúðin ódýrari sem því næmi. Markmiðið er að Hamraborgin laði að sér ungt fólk og barnafólk í meira mæli en önnur þéttingarverkefni hér í Kópavogi og víðar.“

Verkefnin gjarnan flókin

Hv enær fóru hugmyndir um endurnýjun Auðbrekku- og Hamraborgarsvæðisins að mótast?

„Á síðasta kjörtímabili (2012-2016) fórum við að horfa á Hamraborgarsvæðið og Auðbrekkuna niður að Nýbýlavegi með endurnýjun í huga. Nú er búið að reisa fyrstu fjölbýlishúsin við Dalbrekku og Nýbýlaveg. Þar eru áform um atvinnuhúsnæði, hótel og fleiri íbúðir. Það er eðlilegt að það verkefni hafi tafist, enda eru þéttingarverkefni gjarnan flókin vegna þess að aðilar eiga erfitt með uppkaup og fleira. Þá hefur grundvöllur hótelreksturs hrunið og nauðsynlegt að vinna með breyttar forsendur.

Það stendur til að byggja meira á því svæði og síðan upp að Hamraborg. Þegar við seldum bæjarskrifstofurnar [í Fannborg 2, 4 og 6] fyrir þremur árum kom aukinn kraftur í endurskipulagningu Hamraborgarsvæðisins en þess má geta að hluti svæðisins hefur tekið miklum breytingum síðustu ríflega þrjá áratugi með tilkomu Gerðarsafns og Salarins. Síðan var byggt yfir gjána sem var mjög mikilvægt skref í þróun Hamraborgarinnar og byggð tvö hús ofan á sem hýsa meðal annars Landsbankann og núverandi bæjarskrifstofur. Næsta skref er að taka Hamraborgina sjálfa, sem hefur að mörgu leyti verið afskipt í þessu endurnýjunarferli, og í raun gjörbreyta henni, svo hún fái þann sess sem henni var ætlað á sínum tíma.“

Horfðu til erlendra borga

Hvernig þá?

„Elstu hlutar Hamraborgar og Fannborgar voru byggðir um 1960. Hjördís Johnson bæjarfulltrúi hefur rifjað upp að á sínum tíma fóru héðan úr bæjarstjórn teymi og hópur sérfræðinga og arkitekta til útlanda til að kynna sér hugmyndafræði og fá innblástur varðandi miðbæjarkjarna. Hugmyndin var að hér væri öflugur miðbær,“ segir Ármann og vísar til svonefndrar miðbæjarnefndar.

Hamraborgarsvæðið byggðist upp á árunum 1973-78 en flest húsin eru með skráð byggingarár 1973 og 1977 og var framkvæmdum að mestu lokið 1984.

„Eftir því sem mér skilst var hér öflug verslun sem missti sinn sess þegar Kringlan var byggð.“

Æskilegt að hafa þétta byggð

Þannig að blómatími Hamraborgarinnar var frá áttunda áratugnum og fram að opnun Kringlunnar 1987?

„Það má segja það. Hins vegar hafa tímarnir breyst. Hugmyndin er að líkt og fyrir 50 árum verði Hamraborgin aftur sterkur miðbær. Samkvæmt núverandi hugmyndafræði um þéttingu byggðar er æskilegt að hafa ákveðinn íbúaþéttleika til þess að svæðið fyllist af lífi og verslun og til að þjónusta geti þrifist og dafnað. Til þess þarf einfaldlega að þétta byggðina í Hamraborginni umtalsvert miðað við þau viðmið sem eru í dag. Þannig að hér munu miklu fleiri búa. Markmiðið er að hér verði iðandi mannlíf og meira framboð af verslun, þjónustu og veitingahúsum.“

Minnkað niður í 18 þúsund fermetra

Við erum hér fyrst og fremst að ræða um Fannborgarreit og Traðarreit vestri (sjá myndir og graf) þegar við tölum hér um Hamraborgarsvæðið. Hversu langt er fyrirhuguð uppbygging komin?

„Nú er bæjarstjórn búin að samþykkja að auglýsa tillögu að skipulagi svæðisins. Það er búið að kynna tvær vinnslutillögur og í ljósi athugasemda sem bárust var tillögunum breytt og meðal annars var byggingarmagn minnkað umtalsvert, eða úr 28 þúsund í 18 þúsund fermetra. Þeir aðilar sem keyptu bæjarskrifstofurnar höfðu mikinn áhuga á að þétta byggð í kringum þær. Þegar þeir fóru betur ofan í málið töldu þeir hins vegar skynsamlegra að rífa skrifstofurnar og byrja frá grunni sem gefur möguleika á miklu betra skipulagi.

Það er raunhæft að ljúka við skipulagið á Fannborgarreitnum næsta vor og hefja framkvæmdir haustið 2021. Þétting byggðar er flókið verkefni og við erum líka að liggja yfir því hvernig standa má að framkvæmdum þannig að vel sé fyrir þá sem fyrir eru, íbúa og atvinnulíf. Það verður ekki farið af stað fyrr en það liggur fyrir hvernig staðið verður að framkvæmdum.“

Veitingageirinn í sókn

Hvernig á að gera svæðið meira aðlaðandi sem fyrsta valkost til að fara út að borða? Hvernig stendur til að keppa við miðborg Reykjavíkur?

„Ég held að hugmyndir um að fara út að borða hafi verið að breytast undanfarin ár og áratugi. Fólk er farið að elda minna og farið að kaupa meira tilbúna rétti. Það þykir orðið miklu sjálfsagðra en áður að fara á veitingastaði án sérstaks tilefnis. Við tökum eftir því að fólk er farið að kalla eftir því að geta farið á veitingahús, á pöbbinn eða á kaffihús í sínu nærumhverfi. Veitingahús í miðborg Reykjavíkur eru meira fyrir ferðamenn. Ég held hins vegar að veitingastaðir fyrir utan miðbæ Reykjavíkur séu að öðlast ríkari sess en verið hefur. Hér í Kópavogi sjáum við til dæmis að veitingahúsum er að fjölga víðs vegar um bæinn. Sama má segja um sveitarfélögin í kringum okkur, sem eru mun fjær miðborginni, og raunar líka úthverfi Reykjavíkur.“

Einn stór bílakjallari

Öllum þessum íbúðum mun fylgja aukin bílaumferð. Hvernig á að leysa bílastæðamálin?

„Það sem verður svo skemmtilegt við Hamraborgina er að við erum að taka bílinn og setja hann neðanjarðar. Þannig að í Hamraborginni, til dæmis þar sem bæjarskrifstofurnar voru, verður eingöngu hægt að fara um fótgangandi og þar í kring. Það mun gera svæðið mjög aðlaðandi og er forsendan fyrir því að hægt er að þétta byggð jafn mikið og raun ber vitni. Hins vegar er bíllinn velkominn að því leyti að hann er undir göngugötunni. Það verður þannig ekkert mál að koma á bíl í Hamraborgina en undir henni verður einn stór bílakjallari.“

Tímamörk þurfa að halda

Hvaða lærdóm má draga af uppbyggingu á öðrum þéttingarreitum á höfuðborgarsvæðinu?

„Það sem við höfum verið að læra í þessum þéttingarverkefnum er að þau eru miklu flóknari en þegar verið er að brjóta land og byggja frá grunni. Huga þarf mjög vel að umhverfinu, öryggismálum, lagnaleiðum og setja tímamörk sem standast gagnvart íbúunum, þannig að fólk í nánasta umhverfi geti gengið að því sem vísu að byggingartíminn standist, og það þarf að vinna þetta í áföngum, þannig að hver áfangi byggist eins hratt upp og auðið er. Skipulag í aðdraganda byggingaráforma er númer eitt, tvö og þrjú. Við höfum líka lært að við verðum að fá eins fjölbreytta flóru fólks inn á þessa þéttingarreiti og kostur er. Það verður lítið mál að stækka skóla og koma fyrir fleiri leikskólum í nágrenninu. Það eru ýmis tækifæri. Hamraborgin er í raun frábær staðsetning fyrir alla aldurshópa, ekki síst barnafólk.“

Nú er jafnframt verið að byggja upp miðbæjarsvæði sunnan við Smáralind í Smárabyggð. Þar verða um 700 íbúðir og nýtt atvinnuhúsnæði. Íbúafjöldinn nálgast nú 39 þúsund. Hvernig sérðu fyrir þér stöðu Hamraborgar og Kópavogs í verslun og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu árið 2030?

Staða Kópavogsbæjar að styrkjast

„Ég tel að verslun og þjónusta komi til með að verða enn öflugri og sterkari í Smáranum. Við eigum jafnframt eftir að byggja upp verslun og þjónustu í Glaðheimum. Samþykkt hefur verið uppbygging við Dalveginn og ekki er ólíklegt að farið verði í frekari uppbyggingu við Smáratorg [norðan við Turninn] einhvern tímann í framtíðinni. Kópavogur er í miðju höfuðborgarsvæðisins og sú staða mun verða enn sterkari sem og staða Hamraborgarinnar með tilkomu borgarlínunnar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson.

Allt að 1.000 íbúðir á fimm svæðum við Hamraborg

Uppbygging er fyrirhuguð á fleiri svæðum við Hamraborg en á Fannborgarreit og Traðarreit vestri en þeir tveir eru sýndir á grafi hér fyrir ofan. Þar má jafnframt sjá drög að útliti fyrirhugaðra bygginga í Hamraborg.

Í fyrsta lagi er niðurrif áformað á Traðarreit eystri en þar stendur til að byggja 180 íbúðir með 254 bílastæðum í kjallara. Sá reitur afmarkast af Álftröð í austri, Digranesvegi í suðri, Skólatröð í vestri og Hávegi í norðri. Reiturinn er milli Kópavogsskóla og MK og þaðan er stutt yfir í Hamraborg. Hafa fjárfestar keypt a.m.k. 17 hús sem verða rifin vegna þessarar uppbyggingar.

Lokið innan þriggja til fjögurra ára

Ármann segir raunhæft að uppbyggingu reitsins verði lokið innan þriggja til fjögurra ára. „Við erum að ljúka samningaviðræðum um hvernig eigi að standa að uppbyggingunni. Það er eitt af því sem við höfum verið að læra í þéttingarverkefnunum okkar.“

Í öðru lagi stendur til að heimila 280 íbúðir á Traðarreit vestri (sjá graf). Sá reitur afmarkast af Vallartröð í austri, Digranesvegi í suðri, Neðstutröð í vestri og Hamraborg 10-38 í norðri. Uppbyggingunni fylgir niðurrif átta lágreistra íbúðarhúsa með gróna garða.

Þrettán byggingar á einni hæð

Á þessum reit er fyrirhugað að reisa 13 byggingar sem verða frá einni hæð og upp í sjö hæðir auk kjallara. Byggðin mun stallast og verða húsin sambyggð. Hærri húsin verða við Vallartröð í austri.

Í þriðja lagi er áformað að heimila 270 íbúðir og atvinnuhúsnæði á Fannborgarreit (sjá graf) sem afmarkast af Neðstutröð í austri, Fannborg 1-9 í suðri, Fannborg 8 til vesturs og Hamraborg 10-38 til norðurs. Húsin Fannborg 2, 4 og 6 verða rifin en þau hýstu bæjarskrifstofur Kópavogs.

Græn svæði og torg

Á Fannborgarreit er gert ráð fyrir að nýja byggðin verði á einni til tólf hæðum. Húsin eru samtengd en gert ráð fyrir grænum svæðum og torgum.

Í fjórða lagi verður svæðið frá nyrðri hluta Hamraborgar og að Auðbrekku endurnýjað. Þær hugmyndir eru í mótun en gert er ráð fyrir breytingu eldra húsnæðis í íbúðarhúsnæði að hluta. Í fimmta lagi er áformað að byggja fleiri fjölbýlishús í Auðbrekku og eru þau áform líka í mótun.

Á þessum fimm reitum gætu rúmast yfir 1.000 íbúðir, ef nýbyggð fjölbýlishús við Nýbýlaveg eru meðtalin.

Samanlögð fjárfesting mun því hlaupa á tugum milljarða króna.