Ok Hætti að teljast til jökla 2014. Síðan hafa margir smájöklar m.a. á Tröllaskaga og Austurlandi týnt tölunni.
Ok Hætti að teljast til jökla 2014. Síðan hafa margir smájöklar m.a. á Tröllaskaga og Austurlandi týnt tölunni. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Íslensku jöklarnir halda áfram að rýrna en rýrnunin var samt fremur lítil á þessu ári, að sögn Þorsteins Þorsteinssonar, sérfræðings á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Íslensku jöklarnir halda áfram að rýrna en rýrnunin var samt fremur lítil á þessu ári, að sögn Þorsteins Þorsteinssonar, sérfræðings á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands. Hann og Finnur Pálsson verkfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ fjölluðu um afkomu jöklanna í fyrirlestri hjá Jöklarannsóknafélagi Íslands í gærkvöld.

„Rýrnunin í ár var ekki jafn mikil nú og hún var á árunum eftir 1995 og á fyrsta áratug þessarar aldar,“ segir Þorsteinn. Hann segir að áraskipti hafi verið á afkomu jöklanna undanfarin ár. Jöklarnir bættu allir við sig á árinu 2015. Þeir rýrnuðu aftur 2016 og 2017 en stóðu nokkurn veginn í stað 2018. Jöklarnir rýrnuðu verulega mikið í fyrra en rýrnunin var í minna lagi á þessu ári. Lofthiti og úrkoma ráða mestu um það hvort jöklar stækka eða minnka. Vetrarafkoman á síðasta vetri, þ.e. hve mikið bættist á jöklana, var rétt undir meðallagi. Svo var sumarið í svalara lagi, miðað við síðustu 25 ár, sem gerði útslagið um afkomu jöklanna. Meginjöklarnir þrír, Langjökull, Hofsjökull og Vatnajökull, voru nokkuð áþekkir hvað afkomu varðaði á þessu ári.

Sem kunnugt er var Ok kvatt formlega úr hópi jökla í fyrra en það var hætt að falla undir skilgreiningu á jökli 2014. Þorsteinn segir að allmargir smájöklar hafi horfið frá síðustu aldamótum. Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hefur tekið saman upplýsingar um alla jökla á landinu, stóra og smáa, og jafnvel gefið þeim nöfn sem voru nafnlausir.

„Þegar menn bera saman eldri loftmyndir við nýjar eða gervitunglamyndir sést að smájöklar hafa verið að týna tölunni á Íslandi,“ segir Þorsteinn. Hann segir þetta einna helst hafa gerst á Tröllaskaga, þar sem voru margir smájöklar, og einnig í fjalllendi Austfjarða.

Það gerist reglulega að sumir jöklar hlaupa, eða ganga fram, og það er ótengt loftslagsbreytingum. Einn framhlaupsjöklanna er Brúarjökull sem gengur norður úr Vatnajökli og m.a. í átt að Hálslóni. Hann nær frá Kverkfjöllum og austur að Þjófahnjúkum suður af Snæfelli. Brúarjökull hljóp síðast fram um 10 km á árunum 1963-64. Brúarjökull hefur hlaupið fram á 70-80 ára fresti. Samkvæmt því má búast við framhlaupi hans á árunum 2033-2043. Mögulega mun hlýnun undanfarinna ára þó seinka næsta framhlaupi.

Afkoma íslenskra jökla

Afkoma jökla á Íslandi var umfjöllunarefni erindis sem þeir Finnur Pálsson, verkfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, héldu hjá Jöklarannsóknafélagi Íslands (JÖRFÍ) í gærkvöld. Erindinu var streymt á netinu og verður upptaka af streyminu gerð aðgengileg á vefsíðu félagsins (jorfi.is).

Erindið var liður í fyrirlestraröð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins.

Á vefsíðu JÖRFÍ er tengill á fyrirlestur Helga Björnssonar jöklafræðings, Ísland undir jökli. Sigrún Helgadóttir verður svo með fyrirlestur 12. janúar um fyrstu ferðir Sigurðar Þórarinssonar á jökla.