Harður Kári Árnason glímdi við Harry Kane í Laugardalnum í september og hafði yfirleitt betur.
Harður Kári Árnason glímdi við Harry Kane í Laugardalnum í september og hafði yfirleitt betur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðadeildin Kristján Jónsson kris@mbl.is Gamall draumur rætist hjá Erik Hamrén, landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, í kvöld þegar hann mætir með íslenska landsliðið á hinn vígfræga Wembley-leikvang í norðvesturhluta London.

Þjóðadeildin

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Gamall draumur rætist hjá Erik Hamrén, landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, í kvöld þegar hann mætir með íslenska landsliðið á hinn vígfræga Wembley-leikvang í norðvesturhluta London. Þar mun Ísland takast á við England í Þjóðadeild UEFA og verður leikurinn sá síðasti hjá Hamrén sem þjálfari íslenska landsliðsins.

„Ég hlakka til að mæta á Wembley sem er eins konar Mekka fótboltans. Mig dreymdi í gamla daga um að mæta í leik á Wembley. Við skulum sjá hvort við náum að koma á óvart,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi í London í gær.

Sjöttu og síðustu umferð í 2. riðli lýkur í kvöld með leik Englands og Íslands en einnig mætast Belgía og Danmörk í Brussel. Verður það úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum og áframhaldandi keppni í Þjóðadeildinni. Belgía er í efsta sæti með 12 stig en Danir eiga enn möguleika með 10 stig. England og Ísland hafa ekki að neinu að keppa í þessari keppni en England er með sjö stig og Ísland án stiga.

Ljóst er að Ísland fellur niður í B-deild Þjóðadeildarinnar en frá því hún var stofnuð hefur Ísland verið í A-deildinni eða í tvö skipti. Íslenska liðið hefur enn ekki fengið stig frá því keppninni var komið á fót eins og komið hefur fram.

Aftur eru mikil forföll

Fyrri leik liðanna í keppninni lauk með 1:0-sigri Englendinga en liðin mættust þá fyrir luktum dyrum, eða svo gott sem, á Laugardalsvelli hinn 5. september eða fyrir rúmum tveimur mánuðum. Var leikurinn í fyrstu umferð keppninnar. Íslenska liðið hélt því enska vel í skefjum þar til á 90. mínútu þegar Englendingar fengu vítaspyrnu og úr henni skoraði Raheem Sterling. Hólmbert Friðjónsson fékk víti mínútu síðar en Birkir Bjarnason brenndi af.

Þá vantaði marga fastamenn í íslenska liðið. Aron Einar Gunarsson fékk ekki leyfi frá vinnuveitendum sínum í Katar og leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason gáfu ekki kost á sér. Nú þegar liðið mætir Englendingum í síðara skiptið í keppninni er sama upp á teningnum. Þ.e.a.s. marga fastamenn vantar í íslenska liðið. Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson, Viðar Örn Kjartansson og Hörður Björgvin Magnússon eru ekki til taks.

Fram kom hjá Hamrén á fundinum í gær að hann vildi ávallt tefla fram sínu sterkasta liði en hins vegar væri ekki hægt að ganga fram af leikmönnum með því að láta þá spila 90 mínútur í þremur leikjum á nokkrum dögum, auk þeirra ferðalaga sem fylgt hafa þessum leikjum. Íslenski hópurinn er nú að heimsækja fjórða landið á sex dögum en ferðin hófst í Þýskalandi áður en haldið var til Ungverjalands í leikinn örlagaríka í umspili EM í síðustu viku. Taka þurfi tillit til leikmanna.

Íslensku leikmennirnir munu leika með sorgarbönd í leiknum í kvöld til að heiðra minningu Pers Hamréns, föður Eriks Hamréns, en hann andaðist 15. nóvember.

„Flottur vettvangur“

Varnarjaxlinn Kári Árnason leikur væntanlega fyrir Ísland í síðasta sinn í kvöld en hann hefur heldur betur reynst landsliðinu þarfur maður frá því hann kom boltanum í netið gegn Norðmönnum í fyrsta leiknum í undankeppni HM 2014, og fyrsta mótsleik Lars Lagerbäcks með íslenska liðið.

Kári var einnig til svara á blaðamannafundinum í gær. „Ég ætla ekki að gefa neitt út um það [hvort þetta verði síðasti landsleikurinn] en það er mjög líklegt. En ég hef sagt að ég sé tilbúinn ef kallið kemur. Ef erlendur þjálfari tekur við þá efast ég um að hann leiti að 39 ára gömlum manni í Pepsí Max-deildinni til að nota í landsleiki. En ef þetta verður síðasti landsleikurinn þá er þetta flottur vettvangur,“ sagði Kári sem stefnir að því að leika áfram með Víkingi næsta sumar.

„Ég get ekki skilið við Víkingana eftir svona tímabil sem var alls ekki gott. Maður veit svo aldrei hvað gerist í þessu varðandi landsliðið. Ef eitthvað kemur upp á í landsliðinu þá er ég alltaf klár.“

Mikil saga á landareigninni

Sannarlega væri hægt að finna ómerkilegri leikvang fyrir þá Hamrén og Kára að kveðja landsliðið, fari svo að Kári spili ekki fleiri landsleiki. Wembley er á meðal frægustu leikvanga í knattspyrnuheiminum og lóðin sem hann stendur á er sögufræg. Eldri leikvangurinn var tekinn í notkun árið 1923 og stóð af sér sprengjuregn Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni. Þar voru haldnir frægir viðburðir eins og Ólympíuleikarnir 1948 og Live Aid-tónleikarnir 1985. Auk þess voru þar margir frægir leikir í rugby og knattspyrnu. Frægasti knattspyrnuleikurinn var úrslitaleikurinn á HM 1966 þegar Englendingar unnu Þjóðverja. Þá voru nokkrir Íslendingar á áhorfendapöllunum en engir Íslendingar verða á meðal áhorfenda í kvöld vegna heimsfaraldursins. Raunar eru Englendingar í miðju útgöngubanni í London en þurfa að spila og taka á móti gestum þar sem Knattspyrnusamband Evrópu fer fram á það.

Wembley-leikvangurinn sem nú er í notkun var vígður árið 2007 og gæti tekið upp undir 87 þúsund manns á knattspyrnuleikjum. Andrúmsloftið verður að líkindum heldur sérstakt á þessum stóra leikvangi þegar áhorfendur eru ekki leyfðir.