Jens Stoltenberg
Jens Stoltenberg
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, varaði í gær við því að Afganistan gæti aftur orðið að griðastað hryðjuverkamanna, ef vesturveldin ákveði að draga herlið sitt of snemma til baka frá landinu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, varaði í gær við því að Afganistan gæti aftur orðið að griðastað hryðjuverkamanna, ef vesturveldin ákveði að draga herlið sitt of snemma til baka frá landinu.

Stoltenberg lýsti þessu yfir eftir að greint var frá því um helgina að Donald Trump Bandaríkjaforseti vildi draga úr fjölda hermanna í bæði Írak og Afganistan. Sagði Stoltenberg brýnt að slík brottför færi fram á skipulagðan og samræmdan hátt. „Gjaldið fyrir að fara of snemma eða á óskipulagðan hátt gæti orðið hátt,“ sagði Stoltenberg, og bætti við að Ríki íslams gæti reynt að endurbyggja kalífadæmi sitt í landinu, sæi það færi á.

Þá benti Stoltenberg á að nú væru færri en 12.000 hermenn á vegum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan, og þar af væri rúmlega helmingur frá hinum bandalagsþjóðunum. Þá hafi ríkin samþykkt fjármagn til þess að sinna áfram þjálfun og aðstoð við afganskar öryggissveitir út árið 2024.

Andstaða á Bandaríkjaþingi

Trump vill samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs draga úr fjölda bandarískra hermanna í Afganistan úr rúmlega 5.000 talsins niður í um 2.500. Þá eigi um 500 hermenn að yfirgefa Írak. Sagði Trump um helgina að hermennirnir þar ættu að eyða jólunum heima hjá sér, en átökin í Afganistan eru nú þegar lengstu stríðsátök í sögu Bandaríkjanna.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, lýsti hins vegar yfir á mánudaginn áhyggjum sínum af áformunum, og sagði þau geta orðið „tákn fyrir ósigur og niðurlægingu Bandaríkjanna og sigur íslamskrar öfgahyggju“.

Sagði McConnell í umræðum á þingi að afleiðingar þess yrðu líklega verri en þegar Obama-stjórnin dró úr fjölda hermanna í Írak árið 2011, og að þau myndu minna á þegar Bandaríkjamenn yfirgáfu Saigon í lok Víetnamstríðsins.