Bóluefni Miklar vonir eru bundnar við bóluefni gegn kórónuveirunni.
Bóluefni Miklar vonir eru bundnar við bóluefni gegn kórónuveirunni. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Stjórnvöld í Evrópu og Bandaríkjunum undirbúa nú bólusetningar í stórum stíl eftir tíðindi síðustu daga um að tvö bóluefni hafi sýnt mikla virkni gegn kórónuveirunni.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Evrópu og Bandaríkjunum undirbúa nú bólusetningar í stórum stíl eftir tíðindi síðustu daga um að tvö bóluefni hafi sýnt mikla virkni gegn kórónuveirunni. Fá merki eru hins vegar á lofti um að seinni bylgja faraldursins sé í rénun.

Þau tíðindi að Moderna annars vegar og Pfizer og BioNTech hins vegar hafi hvort um sig náð að þróa bóluefni með 90-95% virkni hafa hins vegar vakið vonir um að hægt verði að ráða niðurlögum faraldursins á næsta ári. Líkur eru á að bandaríska lyfjaeftirlitið muni samþykkja bæði bóluefnin snemma í desember og bólusetningar hefjast í janúar.

Í Frakklandi er einnig stefnt að því að bólusetningar hefjist í janúar, og hafa frönsk stjórnvöld eyrnamerkt um 1,5 milljarða evra, eða sem nemur um 242 milljörðum íslenskra króna, í bólusetningaráætlun sína.

Hertar aðgerðir víða

Rúmlega 55 milljónir manna hafa nú smitast af kórónuveirunni og rúmlega 1,3 milljónir látist af völdum hennar til þessa. Gert er ráð fyrir að næstu vikur og mánuðir geti orðið erfið.

Í Bandaríkjunum mælist nú metfjöldi nýrra tilfella á nánast hverjum einasta degi, en undanfarna þrjá daga hafa ný tilfelli verið á bilinu 166-177 þúsund á dag. Er óttast að sá fjöldi muni einungis aukast á næstu dögum, þrátt fyrir að gripið hafi verið til hertra sóttvarnaaðgerða í flestum af ríkjunum fimmtíu.

Í Evrópu er einnig alvarlegt ástand, en þar hafa nú fleiri en 15 milljónir smitast af veirunni. Stjórnvöld í Svíþjóð bönnuðu í fyrradag samkomur fleiri en átta manns, og í Austurríki ákváðu stjórnvöld í gær að loka skólum og verslunum, þrátt fyrir mótbárur stjórnarandstöðu.