Jörgen segist hafa tamið sér að setja sér mælanleg markmið og með þeim hætti drífa sjálfan sig áfram.
Jörgen segist hafa tamið sér að setja sér mælanleg markmið og með þeim hætti drífa sjálfan sig áfram. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Mikill hugur er í aðstandendum HP gáma en þetta unga fyrirtæki hefur komið af miklum krafti inn á markaðinn á þessu ári. Er stefnan sett á að fjölga viðskiptavinum um 100 á þessu ári og ná tveggja milljarða króna veltu árið 2022.

Mikill hugur er í aðstandendum HP gáma en þetta unga fyrirtæki hefur komið af miklum krafti inn á markaðinn á þessu ári. Er stefnan sett á að fjölga viðskiptavinum um 100 á þessu ári og ná tveggja milljarða króna veltu árið 2022. Á þessu ári stefnir í að veltan fari yfir hálfan milljarð sem er meira en 70% aukning á milli ára.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Okkur hefur gengið vel að ná rekstrarmarkmiðum okkar þrátt fyrir að ytri aðstæður séu óvenjulegar. Helstu áskoranirnar hafa þess vegna aðallega verið fólgnar í því lúxusvandamáli að rekstur og umsvif fyrirtækisins hafa stækkað hratt á skömmum tíma. Við höfum því varla undan að endurskrifa ýmsa verkferla, innleiða nýjar hugbúnaðarlausnir og dreifa tækjum og búnaði til nýrra viðskiptavina.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar

?

Letters to a Young Lawyer eftir Alan Dershowitz, fyrrverandi Harvard-prófessor og lögmann. Umrædd bók er eins og góður matseðill á fimm stjörnu veitingastað, bæði margbrotin og kjarnmikil. Alan er rosalegur hugsuður, býr yfir gríðarlegri reynslu og er engum líkur.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Uppáhaldsnetsíðurnar mínar eru finance.yahoo.com og bloomberg.com en þar er hægt að lesa helstu viðskiptafréttir. Með því að fylgjast vel með og fræðast rifjast upp fyrri þekking auk þess sem ný þekking bætist stöðugt við. Mín helstu áhugamál eru alþjóðleg viðskipti og þróun markaða, sérstaklega hrávörumarkaða. Auk þess fylgist ég vel með ákveðnum fyrirtækjum á sviði umhverfislausna og mörg af þessum fyrirtækjum eru á markaði erlendis. Mér þykir einnig gaman að læra af unga fólkinu eins og t.d. af henni Tinnu Líf dóttur minni sem er nýútskrifaður viðskiptafræðingur. Ég fylgist vel með því í fréttum og hef meðal annars fengið innsýn inn í hvaða nýjungar hafa orðið á sviði viðskipta frá unga fólkinu.

Hugsarðu vel um líkamann?

Fyrir nokkrum árum fjárfesti ég í heima-líkamsrækt sem ég nota til að boxa, hjóla og hlaupa. Þar æfi ég fjórum sinnum í viku alla jafna. Mataræðið mætti vera miklu betra, spurning um að setja það sem eitt af áramótaheitunum.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Mér þykir allt skemmtilegt. Ég hef þann sérkennilega eiginleika að geta tileinkað mér flestallt og hef góða aðlögunarhæfni. Ég man ekki eftir að hafa unnið starf sem veitti mér ekki gleði og stolt. Mér finnst ég vera kominn í draumastarfið í dag. Að starfa hjá HP gámum er og hefur fyrst og fremst verið ótrúlega skemmtilegt. Mig langar kannski helst að prófa sem flest störf innan þess fyrirtækis, mögulega að hlaupa á eftir tunnum og keyra gámabíl.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Rekstrarumhverfið er almennt gott á Íslandi, samningar eru virtir og það heyrir til undantekninga að eiga viðskipti við óheiðarlegt fólk. Það er mikil gæfa að búa í slíku samfélagi. Það mætti þó endurskoða ýmsar álögur hins opinbera, s.s. tryggingargjald af launum.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Ég er fullur af orku og hef gríðaráhuga á öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Það sem stuðlar að því er líklegast sú staðreynd að ég hef gaman af því að ögra mér. Ekkert er skemmtilegra en að fást við ljón á veginum og ná á endanum í gegnum hindranir. Ég er duglegur að setja niður mælanleg markmið og það drífur mig áfram þegar ég næ þeim. Það eykur einnig baráttuviljann þegar hlutirnar ganga ekki eins og maður leggur upp með. Þá sest maður aftur við teikniborðið og gerir betur næst. Bestu samningarnir eru þegar báðum eða öllum aðilum finnst þeir hafa unnið, það gefur mér mikla ánægju og orku.

Hin hliðin

Nám: Matreiðslumeistari og sótti mér skipstjórnarréttindi á sínum tíma. Stundaði markaðsnám hjá Stjórnunarfélagi Íslands og hef sótt námskeið í stjórn félaga og stjórnunarháttum innan fyrirtækja við Berkeley-háskóla í Kaliforníu auk þess að hafa lagt stund á nám í iðnrekstrarfræði við Tækniskóla Íslands.

Störf: Stofnandi og aðaleigandi Íslandskosts hf. 1993 til 2000; sölustjóri útflutnings á járni, síðar markaðsstjóri, framkvæmdastjóri þróunarsviðs og aðstoðarforstjóri Íslenska gámafélagsins 2000-2020; framkvæmdastjóri HP gáma frá 2020.