Kristjana Elínborg Indriðadóttir fæddist á Blönduósi 23. september 1927. Hún lést á Landspítalanum 4. nóvember 2020. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Gísladóttir, f. 22.1. 1898, d. 2.3. 1933, og Indriði Guðmundsson, f. 5.3. 1892, d. 16.4. 1976, sem bjuggu á Gilá í Vatnsdal. Alsystkini hennar voru Þuríður, f. 8.6. 1925, d. 25.8. 1993, og Böðvar Pétur, f. 21.6. 1929, d. 10.1. 1982, en hálfsystir er Kristín, f. 14.11. 1947, dóttir Indriða og sambýliskonu hans Jakobínu Björnsdóttur, f. 20.3. 1916, d. 3.8. 1957.

Kristjana ólst upp á Gilá en flutti snemma til Reykjavíkur og stundaði nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Árið 1948 giftist hún Sveini Sumarliða Magnússyni, f. 2.12. 1921, d. 24.12. 1998, og bjuggu þau lengst af í Hátröð 7 í Kópavogi. Þar rak hún eigin saumastofu í 50 ár en vann einnig um tíma á Álafossi og víðar. Börn Kristjönu og Sveins eru fimm: Gylfi, f. 31.5. 1948, kvæntur Önnu Sigríði Þorgrímsdóttur, Guðbjörg, f. 14.10. 1949, Kristín Jakobína, f. 8.10. 1954, gift Einari Kristófer Oddgeirssyni, Jóna, f. 17.8. 1959, gift Lárusi Þorvaldssyni, og Sveinn Goði, f. 30.7. 1960. Sambýliskona hans er Silja Viem Thi Nguyen. Barnabörn Kristjönu eru 11 og langömmubörn 17.

Nú er hún elsku amma mín fallin frá. Ég var svo lánsöm að hafa ömmu í mínu lífi til fertugs. Ég var líka svo lánsöm að alast upp með ömmu mína hinum megin við götuna og heimili hennar var mér alltaf opið og ég gat alltaf hlaupið yfir til ömmu. Ég verð ævinlega þakklát fyrir hversu nærri hún alltaf var. Amma mín var nefnilega alltaf til staðar fyrir mig. Hún var alltaf tilbúin að veita mér hjálparhönd, styðja mig, leiðbeina mér, kenna mér og veita mér hlýju. Það eru svo ótal minningar sem koma upp í hugann þar sem hún skipaði stóran sess í mínu lífi. Það var amma sem leiddi mig fyrsta daginn í skólann og sýndi mér hvaða leið ég skyldi alltaf labba. Þegar ég æfði lesturinn inni á saumastofunni með henni. Þegar ég bjó hjá henni á efri hæðinni og hún gaf mér svo mikla ást. Þegar hún hvatti mig alltaf áfram í náminu. Þegar hún saumaði öll fötin á mig. Þegar hún gladdist svo að sjá börnin mín, sama hversu ærslafullir þeir voru. Allar samræðurnar um pólitík, allar fiskibollurnar, pönnukökurnar og allt skyrið.

Amma mín er mér hin mesta fyrirmynd. Það er ekki langt síðan ég var spurð hverjir í fjölskyldunni minni hefðu skarað fram úr á sínu sviði. Það fyrsta sem mér datt í hug var amma mín. Hún var svo mikil fyrirmyndarkona. Í mínum augum var amma mín aldrei hrædd, hún hafði mikla réttlætiskennd og hún tókst á við verkefni lífsins með svo miklu æðruleysi og dugnaði.

Hún fór aldrei í manngreinarálit og hún bar virðingu fyrir öllu fólki. Hún var óhrædd við að standa með sjálfri sér og sínu fólki en það var það sem skipti hana mestu máli, að öllum börnunum hennar liði vel. Amma mín kenndi mér svo margt og ég mun alltaf búa að því að hafa átt svona sterka konu sem fyrirmynd.

Amma mín lifði til níutíu og þriggja ára aldurs. Ég veit að hún var orðin þreytt en ég fann aldrei fyrir uppgjöf hjá henni og alltaf var hún jafn skýr. Ég sakna ömmu minnar ógurlega en ég veit í hjarta mér að þótt hún sé farin þá er hún ekki fjarri. Ég og við öll erum svo rík að hafa átt hana að. Blessuð sé minning ömmu.

Ævin er stutt

en lífið er langt.

Ævin er aðeins meðganga

sem fylgir samdráttur

og oft harðar fæðingarhríðir

inn til lífsins ljóma,

þeirrar dýrðar

sem koma skal

og engan endi mun taka.

Ævin er stundleg og stutt,

en lífið

tímalaus eilífð.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Helga María.

Við Mimma vorum systur. Ekki venjulegar systur á svipuðum aldri því á okkur var 20 ára aldursmunur. Hún var farin suður og gekk með fyrsta barnið sitt þegar ég fæddist. Jakobína, móðir mín, hafði hins vegar gætt hennar strax á fyrsta ári og með þeim voru slíkir kærleikar að Kristín, móðir Mimmu, átti eftir að biðja Jakobínu fyrir öll börnin sín þrjú þegar ljóst var að hún mundi ekki lifa til að annast þau. Þegar Kristín dó var Mimma fimm ára, hin systkinin þriggja og sjö, mamma sautján og ekkjumaðurinn Indriði rúmlega fertugur. Báðar ömmurnar komu þá til aðstoðar en fyrir var ömmubróðir sem áður bjó á Gilá, öll þrjú á áttræðisaldri.

Heimilislífið var fábreytt með þessu gamla fólki, allt var í föstum skorðum og hver undi við sitt en mikið var lesið. Þegar Jakobína kom tvítug alkomin sem bústýra að Gilá og tók við uppeldi barnanna, nýútskrifuð af Kvennaskólanum á Blönduósi, gladdist enginn meira en Mimma. Þá tóku systurnar til við að læra handavinnu og matargerð og urðu báðar miklir meistarar á því sviði.

Mimma var hamhleypa til verka og var oft lánuð á aðra bæi. Hún sá fljótt að karlar vildu öllu ráða og hét því snemma að hún skyldi aldrei láta neinn ráða yfir sér. Hún var rétt orðin 17 ára þegar systurnar fóru suður og voru tvö ár að vinna fyrir skólavist í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Þar útskrifuðust þær báðar með láði vorið 1947. Mimma sýndi mikinn áhuga á saumaskap og bar sérstakt lof á kennara sinn, Herdísi Guðmundsdóttur, sem hafði bæði lært og starfað í Kaupmannahöfn og rak lengi sjálfstæðan skóla í kjólasaumi á Hverfisgötu. Af henni lærði hún mikið.

Systir mín lét ekki hjónaband og barneignir aftra sér frá því að skapa sjálfri sér atvinnu þó að Svenni væri sjómaður á aflahæsta togaranum á fyrstu árum þeirra. Hún ætlaði sér aldrei að verða „bara húsmóðir“. Þegar hún gekk með annað barnið tók hún bílpróf og lærði að sníða hjá kjólameistara sem var nýkominn frá námi í Svíþjóð. Allar konur saumuðu föt á þessum árum en færri treystu sér til að sníða. Í fyrstu sneið hún barnaföt en gerði svo sauma að ævistarfi. Mimma var vinsæl saumakona, velvirk, smekkvís og afkastamikil. Ekki veit ég hvað hún fataði upp margar fjölskyldur en hún var gjafmild með afbrigðum. Frá því ég man eftir sendi hún mér dýrindisjólakjóla úr tafti og tjulli, síðar saumaði hún á mig fermingar- og brúðarkjól, danskjóla og dragtir.

Horfinn er sá klettur sem ættingjar gátu alltaf reitt sig á og fundið skjól undir. Hún vann ítrekað ein fyrir stóru heimili því að Svenni stríddi við heilsuleysi og síðast Alzheimer í rúma tvo áratugi. Saumastofuna rak hún heima til að hann gæti dvalið þar öruggur allt til enda og í ótímabærri banalegu mömmu umvafði Mimma hana ástúð og hlýju á heimili þeirra. Hún kvartaði aldrei en lét ekki vaða yfir sig. Þröngt athafnarými bernskunnar og ýmis áföll drógu ekki úr frumkvæði þessarar stoltu konu heldur gáfu henni takmarkalaust hugrekki til þess að takast á við lífið með örlæti og reisn. Ég kveð hana full þakklætis og votta aðstandendum djúpa samúð.

Kristín Indriðadóttir.