Kaupverð fyrirtækisins mun vera í kringum 300 milljónir auk yfirtöku skulda sem eru allnokkrar.
Kaupverð fyrirtækisins mun vera í kringum 300 milljónir auk yfirtöku skulda sem eru allnokkrar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Söluferli Landvéla er á lokametrunum sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu VHE. Kaupendur eru starfsmenn fyrirtækisins.

Lykilstarfsmenn Landvéla munu á næstu dögum ganga frá kaupum á fyrirtækinu en það er í eigu Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE). Sala fyrirtækisins er hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu VHE sem hefur um langt skeið verið í greiðslustöðvunarferli. Langstærsti kröfuhafi VHE er Landsbankinn og hefur hann, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans haft tögl og hagldir í ferlinu og þar á meðal söluferli Landvéla. Fyrirtækið hefur verið ein arðbærasta rekstrareiningin innan sístækkandi samsteypu VHE sem blásið hefur út á síðustu árum samhliða gríðarlegri skuldasöfnun. Þegar fyrirtækið leitaði nauðasamninga stóðu skuldir þess í 7,5 milljörðum króna og höfðu þó lækkað misserin á undan.

Eigið fé Landvéla var 392 milljónir við síðustu áramót, velta þess árið 2019 tæpir 1,3 milljarðar króna og hagnaður 7,8 milljónir króna. Dótturfélög Landvéla eru Fálkinn og Straumrás á Akureyri. Síðarnefnda félagið er bókfært á 112,9 milljónir í bókum Landvéla en Fálkinn á 358 milljónir króna.

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að mikil kergja sé í hópi kröfuhafa VHE vegna frumvarps að nauðasamningi sem Landsbankinn knúði á um að lánardrottnar VHE samþykktu. Þar á meðal er gagnrýnt að söluferlið á Landvélum hafi ekki verið gagnsætt og að samkeppnisaðilar VHE og lánardrottnar hafi ekki haft tækifæri á að bjóða í fyrirtækið. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans voru hins vegar gerð sjö tilboð í fyrirtækið. Þeir sem upphaflega hrepptu hnossið, hópur sem leiddur var af Arion banka, lækkuðu hins vegar tilboð sitt verulega í kjölfar áreiðanleikakönnunar og í kjölfar langvarandi þrefs milli Landsbankans og VHE annars vegar og hæstbjóðenda hins vegar slitnaði upp úr viðræðunum og var þá ákveðið að ganga til samninga við starfsmenn Landvéla sem voru í hópi upphaflegra bjóðenda.

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að kaupverð fyrirtækisins nemi um 300 milljónum króna.