Sólarlandaferðir hafa lengi verið vinsælar hjá Íslendingum.
Sólarlandaferðir hafa lengi verið vinsælar hjá Íslendingum.
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Ferðaskrifstofan Heimsferðir hefur fellt niður jólaferðir í sólina, en fregnir af bóluefni hafa aukið bjartsýni.

Enn bíður ferðaskrifstofan Heimsferðir átekta með að flytja farþega í sólina, en engir sóldýrkendur hafa farið með félaginu síðan í mars.

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í lok júní, þegar horfur voru betri, ætlaði félagið að hefja flug í september sl. Þegar syrti í álinn í samfélaginu í ágúst varð ljóst að þau áform færu út um þúfur. Kórónusmit færðust í aukana og félagið varð enn að fresta sínum ferðum.

„Við höfum nú fellt niður jólaferðir sem áttu að vera næst á dagskrá. Við höfum verið í góðu sambandi við viðskiptavini okkar og töldum best að bíða átekta. Staðan er að versna víða í Evrópu og hún er ekki spennandi á Spáni sem stendur, þó að staðan á Kanaríeyjum sé mun betri en á meginlandinu,“ segir Tómas J. Gestsson framkvæmdastjóri Heimsferða í samtali við ViðskiptaMoggann.

Á fullu að undirbúa vorið

Nýlega birtust góðar fréttir af þróun bóluefnis lyfjafyrirtækisins Pfeizer og segir Tómas að það sé meðal annars þess vegna sem fólk vilji nú hinkra aðeins lengur, í staðinn fyrir að stökkva af stað í næsta mánuði. „Við erum bara á fullu að undirbúa allt fyrir næsta vor og sumar. Við höfum fulla trú á að fólk taki vel við sér þegar leiðin verður orðin greiðari og teljum að ferðalöngun fólks verði áfram til staðar.“

Heimsferðir eru búnar að stilla upp ferðum á ýmsa áfangastaði á næsta ári og enn er að bætast í þá flóru að sögn Tómasar. „Við erum með Krít, Costa del Sol, Tenerife og Alicante, og svo borgir eins og Verona, Bratislava, Ljubljana og Lissabon,“ segir Tómas, en bætir við að hann vilji ekki ljóstra upp öllum áfangastöðum félagsins að svo stöddu.

Spurður um stöðuna á samstarfsaðilum félagsins á erlendri grundu segir Tómas að félagið hafi haldið góðu sambandi við umboðsmenn sína á áfangastöðunum, en auðvitað sé ekkert 100% öruggt á þeim tímum sem uppi eru um þessar mundir. Alltaf sé hætta á að einhver hótel verði gjaldþrota til dæmis, en hann segir að góð og vinsæl hótel fái alltaf nýja eigendur, ef illa fer. „Þetta hefur auðvitað tekið á ferðaþjónustuna alls staðar í heiminum, og auðvitað geta orðið eigendaskipti á einhverjum hótelum. Vinsæl hótel leggja ekki upp laupana.“

Tómas segir að Heimsferðir hafi haft marga sömu umboðsmennina í 28 ár, og þeir séu með puttann á púlsinum með allt sem er í gangi á vinsælustu stöðunum á Spáni, Ítalíu og Grikklandi m.a.

Þúsund manns hafa bókað

Spurður um bókunarstöðu Heimsferða fyrir næsta ár segir Tómas að yfir þúsund manns hafi þegar bókað ferðir, þrátt fyrir þá óvissu sem sé fyrir hendi. Þar af sé þó nokkuð mikið um bókanir hjá hópum. „Við verðum komin í miklu hærri tölu þegar hlutirnir fara að skýrast á ný. Fyrirspurnir hafa aukist talsvert eftir að fregnir af bóluefninu birtust, og ég á von á að fólk fari að taka vel við sér eftir áramót hvað bókanir varðar.“

Heimsferðir eru nú í eigu Arion banka, en voru áður í TravelCo Nordic, sem varð gjaldþrota í október sl. „Við erum í þokkalegum málum þrátt fyrir allt. Við höfum náð að minnka rekstrarkostnað okkar eins og aðrir, en erum tilbúin að fara af stað af krafti þegar rétti tíminn kemur og eftirspurnin tekur við sér. Þangað til er starfsfólkið í 50% starfi.“

Neos flýgur með farþegana

Aðspurður segir Tómas að flugfélagið Neos muni sjá að stórum hluta um að fljúga fyrir Heimsferðir á næsta ári, þó svo að ferðaskrifstofan notist einnig við þjónustu Easy Jet, Icelandair og fleiri flugfélaga.

Tómas segir að lokum að það sé betra að bíða aðeins með að hefja flug til útlanda, því of kostnaðarsamt sé að byrja ef hætta þarf við skömmu síðar. „Það fylgir því alls konar kostnaður að hætta við eftir að maður er byrjaður. Til dæmis varðandi það að koma viðskiptavinum heim og fleira.“

Áhugi á flugi til Tenerife

Icelandair auglýsti sl. föstudag tilboðsverð á flugi til Tenerife næsta sumar. Jafnframt auglýsti flugfélagið ferðir til Madríd, Berlínar og Mílanó og boðaði fleiri áfangastaði. Ásdís Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir félagið hafa fengið góð viðbrögð við tilboðinu til Tenerife, sem sé nýr áfangastaður í leiðakerfi flugfélagsins.

„Við finnum fyrir áhuga og ánægju með þessa viðbót og viðbrögðin hafa verið fín miðað við þetta árferði. Við vitum að um leið og ástandið batnar í heiminum, og ferðatakmörkunum verður aflétt, munu þessar ferðir bókast hratt,“ segir Ásdís. „Það er þó enn óvissa fram undan og mikilvægt að breytt fyrirkomulag á landamærum hér á landi skýrist sem fyrst svo við getum hafið sölu af krafti, bæði til Íslands og frá,“ segir Ásdís. Þótt of snemmt sé að segja til um dreifingu bóluefna gegn kórónuveirunni sé ljóst að þau muni auka spurn eftir flugi.