Bjarni og Þröstur við vínkælana.
Bjarni og Þröstur við vínkælana. — Morgunblaðið/Eggert
Raftækjaverslun Á netverslunardeginum Singles Day, 11. nóvember, seldust meira en fimmtíu vínkælar í nýrri netverslun Bakó Ísberg.

Raftækjaverslun

Á netverslunardeginum Singles Day, 11. nóvember, seldust meira en fimmtíu vínkælar í nýrri netverslun Bakó Ísberg. Fyrirtækið, sem þekkt er fyrir að selja stóreldhúsum og bakaríum tæki og tól, horfir nú í meira mæli á einstaklingsmarkaðinn, eftir að dró úr sölu á fyrirtækjamarkaði vegna veirunnar. „Það var ágætisverkefnastaða hjá okkur fram eftir öllu ári, en eftir að önnur bylgja faraldursins hófst í ágúst þá slokknaði á þessu,“ segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri og eigandi.

Eitt af því sem fyrirtækið gerði til að bregðast við ástandinu var að opna fyrrnefnda vefverslun. „Við fjárfestum bara fullt af peningum í þessu og erum núna komnir með hörkufína netverslun,“ segir Bjarni. Undir það tekur Þröstur Heiðar Líndal meðeigandi.

Þeir segja að brjálað hafi verið að gera í vefversluninni á Singles Day og vínkælar og japanskir hnífar hafi rokið út. „Fram að því höfðu aðallega selst minni hlutir í vefversluninni, en þarna flugu út vínkælar af öllum stærðum og gerðum.“

Langt umfram markmið

Bjarni segir að fyrirtækið hafi samið við franska vínkælafyrirtækið La Sommelière í byrjun ársins, og markmiðið hafi verið að selja 100 kæla. „Núna förum við yfir 200 skápa á árinu.“

Um er að ræða skápa í mörgum stærðum, allt frá því að rúma eina vínflösku og upp úr. „Mest fór af skápum fyrir 56 flöskur sem bjóða upp á tvö hitastig.“

Spurðir af hverju vínkælar séu jafn vinsælir í kófinu og raun ber vitni, segja þeir Bjarni og Þröstur að líklega séu Íslendingar búnir að átta sig á að það borgi sig ekki að drekka vont rauðvín. „Svo held ég að fólk sé meira að gera vel við sig heima við, eða uppi í sumarbústað.“

Ný sería af kokkaþáttum

Eitt af því sem Bakó Ísberg gerði í vor til að styðja við veitingageirann var að senda út kokkaþætti á netinu. Nú er von á nýrri 10 þátta seríu. „Þetta er eitthvað sem við römbuðum á, og skilaði miklu áhorfi.“

Spurðir hvort þættirnir verði með svipuðu sniði og síðast segja þeir að meiri fjölbreytni verði í kokkavalinu. „Við vorum skammaðir fyrir að vera ekki með konu síðast, og bætum úr því núna. Svo ætlum við að vera með bakstur og vínsmökkun líka.“

Þættirnir verða 15 mínútur og sent verður út daglega. „Hugmyndin er að hver kokkur eldi einfaldan rétt sem allir geta gert.“

Fram undan hjá Bakó Ísberg er Black Friday í lok nóvember og svo jólavertíðin.

Næsta ár verður erfitt hjá fyrirtækjum eins og Bakó Ísberg að mati Bjarna, en vöxturinn ætti að hefjast af krafti ef allt fer vel árið 2022. „Ég held að það verði mikið fjárfest á því ári. Bæði eru mörg hótel á teikniborðinu, og margir sem munu þurfa að uppfæra sinn búnað.“