Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Fjörlegar umræður spunnust um ráðningar ráðuneytisstjóra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um málaferli hennar í framhaldi af úrskurði kærunefndar jafnréttismála um ráðningu hennar á ráðuneytisstjóra. Ekki þó síður þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í sömu mál og sneiðar Lilju til hennar í útvarpsþættinum Sprengisandi um liðna helgi snerust um, ráðningu ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins án auglýsingar.

Margir telja orð Lilju til marks um ófrið á stjórnarheimilinu, en forsætisráðherra kvaðst ekki hafa kynnt sér málið til hlítar.

Kjarkaðir stjórnmálamenn

Lilja kvaðst þar hafa allan rétt til þess að höfða mál, líkt og lög kveði á um, en sumir stjórnarandstæðingar bera henni á brýn að gera ekki nægan greinarmun á sjálfri sér og ráðherraembættinu.

Hún vísaði því á bug: „Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum? Er það að beita hörku að fara fram á ógildingu í máli sem maður er ekki sammála? Ég spyr bara: Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei,“ svaraði Lilja.

Vísar pillunni á bug

Þórhildur Sunna spurði Katrínu út í orð Lilju í útvarpsþættinum um að hún hefði ráðið Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi þingmann Alþýðubandalagsins, sem ráðuneytisstjóra án auglýsingar, og hvað henni þætti um þá „pillu“.

Forsætisráðherra vísaði því sömuleiðis á bug og sagði að ekki væri um hefðbundna ráðningu að ræða, heldur flutning milli embætta í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sagði þá heimild helgaða af stjórnarskrá og „sú skipun er algerlega hafin yfir vafa“.

Lögspekingar ekki á eitt sáttir

Lögspekingar, sem Morgunblaðið ræddi við, voru þó ekki á einu máli um það. Var bent á að sérlög um Stjórnarráðið gengju hinum framar, en þar eru ákvæði um flutning embættismanna innan Stjórnarráðs Íslands, sem hin almennu lög upphefji ekki. Aðrir töldu hins vegar að síðari ákvæði í lögunum um starfsmenn ríkisins gengju framar, en þó ylti það á túlkun sérlaganna.

Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sýnist að heimildin sé fyrir hendi, en meginreglan ætti auðvitað vera sú að auglýsa öll opinber störf, líkt og umboðsmaður Alþingis hefði brýnt fyrir fólki. Hættan sé sú, að þær undantekningar frá auglýsingaskyldu sem heimilar eru, verði reglan í framkvæmdinni. Hún telur það þarfnast frekari skoðunar. „Umboðsmaður hefur bent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á að þetta þurfi að athuga og að löggjafinn þurfi að gera upp hug sinn um hver hin almenna regla eigi að vera. Þetta hefur komið til tals á fundum nefndarinnar með umboðsmanni og er álitaefni, sem ég gæti borið undir félaga mína.“