Skipun Ása og Björg eiga að taka við 21. nóvember næstkomandi.
Skipun Ása og Björg eiga að taka við 21. nóvember næstkomandi.
Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands frá og með næsta mánudegi.

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands frá og með næsta mánudegi. Taka þær sæti við dómstólinn eftir að Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson sóttu um lausn frá embætti í sumar.

Með skipun Ásu og Bjargar verða þrjár konur skipaðar við réttinn, en í byrjun þessa árs var Ingveldur Einarsdóttir skipuð dómari. Þar með verða þrjár konur og fjórir karlar dómarar við réttinn og hefur það hlutfall aldrei verið jafnara.

Ása lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og framhaldsnámi í lögfræði frá Cambridge-háskóla árið 2000. Hún starfaði að námi loknu sem lögmaður um árabil og hefur flutt fjölda mála fyrir dómstólum. Frá árinu 2008 hefur Ása lengst af gegnt fullu starfi við lagadeild Háskóla Íslands, þar af sem dósent frá árinu 2012 og prófessor frá 2018. Ása var settur dómari við Landsrétt 25. febrúar til 30. júní 2020. Að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, svo sem formennsku í gjafsóknarnefnd og óbyggðanefnd.

Björg Thorarensen lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún starfaði í dómsmálaráðuneytinu um árabil að námi loknu, þar af sem skrifstofustjóri um sex ára skeið. Frá árinu 2002 hefur Björg verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og samhliða því sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttinda, en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Björg var settur dómari við Landsrétt 1. janúar til 30. júní 2020.