Á Boðnarmiði yrkir Hólmfríður Bjartmarsdóttir á degi íslenskrar tungu: „Hví skyldi ég ekki reyna að byrla Braga full“ til bjargar minni covid-hrelldu sál. Hefðin er svo ágæt og íslenskan er gull því ætla ég, í gulli, að segja; skál!

Á Boðnarmiði yrkir Hólmfríður Bjartmarsdóttir á degi íslenskrar tungu:

„Hví skyldi ég ekki reyna að byrla Braga full“

til bjargar minni covid-hrelldu sál.

Hefðin er svo ágæt og íslenskan er gull

því ætla ég, í gulli, að segja; skál!

Skál fyrir degi íslenskrar tungu!

Gunnar J. Straumland á sömu nótum:

Þjóðinni ól dagsins önn

íslenskan, víðfeðm og sönn,

svo ef þú vilt sletta

og ambögur flétta

þá vefjist þér tunga um tönn.

Dagbjartur Dagbjartsson hélt áfram:

Á munn þér ratast saga sönn

ég segi bara þetta.

Stöðugt vefst mér tunga um tönn

og tekst því ekki að sletta.

Og síðan Bjarni Gunnlaugur Bjarnason:

Íslensk tunga er eflaust góð

ei skal hana bletta

áfram mun samt þessi þjóð

þurfa dönsku að sletta!

Guðmundur Beck yrkir „Andvaka“ og er dýrt kveðið:

Ótt á nóttu, óttinn drótt að sótti,

undan blundi lund mín stundum skundar.

Hrellir ellin hallan rellinn skalla,

húms frá búi nú má lúinn snúa.

Brag að laga bagann trega sagar,

þá brandar vandinn andans standi grandar.

Glæður fræða væðum gæða kvæðum,

góðu ljóðin bjóðum rjóðum fljóðum.

Sigrún Grímsdóttir yrkir og veit sínu viti:

Ég veit það er nauðsyn „að ætla sér af“

með aldrinum verð ég þó fegin

að nota þá orku sem Guð minn mér gaf

ég get alltaf hvílst hinum megin.

Hér er fróm ósk Mannsins með hattinn:

Viltu Drottinn gera greiða

gömlum lúnum vísnastrák?

Að hann megi áfram skeiða

um allt á sínum skáldafák.

Símon Dalaskáld orti „Alvarlegar vísur“:

Ekki vil ég eiga núna' af æðra tagi,

heldur bónda dóttur dýra,

dygðum búna, fagra, skýra.

Betri' eru margar búnar ullar bættum voðum,

en sveipaðar í silkiklæðum

sæturnar með hrókaræðum.

Jón Árnason Víðimýri orti:

Fyrir allt mitt ferðalag

fæ ég litla borgun.

Nú má ekki drekka í dag

ef duga skal á morgun.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is