Múlinn Þar sem áður var verslun verða skrifstofur og miðstöð nýsköpunar.
Múlinn Þar sem áður var verslun verða skrifstofur og miðstöð nýsköpunar.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Hafrannsóknastofnun opnar í byrjun nýs árs nýja starfsstöð í Neskaupstað. Auglýst hefur verið eftir tveimur starfsmönnum þar í störf sérfræðings og rannsóknamanns á uppsjávarsviði.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Hafrannsóknastofnun opnar í byrjun nýs árs nýja starfsstöð í Neskaupstað. Auglýst hefur verið eftir tveimur starfsmönnum þar í störf sérfræðings og rannsóknamanns á uppsjávarsviði. Í fyrstu verða verkefnin aðallega tengd sjávarafla en svo er reiknað með að verkefni á sviði fiskeldis bætist við, samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Guðjónssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar.

Starfsstöðin verður til húsa í húsi sem kallað er Múlinn og þar verða fleiri þekkingaraðilar eins og Matís og Náttúrustofa Austurlands. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við húsið, sem stendur við Bakkaveg 5 í Neskaupstað þar sem verslunin Nesbakki var áður til húsa. Húsinu hefur verið breytt og byggt við það til að hýsa skrifstofuklasa og miðstöð nýsköpunar í Neskaupstað.

Mikill áhugi reyndist fyrir því að fá aðstöðu í húsinu, en gert er ráð fyrir að Múlinn verði allt að 30 manna skapandi vinnustaður. Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, SÚN, stofnaði félag um framkvæmdina en undirbúningur verkefnisins hefur tekið nokkur ár.

Ellefta starfsstöðin

Starfsstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru nú tíu talsins að höfuðstöðvunum í Fornubúðum 5 í Hafnarfirði meðtöldum. Stöðin í Neskaupstað verður ellefta starfsstöð Hafró og sú fyrsta á Austurlandi. Útibúin eru á Akureyri, Grindavík, Hvammstanga, Hvanneyri, Ísafirði, Ólafsvík, Selfossi, Skagaströnd, í samstarfi við BioPol, og í Vestmannaeyjum.

Nú starfa rúmlega 170 starfsmenn á stofnuninni, til sjós og lands, nokkrir þeirra í hlutastarfi. Á skipunum eru tæplega 40. Um 25 stöður eru á landsbyggðinni.