Samvinna einkafyrirtækja og hins opinbera kann að vísa greiðustu leiðina út í geim

Það markaði tímamót í fyrrinótt þegar geimfar SpaceX-fyrirtækisins, Resilience, tengdist Alþjóðlegu geimstöðinni. Um borð voru þrír bandarískir geimfarar og einn frá Japan og er þetta í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki sendir fólk út í geiminn í geimfari, sem hlotið hefur vottun frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA.

Fyrir Bandaríkjamenn var geimskotið að einhverju leyti spurning um þjóðarstolt líka, þar sem þessi mikla geimferðaþjóð hefur ekki haft neina leið í nærri því áratug til þess að senda fólk á eigin vegum til geimstöðvarinnar, heldur hefur hún þurft að treysta á samstarf við Rússa. Þó að það samstarf hafi gengið mun betur en sum önnur samskipti ríkjanna tveggja á undanförnum árum hafa gefið vísbendingu um, var það engu að síður vandræðaleg staða fyrir bandarísk stjórnvöld.

Þau hafa enda sett sér háleit markmið um könnun sólkerfisins á næstu árum og áratugum og einn liður í því er að virkja einkaframtakið betur til þess að þróa og hanna þau geimför sem notuð verði til þess. Þar hafa att kappi Boeing og SpaceX, og hefur síðarnefnda fyrirtækið nú tekið forystuna í þeirri samkeppni. Boeing mun þó skammt undan, en stefnt er að því að geimfar þess, Starliner, verði prófað á fyrstu mánuðum næsta árs. Öllu lengra er þó í að Boeing geti sent mannað geimfar á loft.

Samkeppni einkafyrirtækjanna hvatti þau raunar bæði til þess að ná framförum fyrr en ella, og árangurinn í vikunni bendir til þess að framtíð geimkönnunar kunni hæglega að liggja í gegnum samstarf einkaframtaksins og hins opinbera. Með því samstarfi eru kostir beggja beislaðir til að uppfylla þá þörf mannsins, sem aldrei verður að fullu uppfyllt, að kanna umhverfi sitt, fjær ekki síður en nær.