Það er ekki oft sem Húbba Búbba er nefnt í bragðlýsingu á viskíi.
Það er ekki oft sem Húbba Búbba er nefnt í bragðlýsingu á viskíi.
Mig rak í rogastans þegar ég renndi augunum yfir hillurnar í einni af betri vínbúðum Mexíkóborgar. „Bíddu nú hægur – það skyldi þó ekki vera,“ sagði ég við afgreiðslumanninn. „Er þetta mexíkóskt vískí?

Mig rak í rogastans þegar ég renndi augunum yfir hillurnar í einni af betri vínbúðum Mexíkóborgar. „Bíddu nú hægur – það skyldi þó ekki vera,“ sagði ég við afgreiðslumanninn. „Er þetta mexíkóskt vískí?“

Innan um óteljandi gerðir af tekíla og meskal sat þessi afskaplega myndarlega flaska merkt Astro Native Mexican Whiskey .

Þegar afgreiðslumaðurinn bætti því við að mexíkósk maískorn hefðu verið notuð við bruggunina gat ég ekki annað en splæst á eina flösku.

Það er gaman að sjá hvernig framtakssamt fólk um allan heim er að fikra sig áfram í viskígerð og bæta þannig stöðugt við flóruna, hvert með sínum sérkennum. Hér hefur áður verið fjallað um japanska viskíið frá Suntory, sem þykir með því besta sem finna má, og indverska Amrut-viskíið sem er algjört konfekt. Með Astro eignast Mexíkó nokkuð sterkan fulltrúa á þessum vettvangi.

Litlar upplýsingar er að finna um Astro á vefnum eða á sjálfri flöskunni, en drykkurinn kemur frá Michoacán-héraði sem er þekkt fyrir einstaka matarmenningu og fjölbreytta mezcal-framleiðslu. Var þess gætt að viskíið yrði í hæsta gæðaflokki og vildu aðstandendur verkefnisins freista þess að nýta þann lífræna hágæðamaís sem er ræktaður á svæðinu. Nota þeir 80% maís á móti 20% af malti.

Þrjár útgáfur voru framleiddar í fyrsta upplagi: Blanco , Gold og Reserva Especial , en það er Gold sem hér er til umfjöllunar. Eins og við er að búast er viskíið ungt og var látið hvíla í tekíla tunnum í a.m.k. tvö ár. Þrátt fyrir það er drykkurinn mildur og margslunginn og frábrugðinn öllu öðru viskíi sem undirritaður hefur smakkað.

Er helst að Astro Gold minni á kornviskíið Chita frá Suntory, en samt er margt sem skilur að. Óvenjulegust er anganin þar sem greina má keim af Húbba-Búbbatyggjói, vanillu, karamellu og ögn af sykurpúða og varasalva. Bragðið er létt með meðalkröftugan eikartón sem umbreytist í ramma karamellu. Minni háttar beiskja einkennir þennan ljósgullna drykk og örlar á mintu, súkkulaði og málmi, en engan reyk að finna. Eftirbragðið er þægilegt og hæfilega langt.

Ég spái því að Astro höfði ekki til íhaldssama viskídrykkjufólksins sem vill helst finna bragð af skosku torfi í hverjum sopa en drykkurinn er svo sannarlega forvitnilegur og sker sig úr fjöldanum. Skemmir ekki fyrir hvað flaskan er fallega hönnuð með tappann hjúpaðan í svart vax.

Þrátt fyrir mikla leit hefur ekki tekist að finna evrópska netverslun sem selur Astro enda upplagið ekki stórt. Þeir sem vilja endilega prufa þurfa því annaðhvort að skjótast til Mexíkó eða finna „Mexican Craft Spirits“ á Facebook, senda þeim línu og sjá hverju má koma í kring. ai@mbl.is