Guðný Ósk Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 20. apríl 1939. Hún lést á Landspítalanum á Hringbraut þann 27. október 2020.

Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Valdimarsdóttur húsmóður og Einars Guðjónssonar bókbindara.

Guðný var yngst þriggja systkina en bræður hennar Ingvi Rúnar og Valdimar Friðrik lifa systur sína.

Þann 20. júní 1964 giftist Guðný Ragnari Magnússyni, fæddum 12. september 1939, en hann lést í júní 1987.

Börn Guðnýjar eru Guðrún Andrea, f. 1956, gift Enok, Erlingur, f. 1960, d. 2006 og Brynjar, f. 1966, kvæntur Joanna.

Barnabörnin eru sjö: Jóhann Kári, Sveinbjörn og Andri Már Enokssynir. Ellý Ósk og Guðmundur Ómar Erlingsbörn. Ragnar og Ezra Brynjarssynir og langömmubörnin orðin 10 og langalangömmubörnin orðin tvö.

Hún gegndi fjölbreyttum störfum um ævina, vann í Norðurstjörnunni, eldhúsi Alþingis, dómritari í sakadómi o.m.fl.

Útförin fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, þann 18. nóvember, kl. 13 að viðstöddum nánustu ættingjum í ljósi aðstæðna.

Stytt slóð á streymi:

https://tinyurl.com/y3h99lja

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku Dúna.

Nú hefur þú kvatt okkur. Óvænt held ég að okkur finnist öllum. Þó að aldurinn hafi verið orðinn frekar hár varstu svo virk og lifðir lífinu. Auðvitað hafði þetta skrítna ár áhrif á það hvað hægt var að fara og gera. En fyrir þann tíma varstu svo dugleg að skreppa og spila með eldri borgurum um allt. Fara í bókasafnið og sækja mikið af bókum því það hefur alltaf fylgt þér alla tíð að vera mikið fyrir að lesa.

Ég man það þegar ég kom inn á heimili þitt 15 ára gömul, nýbúin að kynnast syni þínum sem seinna varð sambýlismaður minn og barnsfaðir, hvað ég var glöð að sjá hvað þú áttir mikið af bókum! Þarna var aldeilis hægt að velja sér bækur til að lesa því það áttum við sameiginlegt að vera óttalegir bókaormar. Og svo var dansinn annað mikið áhugamál hjá báðum, þú virkilega varðst ánægð þegar ég dró son þinn með mér í samkvæmisdansa. Dansáhugi var eitthvað sem við deildum líka.

En þó leiðir okkar sonar þíns hafi skilið þá höfum við alltaf haldið miklum og góðum tengslum, í raun var ég alltaf ein af fjölskyldunni í þínum huga. Hefur mér alltaf þótt vænt um hve traustur og góður vinskapur hefur alltaf verið á milli okkar. Stuðningur þinn hér áður fyrr þegar ég var í öldungadeildinni í Flensborg, þá komst þú tvisvar í viku og varst með börnin mín, eldaðir góðan mat og tókst til hendinni á heimilinu á meðan ég gat verið áhyggjulaus í skólanum. Svo ómetanlegt fyrir unga einstæða móðir sem reyndi að mennta sig.

Ég er þakklát fyrir okkar kynni og á tvö af ömmubörnum þínum sem þurfa ekki annað en að brosa til að minna á þig. Því að það var svo einkennandi fyrir þig, brosið þitt sem þú varst ekki spör á. Einstaklega jákvæð, glaðlynd og umburðarlynd kona sem fékk að kynnast mörgu í gegnum lífið en hélt þó alltaf brosinu og glaðværðinni.

Elsku Dúna, takk fyrir samfylgdina. Nú hafa þau tekið þér fagnandi í sumarlandinu, Raggi og börnin þín tvö.

Guðrún María.