Snjöll Anya Taylor-Joy í Drottningarbragði.
Snjöll Anya Taylor-Joy í Drottningarbragði.
Sjónvarpsþættirnir Queen's Gambit eða Drottningarbragð lofa góðu. Þættirnir fjalla um konu, sem í æsku sýnir mikla skákhæfileika.

Sjónvarpsþættirnir Queen's Gambit eða Drottningarbragð lofa góðu. Þættirnir fjalla um konu, sem í æsku sýnir mikla skákhæfileika. Hún fær áhuga á skák þegar hún sér húsvörð á heimavistarskóla, sem hún er send á eftir að hún missir móður sína, tefla við sjálfan sig.

Skákin heltekur hana smám saman. Á nóttunni liggur hún uppi í rúmi og skuggarnir í loftinu breytast í taflborð þar sem leyndardómar skákarinnar opinberast henni.

Við þessi atriði rifjaðist upp að í bókinni Manntafli eftir Stefan Zweig gerist nokkuð svipað. Söguhetjan er í fangelsi og hnuplar þegar hún er leidd til yfirheyrslu bók úr vasa fangavarðar síns. Tilhlökkunin er mikil, en þegar hann kemst að því að hann hefur náð sér í skákbók hendir hann henni út í horn. Þar sem hann hefur ekki annað til að stytta sér stundir fer hann að fara yfir skákirnar í bókinni. Brátt verður hann heltekinn af skákinni og viti menn, skuggarnir í loftinu breytast í taflborð og skákmenn.

Queen's Gambit sýnir að það er hægt að láta dramatíska atburðarás hverfast í kringum skák og þegar áhuginn er vakinn er ekki vitlaust að draga Manntafl fram og rifja upp þá ágætu skáldsögu.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal