Verslun Vegna mikils slagkrafts kórónuveirunnar er óttast að takmarka verði umsvif almennings. Jólaverslun gæti verið í uppnámi. Ræðst það á næstu tveimur vikum, en hér virðist verslun í London tilbúin að taka við viðskiptavinum.
Verslun Vegna mikils slagkrafts kórónuveirunnar er óttast að takmarka verði umsvif almennings. Jólaverslun gæti verið í uppnámi. Ræðst það á næstu tveimur vikum, en hér virðist verslun í London tilbúin að taka við viðskiptavinum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Toppnum hefur verið náð í annarri bylgju kórónuveirusýkinga í Frakklandi, að sögn heilbrigðisstofnunar landsins, Sante Publique. Hún varar þó við og segir að ekki skuli slakað í bráð á verndaraðgerðum í stríðinu við veiruna.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Toppnum hefur verið náð í annarri bylgju kórónuveirusýkinga í Frakklandi, að sögn heilbrigðisstofnunar landsins, Sante Publique. Hún varar þó við og segir að ekki skuli slakað í bráð á verndaraðgerðum í stríðinu við veiruna.

Með útgöngubanni á almenning og umfangsmikilli lokun fyrirtækja hafa nýsmit dregist saman um 40% undanfarna viku, innlagnir á sjúkrahús skruppu saman um 13% og nýjum sjúklingum á bráðadeildum fækkaði um 9%, að sögn Sante Publique.

Tölfræðin var vatn á myllu verslunareigenda sem sótt hafa hart að fá að hafa búðir sínar opnar fram til jóla þegar umsvifin margfaldast. Velta menn vöngum á stjórnarheimilinu yfir hvað gera skuli við svarta föstudaginn svonefnda sem hefur verið versluninni góð búbót.

„Þótt mælingarnar séu enn háar gefa þær samt til kynna að toppurinn á bylgju tvö sé að baki,“ sagði heilbrigðisstofnunin. Þá er jafnvægi komið á í dauðsföllum eftir mikla fjölgun í nokkrar vikur. Í þessari viku var fjöldi þeirra 3.756 en 3.817 vikuna áður.

Bein áhrif

Franskar borgir sem fyrstar takmörkuðu útivist fólks sjá þessa dagana árangur þess í snörpum samdrætti nýsýkinga, að sögn Sante Publique sem bætir við að alla jafna taki samdrátturinn kipp eftir um 10 daga innilokun. Hinn 17. október lýsti ríkisstjórnin yfir útgöngubanni í París og nokkrum stærstu borgum landsins – og aðrar borgir og bæir sigldu í viku seinna. Hefur útgöngubann því verið í landinu öllu – og umtalsverður fjöldi fyrirtækja lokaður – frá 30. október. Bannið hefur ekki verið eins strangt og sl. vor því ólíkt og þá eru skólar nú starfandi og auk þess verslanir með brýnar nauðsynjar.

Heilbrigðisráðherrann Olivier Veran sagði í fyrradag að sem stæði væri ekki á dagskrá að létta á varnaraðgerðunum gegn kórónuveirunni. Í gær sagði svo samgönguráðherrann Jean-Baptiste Djebbari að alltof snemmt væri að segja til um hvort fólk gæti ferðast milli landshluta um hátíðarnar því fækkun sýkinga væri á viðkvæmu stigi.

Frönsku ríkisjárnbrautirnar hafa fækkað ferðum um 70% en áforma að framboð lestarferða verði komið í eðlilegt horf frá og með 15. desember.

Metdagur í verslun

Fjármálaráðuneytið í París boðaði til fundar í gær með fulltrúum verslunarinnar um föstudaginn svarta, sem fellur á 27. nóvember, eftir viku. Þessi bandaríska verslunarhátíð hefur unnið á um heim allan og segir til að mynda lúxusverslunarhúsið Galeries Lafayette að enginn annar viðskiptadagur gefi eins mikið af sér og þessi. Til stóð að ræða þann möguleika á fundinum að fresta svarta föstudeginum um viku. Embættismenn sögðust óttast að áhlaup almennings á verslunarhúsin í næstu viku gæti skaðað árangurinn af fækkun nýsmita upp á síðkastið.

Franska verslunin segir að fáist verslanir ekki opnaðar 27. nóvember muni netverslunarrisum eins og Amazon fært í hendur ósanngjarnt viðskiptalegt forskot. Forstjóri Amazon í Frakklandi, Frederic Duval, hefur lýst fyrirtæki sitt fylgjandi því að færa svartkaupadaginn aftur til 4. desember.

Spánverjar sögðust í gær stefna að því að hafa bólusett „mjög stóran hlut“ þegna sinn á miðju næsta ári, 2021, en þeir telja 47 milljónir. Pedro Sanchez forsætisráðherra sagði í gær að ríkisstjórnin hefði samið yfirgripsmikla áætlun um bólusetningu þjóðarinnar. Eru Spánverjar ásamt Þjóðverjum fyrsta aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) til að kortleggja allsherjarbólusetningu vegna Covid-veirunnar.

Bandaríski lyfjarisinn Pfizer og þýskt samstarfsfyrirtæki hans BioNTech sóttu í gær um neyðarheimild til að hefja bólusetningu með bóluefni þeirra. Skírskotaði fyrirtækið til aukinna sýkinga sem leitt hefðu til lokunar skóla í New York og útgöngubanns að næturþeli í Kaliforníu.

Heimsbyggðin mænir nú til vísindamanna eftir hjálp gegn kórónuveirufaraldrinum og annarri sýkingabylgju sem undanfarna daga hefur leitt til afturhvarfs til takmarkana á útiveru fólks og lokunar í athafnalífi. „Hlutverk okkar er að leggja til öruggt og skilvirkt bóluefni og vinna okkar í því efni hefur aldrei verið jafn aðkallandi,“ sagði Albert Bourla, forstjóri Pfizer. „Umsóknin um notkunarheimild í Bandaríkjunum er merkur áfangi á þeirri vegferð okkar að leggja heimsbyggðinni allri til bóluefni gegn Covid-19-veirunni.“ Yfirmaður vísindateymisins sem þróað hefur bóluefnið væntir þess að leyfi matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (USFDA) fáist í jólamánuðinum.

Bóluefni BioNTech/Pfizer og annað í þróun hjá bandaríska fyrirtækinu Moderna virðast hafa tekið forystu í kapphlaupi lyfjarisa að þróa lyf gegn kórónuveirunni. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, sagði í gær að ESB gæti samþykkt bæði tvö til bólusetningar fyrir árslok.

Kórónuveirufaraldurinn hefur alls kostað 1,4 milljónir manna lífið og 57 milljónir sýkst. Raunveruleikinn kann að vera annar og meiri vegna mismunandi skráninga, og einnig sakir þess að mörg tilfelli sleppa framhjá eftirliti. Ríkisstjórnir um heim allan reiða sig nú á bóluefnin sem hillir undir. Þess er vænst að á nýju ári geti notkun þeirra afstýrt lokun fyrirtækja og almennum hægagangi samfélagsins.

Breska stjórnin ákvað í dag að framlengja aðgerðir gegn kórónuveirunni á Norður-Írlandi um tvær vikur. Áfram verða verslanir, krár og veitingahús lokuð til 11. desember en kaffihús, hárgreiðslustofur og snyrtistofur fá að hafa opið í viku en verða síðan að skella í lás 27. nóvember. Auk þessa verður samgangur fólks áfram háður takmörkunum og allir sem stundað geti fjarvinnu að heiman notfæri sér það.

Í Bandaríkjunum hafa ekki fleiri smitast eða látist en í fyrradag. Dóu 2.239 manns og rúmlega 200.000 sýktust. Verst var ástandið í Kaliforníu. Hafa bandarísk heilbrigðisyfirvöld hvatt landsmenn til að sleppa ferðalögum í kringum þakkargjörðarhátíðina.