Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Í stiga honum stend ég á. Stykki á rokk nú finna má. Bera dót í búð ég sá. Baðstofuloftið nefni þá. Hér kemur svar Þorgerðar Hafstað: Á palli efst í stiga stendur. Styður pallur rokksins hjól.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Í stiga honum stend ég á.

Stykki á rokk nú finna má.

Bera dót í búð ég sá.

Baðstofuloftið nefni þá.

Hér kemur svar Þorgerðar Hafstað:

Á palli efst í stiga stendur.

Styður pallur rokksins hjól.

Pallbíl stýrir Palli kenndur.

Á palli höldum dýrleg jól.

Helgi Þorláksson á þessa lausn:

Á stigapalli pústar frú,

pall á rokki þeytti sú,

búðardóti á bílpall hlóð,

á baðstofupalli fæddist fljóð.

Guðrún B. svarar:

Ég stend með te á stigapalli.

Sterkan pall á rokki veit.

Á palli í búð stóð Bratz hjá fjalli.

Á baðstofupalli krakka leit.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:

Pallur stiga er víst á

og á rokknum má víst sjá.

Pallur dót í búðum ber.

Baðstofan og pallur er.

Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Í stiga á palli stendur oft.

Stykki rokks er pallur.

Búðarpalla ber við loft.

Baðstofupallur allur.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Í stiga palli stend ég á.

Stykki á rokk er pallur sá.

Pallur búðarhilla hér.

Í húsi baðstofupallur er.

Þá er limra:

Þrenning, sem þjóðin hlýðir,

þekking og viska prýðir,

þrjú á palli

þau eru á spjalli,

Þórólfur, Alma og Víðir.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Þrösturinn hímir nú hljóður,

hlýju sér reynir að finna,

sölnaður sumarsins gróður,

en seint ætlar gátum að linna:

Mökkur úr reykháfi rýkur.

Sá rosaleg andþrengsli hefur.

Snjór, sem um foldina fýkur.

Fýr þennan sviti umvefur.

Gömul vísa í lokin:

Dustar lýs af darrastaf

dúka jörðin jörðin.

Hann má prísa héðanaf

Hornafjörðinn fjörðinn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@siment.is