Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að verkfall flugvirkja hjá ríkinu væri í alvarlegri skoðun, og að það stefndi í grafalvarlegt ástand ef ekki yrði samið á næstu dögum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að verkfall flugvirkja hjá ríkinu væri í alvarlegri skoðun, og að það stefndi í grafalvarlegt ástand ef ekki yrði samið á næstu dögum. Sagðist Áslaug binda miklar vonir við að það yrði samið, en flugvirkjum stæðu til boða sömu launahækkanir og aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið.

„Ég tek alveg undir þau sjónarmið Landhelgisgæslunnar að það gangi ekki að samningur flugvirkja sé beintengdur samningi flugvirkja Icelandair. Þetta er gjörólíkur rekstur við allt aðrar aðstæður,“ sagði Áslaug Arna.

Aðspurð hvort það kæmi til greina að setja lög á verkfallið til þess að koma í veg fyrir að engin þyrla Landhelgisgæslunnar yrði til taks sagði hún að verið væri að skoða þessa stöðu alvarlega. „Það er alveg rétt að þyrlurnar þurfa að vera til taks öllum stundum. Þetta er öryggismál almennings og ekki síst sjófarenda. Ef það hættuástand skapast að þyrlurnar verða ekki til taks, þá þarf að skoða ýmsar leiðir alvarlega,“ sagði Áslaug, sem áréttaði að það væri alvarlegt inngrip en hlutverk ráðherra væri að tryggja öryggi við leit og björgun. Því yrði allra leiða leitað til þess. Ekki náðist í fulltrúa flugvirkja í gærkvöldi.