Hvað er að frétta að norðan? Allt ljómandi. Hér er frábært veður, eins og nærri má geta! Enda nota ég slagorðið Oftast sólarmegin á Akureyri.net. Ég gat ekki sagt alltaf, menn ráða því svo hvort það á við veðrið eða vefinn sjálfan.
Hvað er að frétta að norðan?

Allt ljómandi. Hér er frábært veður, eins og nærri má geta! Enda nota ég slagorðið Oftast sólarmegin á Akureyri.net. Ég gat ekki sagt alltaf, menn ráða því svo hvort það á við veðrið eða vefinn sjálfan.

Hvaða vefur er þetta, Akureyri.net?

Þegar ég var nýhættur á Mogganum haustið 2018 eftir stutt 36 ár, sagði eigandi þessa léns: vessgú! Opnaðu Akureyri.net á ný. Ég var ekki tilbúinn þá en var það núna. Fann að mig langaði að fara aftur út í frétta- og greinaskrif og hef verið að undirbúa þetta í drjúga stund. Ég vildi ekki byrja fyrr en allt væri klárt og þegar tækifæri gafst að fara í loftið föstudaginn þrettánda gat ég ekki annað en gripið það. Við tökum ekkert mark á hjátrú hér fyrir norðan.

Hvað verður fjallað um á vefnum?

Fyrst og fremst verða þar fréttir og mannlífsgreinar frá Akureyri og nærsveitum. Og um Akureyringa, heima og að heiman. Það má horfa út fyrir bæjarlækinn. Svo ætla ég að sinna íþróttum vel og menningu, þótt það sé rólegt núna á þeim vettvangi. Fólk vill lesa um fólk, og hér er fólk alltaf eitthvað að brasa eins og annars staðar.

Ertu eini starfsmaðurinn?

Já, enn sem komið er og það er gott að vera einn því þá ræð ég öllu sjálfur! En ég fékk pistlahöfunda til liðs við mig og greinahöfunda úti í bæ.

Var þörf fyrir svona fréttavef á Akureyri?

Já, ég held það. Ég er svo sem ekki að hugsa um það eða hvort ég sé í samkeppni við aðra fjölmiðla. Ég geri það sem mig langar til að gera og svo kemur í ljós hvort fólk kann að meta það eða ekki.

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Alveg frábærar. Mörg þúsund manns fara inn á vefinn á hverjum degi. Það er mikil traffík.

Akureyri.net er nýr fréttavefur undir stjórn Skapta Hallgrímssonar blaðamanns. Þar verða sagðar fréttir af Akureyringum og nærsveitafólki og fjallað um menningu og íþróttir.