Krabbameinsfélagið Er með leitarstöð, fræðslustarf og heldur einnig utan um krabbameinsskrána fyrir Ísland.
Krabbameinsfélagið Er með leitarstöð, fræðslustarf og heldur einnig utan um krabbameinsskrána fyrir Ísland. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Lífshorfur fólks á Norðurlöndum sem fær krabbamein eru með þeim bestu í heiminum og hafa batnað á síðasta 25 árum. Þetta kemur fram í nýrri samanburðarrannsókn sem byggð er á gögnum úr krabbameinsskrám á Norðurlöndum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Lífshorfur fólks á Norðurlöndum sem fær krabbamein eru með þeim bestu í heiminum og hafa batnað á síðasta 25 árum. Þetta kemur fram í nýrri samanburðarrannsókn sem byggð er á gögnum úr krabbameinsskrám á Norðurlöndum. Krabbameinsfélag Íslands heldur utan um krabbameinsskrána hér á landi.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, sagði að Ísland stæði sérstaklega vel hvað varðar lífshorfur fólks, sem fengið hefur lungnakrabbamein eða endaþarmskrabbamein, fimm árum eftir greiningu. Hún sagði að þrátt fyrir almennt góðan árangur væri ástæða til að skoða stöðu hér á landi út frá svona góðum samanburðarrannsóknum, rýna til að sjá hvort einhverjir veikleikar kynnu að vera hér, til að geta gert betur.

„Þar vil ég nefna bæði brjóstakrabbamein kvenna og blöðruhálskirtilskrabbamein karla, sem eru algengustu krabbameinin hjá körlum og konum. Lífshorfur þeirra sem fá þessi mein hér á landi eru í lægri kantinum í norrænum samanburði. Þrátt fyrir að vera í lægri kantinum í norrænum samanburði er árangurinn í meðferð þessara krabbameina hér á landi mjög góður á heimsvísu.“

Halla sagði að stórbættur árangur Dana varðandi krabbamein vekti mikla athygli. „Danir stóðu lengi verst Norðurlandaþjóða í mörgu varðandi krabbamein. Þeir tóku sig mjög mikið á með skipulögðum hætti. Hafa gert krabbameinsáætlanir og sett skýr markmið um hverju á að breyta til batnaðar og hvernig. Hafa sett fram áætlanir með tímasettum og fjármögnuðum markmiðum. Sú aðferðafræði hefur greinilega skilað árangri,“ sagði Halla. Krabbameinsáætlanir annars staðar á Norðurlöndum hafa gefið mjög góða raun. Krabbameinsáætlun var samþykkt hér og innleidd í upphafi síðasta árs, sem var gott fyrsta skref. „En mér vitanlega er ekki búið að forgangsraða ákveðnum markmiðum í krabbameinsáætluninni, tímasetja þau og fjármagna. Ef ekki er gerð aðgerðaáætlun þá er þetta til lítils,“ sagði Halla.

Hún sagði að Danir hefðu meðal annars skipulagt reglulega skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Lengi hefði verið beðið eftir slíku hér á landi. „Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi með skipulegum hætti er komin misjafnlega langt á veg hjá öllum norrænu þjóðunum nema hér. Skimunin getur komið í veg fyrir slíkt krabbamein og ef það greinist snemma verður meðferðin ekki jafn þung og ella. Það er brýnt að gera þetta vegna þess að við missum rúmlega einn á viku hér á landi úr ristilkrabbameini.“

Færri greind í faraldrinum

Vísbendingar eru um að færri krabbamein hafi greinst í kórónuveirufaraldrinum hér á landi, líkt og víða um lönd, en endranær. Halla sagði að engin teikn væru um að krabbameinum væri að fækka en þetta benti til þess að krabbamein hefði ekki verið greint. Mikil umræða er um þetta víða varðandi áhrif Covid-19 á aðra sjúkdóma. Ástæða færri greindra krabbameina er líklega sú að fólk bíði lengur en ella með að leita læknis í faraldrinum. „Við höfum áhyggur af þessu því þetta getur þýtt að þegar meinin greinast verði þau lengra gengin en ella. Eins getur þetta valdið meira álagi á heilbrigðiskerfið eftir að faraldrinum léttir,“ sagði Halla.