Fjarkennsla Vegna Covid-19 er þetta staða flestra nemenda nú um stundir.
Fjarkennsla Vegna Covid-19 er þetta staða flestra nemenda nú um stundir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Völu Pálsdóttur: "Skólarnir sem voru að hefja nýja önn í vikunni eru í lykilstöðu að fá nemendur inn í skólann til að mynda tengsl næstu fjórar vikurnar"

Ef ég væri nemandi í framhaldsskóla væri myndin sem blasir við kennara í fjarkennslu sú sama og fylgir þessari grein. Dökkur flötur með nafni, ég væri nefnilega ekki í mynd. Kannski heyrir kennarinn mig svara já þegar hann les upp eða ég set í kommentakerfið að ég hafi verið í vandræðum með hljóðið en ég sé mætt. Vissuð þið að ég get skráð mig inn sem Vala í gegnum tölvuna og sem Gunnar í gegnum símann? Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að mæta í tíma eins og í dag.

Kannast eitthvert foreldri við að barn fylgist með tíma uppi í rúmi? Eða er jafnvel að spila tölvuleik á meðan kennarinn fer yfir kynningu? Í kerfinu eru börnin hins vegar skráð mætt og stjórnendur skólanna segja að brottfall sé lítið og að námið gangi vel. En velflestir kennarar sjá varla framan í nemendur eða jafnvel heyra. Að nemendur skili verkefnum og mæti er einn mælikvarði á að skólastarfið gangi vel en skólinn er bara svo miklu meira.

Fjarkennsla skilar minni árangri

Foreldrar sjá hins vegar annan veruleika. Þeir draga frá gluggatjöldin svo krakkarnir sitji ekki í myrkri, segja þeim að sitja við skrifborð en ekki vera uppi í rúmi og hvetja þau til að klæða sig og fara út yfir daginn. Já og stappa í þau stálinu þegar verkefnin verða þung og reyna að aðstoða eftir bestu getu. Ný hollensk rannsókn um áhrif Covid sýnir að fjarnám skilar minni árangri, jafnvel engum. Það er áhyggjuefni. Þá er ljóst að aðstæður framhaldsskólanema eru misjafnar, þau eru að læra við nýjar aðstæður og það hefur áhrif á einbeitingu og námsárangur. Við munum líklega ekki vita áhrif þessa tímabils á framhaldsskólanema að fullu fyrr en þau eru löngu komin á vinnumarkað, þ.e. ef þau skila sér öll þangað.

Það getur ekki talist gott ef krakkar falla af braut. Það eru þúsundir Íslendinga atvinnulausar í dag, það snertir án nokkurs vafa einhverja unglinga. Það er einmitt á tímum sem þessum sem þau þurfa öryggi skólaumhverfis, hitta kennara og skólafélaga. Skólaumhverfið er einn mikilvægasti þáttur í félagslegum þroska nemenda og til að halda utan um þau í náminu.

Nú er lag að opna

Það eru gríðarleg vonbrigði að flestir skólastjórnendur hafi ákveðið að opna ekki skóla. Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem opnuðu skóla sína. Í nokkrum skólum var ný önn að hefjast, prófin eru afstaðin og samt er fjarnám þar til nýtt ár gengur í garð. Svo virðist sem lítill hvati hafi verið til að endurskipuleggja nýja önn með það að marki að fá krakkana inn í skólann. Það er einmitt tækifæri núna, þegar smitin hafa farið niður og áður en jólaösin hefst. Við vitum nefnilega ekki hvernig mál standa eftir áramót. Skólarnir sem voru að hefja nýja önn í vikunni eru í lykilstöðu að fá nemendur inn í skólann til að mynda tengsl næstu fjórar vikurnar. Það gæti breytt áformum þeirra sem eru að gefast upp í dag.

Brottfall er einn mælikvarði en hvernig nemendur skila sér út úr skólum er besti mælikvarðinn. Mér er þó fyrirmunað að skilja að kennurum finnist skemmtilegt að kenna andlitslausum skjám í stað þess að hafa og sjá nemendur inni í stofu. Tæknin mun nefnilega aldrei leysa mannlega hluta skólaumhverfisins af hendi. En kannski munu kennarar ekki bara skrifa börnin út úr kerfinu heldur einnig sig sjálfa með því að mæta ekki til kennslu þegar þörfin fyrir þá hefur aldrei verið meiri. Myndin er þó heldur dekkri fyrir nemendur.

Viðspyrna skóla í kórónuveirufaraldri verður án efa stór þáttur í ákvörðunartöku 10. bekkinga í vor þegar þeir velja sér framhaldsskóla. Skyldi verða breyting á vinsældum skóla?

Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Höf.: Völu Pálsdóttur