Anna Þorvaldsdóttir tónskáld er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Anna Þorvaldsdóttir tónskáld er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarhátíð Rásar 1 verður haldin í fjórða sinn á miðvikudaginn kemur.

Þema Tónlistarhátíðar Rásar 1 í ár er Þræðir og hverfist um hugleiðingar um tímann með tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Anna Þorvaldsdóttir tónskáld er listrænn stjórnandi hátíðarinnar að þessu sinni. Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur á tónleikum sem sendir verða út í beinni útsendingu frá Hörpu á Rás 1 og í mynd á RÚV.is á miðvikudag kl. 18.30. Engir áhorfendur verða í sal. Tónskáldin eru Haukur Þór Harðarson, Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir og Veronique Vaka.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að geta pantað og frumflutt ný tónverk á þessum annars undarlegu tímum sem við lifum nú. Tónlistin hefur mátt til að snerta okkur af einstakri dýpt, til þess að ná tengingu við fortíð, nútíð og jafnvel framtíð, og til að gefa okkur tengingu hverju við annað þar sem orðunum sleppir,“ segir Anna Þorvaldsdóttir.