Höfundur og hundur hans Ófeigur og Kolur í stofunni heima. „Draumar, fyrirboðar og fjarskyggni hafa alltaf verið hluti af bókmenntum okkar.“
Höfundur og hundur hans Ófeigur og Kolur í stofunni heima. „Draumar, fyrirboðar og fjarskyggni hafa alltaf verið hluti af bókmenntum okkar.“ — Morgunblaðið/Eggert
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Draumar eru stór hluti af vitundarlífi okkar og þeir eru enn samofnir menningunni. Draumar lýsa upp djúpið innra með okkur og allt sem þeim tengist er ekki svo fjarlægt í nútímanum, ég hef fengið símtöl eftir að bókin mín kom út þar sem fólk segir mér frá draumum sínum, að bókin hafi opnað á þá,“ segir Ófeigur Sigurðsson rithöfundur sem nýlega sendi frá sér bókina Váboðar, en þar koma draumar og fuglar m.a. mikið við sögu.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Draumar eru stór hluti af vitundarlífi okkar og þeir eru enn samofnir menningunni. Draumar lýsa upp djúpið innra með okkur og allt sem þeim tengist er ekki svo fjarlægt í nútímanum, ég hef fengið símtöl eftir að bókin mín kom út þar sem fólk segir mér frá draumum sínum, að bókin hafi opnað á þá,“ segir Ófeigur Sigurðsson rithöfundur sem nýlega sendi frá sér bókina Váboðar, en þar koma draumar og fuglar m.a. mikið við sögu.

„Þetta eru smásögur og sagnaþættir úr fortíð, nútíð og framtíð, ég var að vinna með hefð alþýðuskrifa og frásagna en þessa bók langaði til að verða skáldsaga. Ég reyndi að halda henni í skorðum, en sögurnar vildu tengjast og sama fólkið og atburðir koma fyrir í fleiri en einni sögu.“

Þegar Ófeigur er spurður að því hvort hann lesi í sína eigin drauma, segist hann vera að æfa sig í því.

„Okkur á heimilinu finnst gaman að rýna í drauma, ég reyni líka að lesa hvað Kol dreymir, hann er oft á harðahlaupum í svefni og að berjast við ketti og aðrar forynjur. Ég fór einu sinni á draumanámskeið hjá miðli og á tímabili skrifaði ég draumadagbók, en ég hef líka áhuga á hvernig hefur verið skrifað um drauma og hvernig þeir birtast í bókmenntum og alþýðuskrifum. Það er ákveðin list að gera drauma áhugaverða. Nítjándu aldar maðurinn Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi ferðaðist um sveitir og skráði drauma fólks. Bókin hans, Dulrænar smásögur, hefur lengi verið nálægt mér. Fyrsti draumurinn sem Brynjúlfur skráði er draumur langalangömmu minnar, en hana dreymdi fyrir hver yrði eiginmaður hennar, sem kom fram mörgum árum síðar. Þá var viðhorfið gagnvart draumum að þeir væru hluti af veruleikanum og sannleikanum, sem var rökstutt með því hvernig draumar raungerðust. Það er svo frjór skáldskapur í draumum og einmitt þar er sannleikann að finna. Hinar leyndu víddir innan drauma geyma mögulega eitthvað í sér um framtíðina eða baksvið veruleikans, hvort sem það er smávægilegt eða stórvægilegt og það má lesa í drauma til að koma í veg fyrir sársauka eða að minnsta kosti vinna úr honum,“ segir Ófeigur og bætir við að draumar, fyrirboðar og fjarskyggni hafi alltaf verið hluti af bókmenntum okkar.

„Ég heillaðist mikið af draumi Flosa í Brennunjálssögu, þegar bergrisinn gengur út úr Lómagnúp og kallar fram nöfn hinna feigu manna. Ég hafði aldrei lesið neitt jafn flott. Þegar draumar koma fyrir í bókmenntum þá fer textinn inn á svið hins sammannlega, varðandi tákn og fyrirboða og eitthvað handan við líf og dauða. Sömu tákn og sömu merkingar finnast í óskyldum menningarsamfélögum. Ég hrífst af þessu.“

Krækja augu úr skuldunautum

Í Váboðum varpar Ófeigur ljósi á ýmislegt úr samtímanum sem betur mætti fara. Neyslufirring nútímans kemur þar við sögu, hégómi og yfirborðsmennska efnishyggjunnar þar sem naumhyggjuheimili „bergmála eymd þeirra sem þar búa“. Angist, kvíði og kúgun ríkja meðal mannfólks sem titrar að innan í velmeguninni og á einum stað talar hann um öld heiladauðans. Femínisma, karlmennsku og ótal margt fleira ber á góma og náttúran og tengsl okkar mannfólksins við hana eða öllu heldur tengslaleysið er ætíð nærri. Í sögunum bregður fyrir handrukkurum sem „krækja augu úr vorum skuldunautum“ og þar er einnig komið inn á kynþáttahyggju og mansal hjá starfsmannaleigu. Ófeigur segir að sagan um starfsmannleiguna sé byggð á draumi sem hann dreymdi.

„Ég skrifaði drauminn niður og gerði hann að smásögu.“ En þó víða sé dauði handan við horn í sögunum þá er þar líka gáski, margt er fyndið á óþægilegan hátt. Yfir öllu ríkir ísmeygilegur óhugnaður, en þar er líka hlýja og áminning um að við megum ekki hætta að hlusta á drauma og taka eftir táknum.

Covid kemur eins og áminning

Eyðilegging mannsins á heimkynnum sínum kemur við sögu og þegar Ófeigur er spurður að því hvort hann óttist að við mannskepnurnar séum að tortíma okkur, segir hann að vissulega séu svartir tímar í tengslum við loftslagsbreytingar, lífríkið og dýraríkið.

„Covid kemur eins og áminning. Mér finnst óhuggulegt þegar við bíðum eftir að aftur komist á „eðlilegt“ ástand, sem var í raun orðið mjög óeðlilegt ástand. Við virðumst ætla að snúa til baka af tvöföldum þunga og ég get alveg dottið í svartsýnisköst út af þessari vegferð okkar. Ég viðurkenni að ég hneigist að dekkri bókmenntatextum, ég er til dæmis hrifnastur af köflum í Biblíunni þar sem Guð er reiður og hefnigjarn eins og í Nahúm, en þá hrífst ég í raun af tungumálinu og hughrifum textans, orðsnilldinni. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var með annan fótinn í gamla tímanum í rétttrúnaðinum, hann skildi Skaftáreldana sem viðreisn siðferðisins. Ég held við ættum að temja okkur þess háttar hugsun. Núna þegar við mannfólkið komum svo illa fram við aðrar lífverur sem raun ber vitni, þá sendir Guð til okkar minnstu lífveru veraldar, veiru, til að kollvarpa heiminum okkar. Það er svartur húmor í því.“

Hrifnæmir vísindamenn

Engum sem les Váboða ætti að koma á óvart að Ófeigi finnst fuglar, þegnar himinsins, vera stórkostlegt fyrirbæri. Hann er líka heillaður af fyrri tíma fuglafræðingum.

„Gömlu náttúrufræðingarnir, þegar fræðin voru ung, voru hrifnæmir vísindamenn sem lögðu hjartað undir þegar þeir rannsökuðu náttúruna. Finnur Guðmundsson kemur við sögu í bókinni, var stílfimur maður og þegar hann þýddi Fugla Íslands og Evrópu bjó hann til 420 ný fuglanöfn sem standa öll enn í dag. Það er svolítið mikið afrek.“

Þegar Ófeigur er spurður að því hvað hann sé að segja með bók sinni Váboðum, svarar hann að einna helst fjalli bókin um mannlega samveru. Og jafnvel bakhlið mannlegrar samveru í gegnum drauma og hið yfirskilvitlega.

„Til dæmis dýrmæti þess að læra af öðrum að meta steina eða fugla eða skeljar og finna um leið gáttina inn í aðrar víddir. Það er einhver rósemd í slíkri samveru, sem svo auðveldlega er fjarverandi. Þeir sem hafa fengið mikið af slíkri miðlun eru yfirleitt stórar manneskjur sem geta gefið mikið af sér, í stóru og smáu, hvort sem það er í vísindaheiminum eða innan fjölskyldu. Ég fékk áhuga á fuglum þegar ég var lítill, en ég tók ekki upp á því sjálfur, því var miðlað til mín. Gleðin er á báða bóga, ef maður getur miðlað til annarra, þegar maður finnur áhugann, þekkinguna og gleðina.“