Prestastefna Gert er ráð fyrir taprekstri kirkjunnar á næsta ári en síðan fer að rofa til. Áætlunin gerir ráð fyrir 144 stöðugildum biskupa og presta.
Prestastefna Gert er ráð fyrir taprekstri kirkjunnar á næsta ári en síðan fer að rofa til. Áætlunin gerir ráð fyrir 144 stöðugildum biskupa og presta. — Morgunblaðið/Ómar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Gert er ráð fyrir að Biskupsstofa(þjóðkirkjan) verði rekin með 91 milljónar króna tekjuhalla árið 2021, samanborið við 54 milljóna króna tekjuhalla í áætlun ársins 2020. Kirkjuþing fundaði sl.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Gert er ráð fyrir að Biskupsstofa(þjóðkirkjan) verði rekin með 91 milljónar króna tekjuhalla árið 2021, samanborið við 54 milljóna króna tekjuhalla í áætlun ársins 2020.

Kirkjuþing fundaði sl. fimmtudag um fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar fyrir árið 2021.

Ráðgjafarsvið KPMG ehf. hefur aðstoðað þjóðkirkjuna/Biskupsstofu við fjárhagsáætlunargerð ársins 2021 og að styrkja innviði til áætlunargerðar í framtíðinni. „KPMG og Biskupsstofa hafa, við gerð fjárhagsáætlunarinnar, leitað leiða til hagræðingar sem nú þegar hefur verið tekið tillit til í fjárhagsáætluninni. Framundan er þörf á frekari umbótum innan Biskupsstofu,“ segir í samantekt fjárhagsáætlunarinnar.

Rekstrartekjur Biskupsstofu árið 2021 eru áætlaðar alls krónur 3.926.567.892. Þar vega greiðslur úr ríkissjóði langmest, en þær eru áætlaðar 3.845 milljarðar. Leigutekjur eru áætlaðar tæpar 80 milljónir.

Gagngreiðslur ríkissjóðs Íslands byggjast á viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019 og forsendum þar að lútandi, segir í áætluninni.

Vegin hækkun gagngreiðslna á milli ára er áætluð 3,2%, en áætluð gagngreiðsla byggist á gögnum úr fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Almennt er gert ráð fyrir 2,4% verðlagshækkun á árinu 2021 og 3,0% hækkun launa starfsmanna Biskupsstofu.

Laun og launatengd gjöld vega langþyngst í rekstrarkostnaði Biskupsstofu/þjóðkirkjunnar. Þær greiðslur eru áætlaðar rúmir þrír milljarðar á næsta ári eða 77,5% af öllum kostnaði.

Áætlunin gerir ráð fyrir 144 stöðugildum biskupa og presta að meðaltali, að teknu tilliti til mannabreytinga og afleysinga vegna veikinda og námsleyfa, og launum og launatengdum gjöldum þeirra. Stöðugildi einstakra sviða á Biskupsstofu eru 32. Þetta eru fasteignasvið, fræðslusvið, rekstrarsvið og þjónustusvið.

Samkvæmt fimm ára fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar, þ.e. fyrir árin 2021-2025, er áætlað að umskipti verði á rekstrinum strax árið 2022. Þá er gert ráð fyrir tæplega 10 milljóna tekjuafgangi og 43 milljóna afgangi öll árin þar á eftir.