Garðabær Helgi Valur í leik gegn Stjörnunni í júní áður en ógæfan dundi yfir.
Garðabær Helgi Valur í leik gegn Stjörnunni í júní áður en ógæfan dundi yfir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Ófáir íþróttaáhugamenn ráku upp stór augu þegar Fylkir tilkynnti á dögunum að félagið hefði gert nýjan samning við Helga Val Daníelsson um að leika með Fylki í efstu deild karla í knattspyrnu á næsta ári. Manninn sem fjórbrotnaði í leik í lok júní og átti ekki von á öðru en að ferlinum væri lokið en Helgi verður fertugur næsta sumar. Fyrstu viðbrögð Helga þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir fótbrotið síðasta sumar voru þau að ferlinum hlyti að vera lokið. Hann gaf sig hins vegar ekki og segist nú vera farinn að sjá til lands en Morgunblaðið hafði samband við Helga í gær.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ófáir íþróttaáhugamenn ráku upp stór augu þegar Fylkir tilkynnti á dögunum að félagið hefði gert nýjan samning við Helga Val Daníelsson um að leika með Fylki í efstu deild karla í knattspyrnu á næsta ári. Manninn sem fjórbrotnaði í leik í lok júní og átti ekki von á öðru en að ferlinum væri lokið en Helgi verður fertugur næsta sumar. Fyrstu viðbrögð Helga þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir fótbrotið síðasta sumar voru þau að ferlinum hlyti að vera lokið. Hann gaf sig hins vegar ekki og segist nú vera farinn að sjá til lands en Morgunblaðið hafði samband við Helga í gær.

„Þetta hefur gengið mjög vel held ég og ég var aðeins byrjaður að taka þátt í æfingum með Fylki síðustu vikuna áður en Íslandsmótið var flautað af. Liðnar eru nokkrar vikur og ég held ég sé ennþá betri núna. Það er svekkjandi að engar æfingar séu í gangi um þessar mundir til að geta unnið betur í þessu, varðandi ýmsar hreyfingar sem tengjast fótboltanum. Ég á náttúrlega langt í land með formið enda hef ég ekki keppt í marga mánuði né verið á æfingum þar sem ákefðin er mikil,“ segir Helgi og hann hefði ekki skrifað undir nýjan samning við Fylki nema hann líti svo á að hann muni geta beitt sér með liðinu í úrvalsdeildinni næsta sumar.

„Eins og staðan er núna ætti það alveg að ganga. Maður veit ekki alveg hvernig það verður þegar maður er kominn í alvörufótbolta. Þá fer maður að taka spretti, tækla og gera ýmislegt sem ég hef ekki gert ennþá eftir aðgerðina. Ég gerði samning og stefni á að vera tilbúinn áður en Íslandsmótið hefst. Ég hef því töluverðan tíma áður en tímabilið byrjar fyrir alvöru. Fljótlega í desember hefjast væntanlega fótboltaæfingar aftur og ef það verður góð stígandi í þessu hjá mér ætti ég alveg að geta spilað. Annars hefði ég ekki skrifað undir samning á þessum tímapunkti. Hjá Fylki skilja menn auðvitað að gangi þetta ekki upp af heilsufarsástæðum þá verður það bara að vera þannig. Mér líður alla vega þannig að ég geti spilað fótbolta og það er ekkert mál að sparka í bolta. En þegar maður þarf að gera hlutina hratt, hvort sem það eru stefnubreytingar eða annað, verður að koma í ljós hvernig fóturinn bregst við því.“

Hvaðan kemur hvatningin?

Helgi hefur verið lengi að og var til að mynda kominn út til Englands árið 1998 þegar hann gerðist leikmaður Peterborough. Ferillinn er því orðinn langur. Talið berst að því hvað hvetji hann áfram þegar hann er orðinn 39 ára. Er keppikefli eftir langan feril að ferlinum ljúki ekki á börum á leið út af Fylkisvellinum og í sjúkrabíl?

„Já það er hluti af þessu. Tímabilið í fyrra var fínt en eftir það setti kórónuveiran svip sinn á undirbúningstímabilið og Íslandsmótið. Það var því svekkjandi að ná ekki að spila nema tvo leiki og helming þess þriðja. Eftir að ég meiddist fylgdist ég með leikjunum og ég fann að ferillinn er ekki búinn. Ég fann að mig langaði að spila fótbolta aftur. Þá fór ég að kynna mér sambærileg meiðsli og hversu lengi knattspyrnumenn hefðu verið að ná sér eftir slík meiðsli.

Ég komst að því að dæmi eru um að menn hafi náð ágætri heilsu eftir fjóra mánuði og hafi getað spilað alvöruleiki á ný eftir sex til sjö mánuði. Ég var einmitt orðinn góður eftir svona fjóra mánuði og gat þá tekið þátt í æfingum. Ég notaði þetta sem hvatningu því þetta er ekki svo langur tími og áttaði mig á því að ferlinum væri ekki endilega lokið. Hægt er að lenda í verri málum og það tekur lengri tíma að ná sér eftir krossbandsslit sem dæmi. Mér leið mjög vel á æfingum og í leikjum fram að slysinu. Mér gekk mjög vel þótt ég sé orðinn eitthvað eldri en aðrir leikmenn. Ég var alveg í standi til að spila síðasta sumar og þá ætti ég að geta spilað næsta sumar. Ég væri alveg til í að ljúka ferlinum á aðeins skemmtilegri nótum en þetta.“

Tvö bein tvíbrotin

Fyrir fólk sem ekki hefur mikla þekkingu á beinbrotum og afleiðingum þeirra er erfitt að skilja hvernig Helgi getur jafnað sig jafn fljótt og útlit er fyrir. Hann fjórbrotnaði því tvö brot urðu í tveimur beinum. Sjálfur segir hann að brotin sjálf hafi verið fínleg og það geti spilað inn í. Aðgerðin sé einfaldari fyrir vikið en hann þurfti vitaskuld að taka það mjög rólega í mánuð eftir slysið. Var þetta ekki stórmál?

„Jú jú, þetta var það. Þetta voru bæði sköflungurinn og bátsbeinið. Þau fóru alveg í sundur rétt fyrir ofan ökkla en einnig rétt fyrir neðan hné. Það kom mér líka sjálfum á óvart að afleiðingarnar væru svona miklar þegar ég sá fyrstu röntgenmyndirnar. Læknarnir tóku sér svolítinn tíma að ákveða hvernig þeir ætluðu að framkvæma aðgerðina. Þegar ég sá myndirnar eftir aðgerðina leit þetta allt betur út. Þetta voru allt hrein brot og pinninn sem var setur í nær í gegnum allt. Leggurinn er því mun sterkari en hann var áður. En annað í kring eins og hné og ökkli er stíft og stirt eins og er. Ef viljinn er til staðar getur maður náð sér 100%“ segir Helgi.

Rúmliggjandi í júlí

„Ég var allan júlímánuð uppi í rúmi meira og minna. Ég fékk ýmsar æfingar til að gera alveg strax. Fékk teygju til að nota við æfingar og reynt var að virkja sem flest sem hægt var til að byrja með. Þeir fóru inn í gegnum hnéð þegar þeir settu pinnann í og ég var því líka stokkbólginn í hné. Ég hitti fljótt sjúkraþjálfarann hjá Fylki og það má vera að ég hafi byrjað fyrr í endurhæfingu en almennur borgari hefði gert eftir svona aðgerð. Rúnar sjúkraþjálfari er einnig sjúkraþjálfari landsliðsins og hann hefur séð ýmislegt í þessum bransa. Hann sagði að ég gæti treyst pinnanum í leggnum og ætti þá að reyna að gera það sem ég gæti upp að sársaukamörkum. Ég held að megi segja að ég hafi keyrt nokkuð ákveðið á endurhæfinguna fyrstu mánuðina á eftir. Ég tók framförum nokkuð hratt og það hvetur mann áfram,“ segir Helgi Valur Daníelsson.