Listamaðurinn „Ef menn hafa áhuga á þessu verki þá búa þeir til sína áttavita úr því sjálfir,“ segir Kristinn um verk úr bókartitlum sem bera í sér áttir.
Listamaðurinn „Ef menn hafa áhuga á þessu verki þá búa þeir til sína áttavita úr því sjálfir,“ segir Kristinn um verk úr bókartitlum sem bera í sér áttir. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Dægursveifla er heiti sýningar Kristins E. Hrafnssonar myndlistarmanns sem verður opnuð í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu í dag.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Dægursveifla er heiti sýningar Kristins E. Hrafnssonar myndlistarmanns sem verður opnuð í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu í dag. Dægursveifla flóðs og fjöru birtist í lágmynd á vegg; á gólfi eru stálverk með áletrunum sem snúast um samhverfu daganna og tíminn kemur víða við sögu; á gólfi aðalsalarins er til dæmis helmingur lábarins hnullungs sem hefur verið klofinn og í sárið skrifað orðið „Norðanvið“. Hinn helminginn er að finna í innri sal og á honum stendur „Sunnanvið“. Á einum veggnum er síðan fjöldi myndverka sem byggjast á bókarkápum.

„Þessi myndröð heitir „Farið um heiminn“ og er um bækur, skáldverk að mestu, þar sem titlarnir bera í sér áttir,“ segir Kristinn. „Að baki er sú hugmynd að bókmenntirnar séu áttaviti í lífinu og geti verið manni innblástur eða hjálpað við að skilja heiminn – eins og listin gerir. Listin er um lífið, um heiminn. Hún er ekki bara skrásetning á einhverju heldur heimspekileg vídd um hvað felst í því að vera manneskja og fara um heiminn,“ segir hann.

Í þessum verkum hefur Kristinn tekið heiti bókanna og nöfn höfunda og endurskapað titlana með leturtýpunni af frumverkinu og ráðandi lit af kápunum. „Ef menn hafa áhuga á þessu verki þá búa þeir til sína áttavita úr því sjálfir,“ segir hann. „Þeir geta tekið fjórar áttir og búið til sinn kompás.“ Það gætu til dæmis verið Seld norðurljós eftir Björn Th. Björnsson, East of Eden eftir Steinbeck, Úr landsuðri eftir Jón Helgason og Ode to the West Wind eftir Percy Bysshe Shelley.

Má í þessum vísunum í bókmenntaverk lesa traust Kristins á listunum sem vegvísi?

„Algjörlega,“ er svarið. „Ég hef lengi fengist við áttir og áttavita, siglingafræði, stjörnufræði og slíkt og allt er það leit að einhverskonar skilningi á veruleikanum. Á staðsetningu okkar í þessu kosmíska stóra samhengi. Mér fannst þetta verk með titlum bóka eiga heima í þessu samhengi, sem snýst um dægursveifluna, því dægursveiflan er í grunninn kosmískt ástand líka. Það snýst um áhrif himintunglanna á allar hreyfingar og líðan okkar, og það hvernig spilast úr deginum. Himintunglin ráða miklu um það. Flóð og fjara, nótt og dagur. Það er eins í sálinni, þetta hangir allt saman.“

Kristinn tekst á við þessi öfl á ýmsa vegu og á sýningunni skiptast á létt pappírsverk og massi skúlptúranna.

„Það er viss frásögn í þeim öllum þótt þau líti út eins og konkretljóð,“ segir hann. „Ég skef hugsanirnar niður í einhverja hreyfingu, tæra hugmynd eða sveiflu, og það ber ég á borð. Mér finnst það ánægjulegt ferðalag.“

Þess má geta að Kristinn er með aðra sýningu í borginni en í Smiðsbúðinni í gömlu verbúðunum við höfnina lýkur sýningu með verkum hans um helgina.