[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.

Fréttaskýring

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

„Ég vildi fá launin mín og við komumst ekki að samkomulagi, þess vegna fór þetta fyrir dóm,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson við Morgunblaðið í gær en hann hefur átt í erfiðri deilu við sitt gamla félag ÍR.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á þriðjudaginn körfuknattleiksdeild ÍR til að greiða Sigurði tæpar tvær milljónir króna auka dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Sigurður gerði tveggja ára samning við ÍR á síðasta ári, eftir stutta dvöl í Frakklandi, en sleit hins vegar krossband strax í fyrsta leik og gat ekki tekið frekari þátt með liðinu út tímabilið.

ÍR-ingar riftu samningi við Sigurð í vor, eftir að keppni á Íslandsmótinu var hætt vegna kórónuveirufaraldursins, en áður kom upp ágreiningur um hvort félagið ætti að greiða honum laun þann tíma sem hann var frá keppni vegna meiðsla. ÍR hafði þá ekki greitt honum frá og með desember. Sigurður höfðaði mál á hendur félaginu og krafði það um að greiða sér ógreidd laun á tímabilinu desember 2019 til mars á þessu ári.

ÍR-ingar töldu sig ekki þurfa að greiða Sigurði endurgjald af vinnuframlagi sem hann innti ekki af hendi enda hefðu þeir gert verktakasamning við hann. Töldu þeir að verktakar bæru sjálfir ábyrgð á að tryggja sig, ef slys bæri að höndum. Dómurinn komst hins vegar að því að áhætta vegna slysa sem ættu sér stað í samningsbundnum körfuknattleikjum hvíldi á félaginu.

„Að leikmaður meiðist í leik er væntanlega það sem fylgir íþróttinni, það er alltaf viss hætta til staðar. Eiga íþróttamenn að leggja sig fram af ástríðu og fórna líkama sínum en svo má henda þeim út í horn eins og gömlum tuskum ef þeir meiðast?“ sagði Sigurður, sem nú er leikmaður Hattar.

Sigurður leitaði ráðlegginga hjá Körfuknattleikssambandi Íslands sem gat þó ekki beitt sér í málinu. „Það voru engar reglur innan KKÍ um hvað ætti að gera í þessari stöðu. Sambandið gat ekki beitt sér í þessu máli og ég fékk að heyra að þótt ég væri ekki fyrsti leikmaðurinn til að leita til KKÍ út af svona ágreiningi væri ég fyrsti íslenski leikmaðurinn í svona stöðu,“ sagði hann og kvaðst feginn að hafa unnið málið, enda hefur þetta tekið langan tíma og reynt mikið á. „Það er bara vonandi að félög reyni ekki að leika þetta eftir í framtíðinni.“

Ágreiningsmál koma upp

„Auðvitað koma upp ágreiningsmál og við höfum oft komið að þeim og reynt að hjálpa til, í 99,9% tilfella leysist svona ágreiningur en þarna var það ekki hægt,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, er Morgunblaðið sló á þráðinn til hans. „Það hafa komið upp ágreiningsmál hjá erlendum leikmönnum sem eru þá með umboðsmenn. Þau mál hafa þá verið rekin fyrir gerðardómstól innan alþjóðaknattspyrnusambandsins (BAT). En við munum ekki eftir svona dómsmáli,“ bætti hann við.

„Það er minna um að íslenskir leikmenn séu með umboðsmenn, jafnvel þeir sem hafa spilað erlendis. En þegar svo er statt er alltaf ákvæði um að ágreiningur sé leystur fyrir BAT,“ sagði Hannes jafnframt og benti á að sambandið myndi að sjálfsögðu rýna betur í þetta mál þegar færi gæfist.

Næsta skref ÍR óljóst

Stjórn körfuknattleiksdeildar ÍR á eftir að koma saman og ráða ráðum sínum eftir að dómurinn féll á þriðjudaginn. Félagið hefur því ekki tekið ákvörðun um hvort honum verður áfrýjað til Landsréttar.

„Þetta er tiltölulega nýskeð og stjórnin hefur ekki haft tök á að hittast frá því dómurinn féll. Við ætlum að kynna okkur hann almennilega og svo ræðum við saman,“ sagði Guðni Fannar Carrico, formaður körfuknattleiksdeildarinnar.

Annað mál í aðsigi

Þótt dómsmál sem þessi séu sjaldgæf innan körfuboltahreyfingarinnar er sennilega annað í aðsigi á næstunni. Landsliðsmaðurinn Kristófer Acox og núverandi leikmaður Vals í úrvalsdeildinni telur sig eiga inni vangoldin laun hjá uppeldisfélagi sínu KR. Hann fékk samningi sínum við félagið rift í vetur og vildu KR-ingar meðal annars ekki skrifa undir félagaskipti hans til Vals.

Að sögn Kristófers hafa KR-ingar ekki greitt laun á réttum tíma undanfarin ár og sagði hann við Vísi í vetur að félagið skuldaði sér milljónir.

Þá eru svona deilur ekki beint nýjar af nálinni. Kristinn Björgúlfsson, framkvæmdastjóri Leikmannasamtaka Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í vetur að of margir leikmenn í boltagreinunum á Íslandi þekktu ekki vel þann rétt sem þeir hefðu. „Fáir leikmenn þekkja reglugerðirnar. Þeir eru oft illa upplýstir. Í mörgum tilfellum virðast leikmenn skrifa undir samninga og vita lítið hvað í þeim felst. Til dæmis hvort þeir séu launþegar eða verktakar,“ sagði Kristinn. Áhugavert verður að fylgjast með þróun þessara mála á næstu misserum.