Gunnar I. Birgisson
Gunnar I. Birgisson
Eftir Gunnar Ingi Birgisson: "Nú er starf þingmanna orðið þægileg og vel launuð innivinna, ásamt upphitaðri skrifstofu með aðstoðarmenn á hverjum fingri."

Ofangreind fyrirsögn á fyllilega rétt á sér. Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi eru allir sammála um eitt mál, sem er sívaxandi framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokkanna óháð stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma. Þessi fjáraustur til stjórnmálaflokkanna er gerður á þeim forsendum að styðja við lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu.

Stjórnmálaflokkarnir eru greinilega hættir við að fjármagna sig með framlögum frá flokksmönnum og fyrirtækjum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði mikla sérstöðu þar sem byggt var upp öflugt styrktarmannakerfi sem fjármagnaði starfsemi flokksins að miklu leyti. Í dag er staðan sú að þetta fyrirkomulag er nánast liðið undir lok. Aftur á móti hafa vinstri flokkarnir aldrei haft nennu eða getu til að safna fé til reksturs utan gömlu kommanna í Alþýðubandalaginu sem skildu þetta. Þá má einnig nefna að sveitarfélögin láta fjármuni renna til stjórnmálaflokkanna.

Nú er starf þingmanna orðið þægileg og vel launuð innivinna, ásamt upphitaðri skrifstofu með aðstoðarmenn á hverjum fingri. Toppsætið í þessari vegferð á minnsti þingflokkurinn, sem í eru tveir þingmenn, með þrjá starfsmenn. Allt á kostnað skattgreiðenda.

Þrátt fyrir þessa veglegu fjárhagsaðstoð frá skattgreiðendum, yfir 700 milljónir króna, auk fjölda aðstoðarmanna, er erfitt að sjá að þetta hafi haft í för með sér aukna skilvirkni. Flestir stjórnmálaflokkanna leita nú inn á miðjuna og troða þar marvaðann. Einstaka þingmenn hafa þó ekki gleymt á hvaða gildum flokkar þeirra voru stofnaðir og nokkrir þeirra viðhalda virku sambandi við kjósendur, sem ekki er til vinsælda fallið hjá miðjumoðsfólkinu.

Annað sem vekur athygli er ákvarðanatökufælni stjórnmálamanna. En hvað gera menn þá? Jú, stofna nefndir, hægri-vinstri, til að komast hjá því að þurfa að taka ákvarðanir. Nær þrjú hundruð nefndir hafa verið settar á laggirnar af yfirvöldum og Alþingi á þessu kjörtímabili. Með þessu lagi veltur stjórnkerfið einhvern vegin áfram út og suður, austur eða vestur, áfram eða aftur á bak. Embættismannakerfið ræður því för og stjórnmálamennirnir láta þetta sér vel líka. Ég sæi til dæmis fyrir mér, sem góða tilhögun, að fjármálaráðherrann yrði ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og samgönguráðherrann yrði forstjóri MAST.

Þessi staða er grafalvarleg og ef fram heldur sem horfir mun þetta enda með skelfingu. Í alþingiskosningunum á næsta ári verður möguleiki fyrir kjósendur að veita þeim frambjóðendum brautargengi, sem hafa kjark til að tjá sig og fara eftir grunngildum síns flokks.

Höfundur er verkfræðingur, fyrrverandi bæjarstjóri og þingmaður. gunnaringib@simnet.is

Höf.: Gunnar Ingi Birgisson